15.11.1939
Neðri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

110. mál, vegalagabreyting

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Enda þótt ég eigi sæti í samgmn., sem þetta frv. ætti að réttu lagi að fara til, þar eð hér er um samgöngumál að ræða, vildi ég samt koma með nokkur almenn ummæli um mál þetta, bæði viðvíkjandi frv. og grg., sem fylgir því, og þeim orðum, sem hv. þm. Barð., sem er aðalflm. þess, lét falla hér áðan.

Það er alkunnugt, að vegal. hafa yfirleitt, síðan þau voru sett í kerfi, haft það einkennilega ákvæði um þau spell, skaða og jarðrask, sem vegalagning hefir orsakað, þar sem vegir eru lagðir um lönd einstakra manna, að bætur fyrir slíkt greiðist úr sýslusjóði, þótt um þjóðvegi sé að ræða. Hvort sem sú forsenda hefir legið til grundvallar fyrir þessu ákvæði í öndverðu, að sýslurnar ættu að borga þetta fyrir það að fá veginn, eða ekki, þá hafa aldrei verið færð nein rök fyrir því.

Ef því ætti að gera breyt. á vegal., sem gæti verið varhugaverð að margra dómi, ætti hún að vera á þá leið, að þessu yrði gerbreytt, og spell og skaðar, er orsökuðust af lagningu þjóðvega. yrðu bætt að fullu úr ríkissjóði. En nú fer bótagreiðsla þannig fram, að bætur eru ekki greiddar eftir kröfu einstakra manna, sem e. t. v. að ófyrirsynju vildu hafa mikið upp úr spellum á landi sínu, þótt vegurinn væri til mikilla samgöngubóta og lægi að mestu leyti um urðir og eyðimörk, heldur eru þær greiddar eftir mati dómkvaddra, óvilhallra manna, er ekki meta slíkt til skaðabóta, nema að mjög vel athuguðu máli. Aðalreglan er sú, að það er metið hvað á móti öðru, sú samgöngubót, sem er að veginum fyrir landið í heild sinni, sýsluna eða sveitina, sem vegurinn liggur um, og sá skaði, sem með því er gerður á jörðum einstakra manna eða almennings. Það hefir því iðulega komið fyrir, að engar bætur hafa verið greiddar, þrátt fyrir kröfur landeiganda og mat dómkvaddra manna. Sumstaðar hefir verið talið, að hagsmunir almennings af þeim samgöngubótum, sem þjóðvegir hafa jafnan í för með sér, væru miklu meira virði en lítilfjörlegt jarðrask, er af vegalagningunni leiddi, og þess vegna tæki engu tali að meta það til bóta. Bætur verða ekki metnar og greiddar, nema mikill skaði hljótist af fyrir ábúendur jarða.

Vegal. hafa það kerfi, að skipa vegum landsins aðallega í 3 flokka, þjóðvegi, sýsluvegi og hreppsvegi. Aðalreglan er að sjálfsögðu sú, og hin eina, sem er „praktiseruð“, að hver aðili kosti sína vegi og beri ábyrgð á þeim, hrepparnir kosta sína vegi og bera ábyrgð á því verki, sýsluv. eru sumpart kostaðir af sýsluvegasjóðum, en oftast af sjóðum sýslnanna, og sýslurnar ráða því, hverjir leggja þá vegi og hvernig það er gert. Þjóðvegirnir eru kostaðir af ríkisfé, en þar sem hreppar landsins og sýslur hafa ekki nokkur afskipti af því, hvaða verkstjórar og verkamenn vinna við slíka vegi og hvernig verkið er framkvæmt, er mjög ósanngjarnt, að sýslusjóðum verði skylt að greiða skaðabætur fyrir jarðrask og landnám í sambandi við lagningu þeirra. Það er þvert á móti öllu náttúrlegu, að sýslurnar beri ábyrgð á verki, sem þær ráða engu um, ekki sízt eins og nú hagar til um atvinnu, vinnubrögð í ákvæðisvinnu og kaupgreiðslur. Það hefir iðulega átt sér stað, að menn í hlutaðeigandi héraði eru mjög óánægðir yfir því, hvernig vegir eru lagðir eða hvernig verkinu miðar áfram. Ég bendi á þetta m. a. til þess að sýna, hversu ósanngjarnt það er, að aðrir aðilar eigi að bera ábyrgð á verkinu en þeir, sem staðið hafa fyrir því. Ég get því sem stendur ekki talið verulega þörf á að koma með brtt. á vegal., en ef á að breyta þeim, vildi ég mælast til, að sú brtt. yrði sanngjarnari en þessi, sem nú liggur hér fyrir, sem sé að í stað þess, að sýslusjóðir eiga að greiða bætur fyrir jarðrask, er hlýzt af lagningu þjóðvega, skuli ríkissjóður greiða þær. Ákvæðið um, að sýslusjóðir skuli bæta slíkt, mun upphaflega hafa átt að styðjast við það, þótt lítil rök hafi verið færð fyrir því, að það væri svo mikill hagnaður fyrir héruðin að fá þjóðveg, að rétt væri að þau hefðu einhvern skell af, ef út af bæri. Þetta er nú alveg úrelt skoðun.

Samkv. ýmsum rökum, sem ég þekki frá fornu fari, mun það einnig hafa vakað fyrir þeim, er settu þetta ákvæði í vegal., að það myndi að líkindum verða gæflegar að farið að heimta bætur greiddar, ef sá aðili, er greiða skal, væri nær, sem sé sýslan, og þá myndi ekki verða farið eins hart í sakirnar eins og ef ríkissjóður ætti að bæta skaðann. Ég býst við, að þessum málum sé víða þannig farið enn þann dag í dag, þar sem skaðar fyrir jarðrask vegna vegalagningar eru metnir til bóta, muni skaðabætur ekki vera metnar eins ríflega, ef þeir eru nærri, sem greiða eiga, eins og ef þeir væru fjær, og ekki myndi slíkt sízt eiga við, ef ríkissjóður væri annarsvegar. En eins og ég gat um áðan, er sá varnagli sleginn við þessu, að skaðabæturnar eru metnar af dómkvöddum og óvilhöllum mönnum, svo að ekki er hætta á, að sérlega ósanngjarnar kröfur yrðu lagðar fram fyrir hlutaðeigandi aðila, eða að skaðabótakostnaður þyrfti að hækka óeðlilega.

Hitt er allskostar varhugavert, að gera upp á milli sýslufélaga, því að það geta orðið skiptar skoðanir um, að hve miklu gagni þjóðvegir séu fyrir héraðsbúa og einn þjóðvegur getur orðið til miklu meiri hagsmuna fyrir héraðið en annar. Sumir þjóðvegir eru e. t. v. næstum eingöngu lagðir fyrir héraðið sjálft, en aðrir eru ekki aðeins til afnota fyrir héraðsbúa, heldur einnig almenning á stórum svæðum. Lagning slíkra þjóðvega getur verið almennt aðaláhugamál fyrir heilan landsfjórðung, eða jafnvel enn stærri hluta landsins. Það er ekki unnt að skipa öllum þjóðvegum í sama flokk, hvorki vegum í Gullbringu- og Kjósarsýslu né Árnessýslu, sem hv. flm. þessa frv. bera sérstaklega fyrir brjósti. Þeir telja, að Krísuvíkurvegurinn verði einna sízt til hagsmuna fyrir þau héruð, sem hann liggur um, og þess vegna sé ekki rétt, að skaðabótaskyldan hvíli eingöngu á þeim, eins og er samkv. núgildandi l. Án þess að ég vilji fara frekar út í þetta, mætti nefna dæmi um fleiri þjóðvegi, sem gætu komið öðrum að meiri notum en héraðsbúum sjálfum. Menn vilja skorast undan að greiða bætur, og oft er ágreiningur um, hve miklar þær eigi að vera. En ef gera á breyt. á vegal. á annað borð, verður hún að ná miklu víðar en hér er lagt til.