15.11.1939
Neðri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

110. mál, vegalagabreyting

*Flm. (Bergur Jónsson) :

Ég hefi ástæðu til að þakka hv. þm. V.-Sk. fyrir undirtektir hans undir þetta mál, því að hann viðurkenndi, að með þessu frv. væri um spor í rétta átt að ræða, enda þótt hann segði í lok ræðu sinnar, að þetta myndi skapa ranga uppgerð milli sýslufélaga, ef ætti að fara að gera upp á milli þeirra, en það yrði að gera, ef þetta frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir. Ég hygg, að svo þurfi ekki að vera. Meiningin með þessu frv. er að leggja áherzlu á það, að láta ríkissj. annast kostnað við vegi, þar sem um almennar samgönguleiðir er að ræða, en ekki þar sem vegir liggja innan héraða, og í flestum tilfellum mun vera mjög auðveit að greina þar á milli. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, að réttast sé, að hrepparnir kosti þær bætur, sem greiða þarf vegna hreppavega, og sýslurnar greiði bætur fyrir lagningu sýsluvega úr sýsluvegasjóði eða sýslusjóði, og ríkissjóður greiði svo bætur vegna þjóðvega. Þetta er hin eðlilegasta regla.

En ástæðan fyrir því, að við flm. þessa frv. förum ekki lengra en hér um ræðir, var sú, að við bjuggumst við, að hagur yrði að því í svip að fá þá leiðrétting, sem nefnd er í frv., en ég vil gjarnan taka höndum saman við hv. þm. V.-Sk. um að fá þessa reglu algerlega útfærða, ef það verður ekki til þess að eyðileggja þetta mál. Meining mín með þessu frv. var upphaflega sú, að koma þessari reglu í l. algerlega með tilliti til eins þjóðvegar, en eins og hv. þm. V.-Sk. gat um, er eðlilegast, að hver aðili kosti sína vegi að öllu leyti. Það skiptir engu máli, þótt hér kynni að blandast hreppapólitík inn í.

Ég er ekki þm. Gullbringusýslu, og það stæði því öðrum manni nær en mér að gæta hagsmuna hennar, þótt ég sé raunar oddviti hreppsnefndar, sem er einn af þeim aðilum, sem sérstök ábyrgð hvílir á í þessu efni. Ég tel það alveg sannað, sem víkið er að í grg. frv., að Krísuvíkurvegurinn er á engan hátt lagður með hagsmuni Gullbringusýslu fyrir augum. Hann er eingöngu lagður með tilliti til þess, að þannig fáist betri vetrarbraut milli hinna stóru héraða Suðurlandsundirlendisins og kaupstaðanna suðvestanlands heldur en Hellisheiðarvegurinn er. Þess vegna var þessi vegur lagður, og hv. þm. V.-Sk. veit mjög vel, að þarna var ekki sótzt eftir neinu af hálfu Gullbringusýslu, heldur var fyrst og fremst um almennan þjóðveg að ræða, því að vegurinn liggur yfirleitt í óbyggðum og kemur Gullbringusýslu því að mjög litlum notum, a. m. k. alls ekki, ef miðað er við hagsmuni annara héraða. Ég veit, að hv. 2. þm. Árn. (BjB), sem er meðflm. þessa frv., muni svara fyrir sig. En þar sem hv. þm. V.-Sk. gaf í skyn, að hér væri um hreppapólitík að ræða, álít ég hana hér engu frekar frá minni hálfu en hans. Ég hefi alls ekki staðið að því, að þessi vegur var lagður. Hv. þm. V.-Sk. veit, að þarna var ekki verið að sækjast eftir hagsmunum G.-K. Vegurinn liggur uppi í óbyggðum, fyrir ofan sýsluna, og er henni að litlum notum. A. m. k. er það víst, að ekki var miðað við hagsmuni G.-K., þegar sá vegur var lagður. Hv. þm. V.-Sk. gaf í skyn, að hér hefði verið um hreppapólitík að ræða. Ég álít, að bann hafi ekki ástæðu til þess að kvarta undan þessum vegi, því að brautin milli Suðurlands og Rvíkur var ekki síður gerð fyrir hagsmuni Skaftfellinga heldur en Árnesinga.