15.11.1939
Neðri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

110. mál, vegalagabreyting

*Eiríkur Einarsson:

Ég tók svo eftir, að hv. flm. óskaði, að þessu frv. yrði vísað til allshn., en ekki samgmn. Ég tel þetta að vísu ekki skipta miklu máli, en hygg þó réttast að vísa því til samgmn. og álít það bezt fyrir framkvæmd málsins.

Það er í rauninni eitt atriði í grg. frv., sem ég vil vekja athygli á. Það eru þær umbætur, sem kæmu til greina með framkvæmd málsins, að Krísuvíkurvegurinn yrði ekki aðalsamgönguleið milli Rvíkur og Hafnarfjarðar annarsvegar og Suðurlandsundirlendis hinsvegar. Í hvert skipti, sem rætt hefir verið um þetta mál, hefi ég undir þessum kringumstæðum viljað láta sjást, að þessi vegagerð er ekki hagkvæm til umbóta á þessari samgönguleið. Mér finnast samgöngubæturnar vera höfuðatriðið, sem kemur til greina í þessu sambandi. Það er ekki of seint að athuga það, meðan málið er ekki komið lengra, að færa það til betra horfs. Það er sannfæring mín og margra annara, að framtíðarvegagerð milli Rvíkur og Hafnarfj. annarsvegar og Suðurlands hinsvegar sé ekki rétt ákveðin með Krísuvíkurveginum.

Ég hefi alltaf haldið því fram, að Krísuvíkurvegurinn hafi verið ákveðinn meira sem pólitískur búhnykkur þeirra tíma heldur en hagkvæm samgönguleið. Það er svo fjarri mér að eyða mörgum orðum í þessa hlíð frv., heldur líta beint á það. Það var gert gegn till. vegamálastj. að leggja veginn á þessum stað. Í slíkum málum sem þessum hefði vegamálastjóri átt að ráða úrslitum, en till. hans voru virtar að vettugi. Þegar maður kemur í hið fagra umhverfi Kleifarvatns og sér, hvar vegurinn á að liggja meðfram vatninu á dálítið glæfralegum stað, sýnist það vera vafasöm framkvæmd, miðað við, að hún megi verða til framtíðarnota.

Ég skýt því inn í til athugunar, að engar hömlur eru ennþá á því, að málið verði tekið til ýtarlegrar endurskoðunar. Ennfremur taka til athugunar fyrri ráð vegamálastjóra, að leggja veginn um Þrengslin, sem er langtum skemmri leið, allt að 30 til 40 km. Þetta þyrfti að athuga áður en lengra er haldið á þessari braut.

Ég kvaddi mér hljóðs fremur til að benda á þetta heldur en til að mótmæla frv. sjálfu, sem horfir í sjálfu sér í rétta átt.