25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

132. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Af því að nokkuð er liðið á fundartímann, skal ég vera stuttorður um þau tvö frv., sem fjhn. flytur og eru á dagskránni nú. — Það frv., sem hér er til umr., er alveg nauðsynlegur fylgifiskur frv. til l. um tollskrá, sem liggur fyrir þinginu og má telja miklar líkur til, að verði afgr. sem l. Er það vegna þess, að með frv. um tollskrá eru tolll. frá 1911 numin úr gildi, ásamt framlengingum og breytingum þeirra l., en gjald af innlendri framleiðslu er miðað við og byggt á þeim l., þannig, að innlenda tollvörugjaldið er aðeins ákveðinn hundraðshluti af því gjaldi, sem samkv. tolll. er greitt af samskonar varningi, fluttum frá útlöndum. Verði því tollskráin samþ., verður um leið að ákveða, hvaða toll skuli greiða af innlendu tollvöruframleiðslunni. Milliþn. í skatta- og tollamálum hafði ekki lokið við að semja frv. um þetta atriði, og hefði þó að sjálfsögðu borið fram eitthvert ákvæði til bráðabirgða um þetta efni, en það er vitaskuld ekki óhugsandi, að þegar málefni iðnaðarins verða tekin til athugunar í n., þá geti henni dottið í hug að bera fram till. um framleiðslugjald af fleiri vörutegundum en gert er ráð fyrir í þessu frv. En það er a. m. k. ekkert varhugavert að lögleiða þetta frv. og skapa þá einskonar millibilsástand í þessum málum frá því tollskráin kemur í gildi unz ýtarlegar till. hafa verið gerðar í málinu. Ég er með þessu ekki að spá neinu um það, að milliþn. muni gera fleiri vöruflokka gjaldskylda; ég segi bara að það geti komið til athugunar.

Í þessu frv. er dregið saman efni úr 4 gildandi l., og verður það því handhægara í notkun en núgildandi lagaákvæði. Formi frv. er hagað svipað og tollskrárinnar. Því er skipt á sama hátt í kafla og vörur hafðar í töluröð. Á tollum eru gerðar smábreyt. í frv., en ekki eru þær svo verulegar, að ég telji ástæðu til að ræða þær sérstaklega. T. d. er gjaldið af lakkrís lækkað niður í þriðjung af núverandi tolli, og hefir þetta einnig verið gert í tollskránni. Er þetta gert vegna þess, að lakkrísinn, sem í sjálfu sér er engin ástæða til að hafa á móti, hefir horfið alveg af markaðinum. Stafar það af því, að framleiðslugjaldið, sem miðað var við innflutningsgjaldið af þessari vöru, var svo hátt, að framleiðslan gat alls ekki borið sig. Er framleiðslugjaldið nú lækkað úr 2.10 kr. af hverju kg. í 0.70 kr. á kg. — Þá eru smábreytingar á framleiðslugjaldi af ýmsum vörutegundum, til þess að ekki séu hafðir allt of margir gjaldaflokkar. Má þar nefna vindla, vindlinga, gosdrykki o. fl. Þessar breyt. eru ýmist til lækkunar eða hækkunar, en skipta engu máli. — Þá eru nokkur smáatriði enn í frv., t. d. það, að fjármálaráðuneytið, en ekki lögreglustjórar, veiti leyfi til innlendrar tollvörugerðar. Þetta er fyrirkomulagsatriði, sem hentara þykir að haga á þennan hátt, þar sem starfsmenn fjmrn. hafa miklu betri aðstöðu til að vita, hvort nauðsynlegum skilyrðum til að geta öðlazt slíkt leyfi er fullnægt. Það er hvort sem er ráðuneytið, sem hefir eftirlit með innheimtu tollvörugjaldsins. Þetta er aðeins fyrirkomulagsatriði.

Í 4. gr. er gerð sú breyt., að í stað þess að vörur, sem fluttar eru út úr landinu, séu undanþegnar gjaldskyldu, skuli koma heimild til endurgreiðslu gjaldsins. Þetta þykir hentara í framkvæmd, því að raunverulega er ekki vitað með vissu um útflutning vörunnar fyrr en hún hefir verið send úr landi, og á aðili þá að geta fengið endurgreitt það, sem honum ber. — Þá er í 6. gr. ákvæði um það, að verksmiðjur verði að ráða yfir nægilega góðri geymslu fyrir hráefni o. fl.

Aðalatriðið í sambandi við þetta frv. er, að með því er verið að skapa nýjan grundvöll, sem hægt er að hverfa á um leið og tollal. frá 1911 verða úr gildi felld.