06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

82. mál, útsvör

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Allshn. hefir athugað frv. þetta ýtarlega og hefir orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. í öllum aðalatriðum, en þó með nokkrum breytingum. Ennfremur hefir hv. 2. landsk. þm. gert sérstaka brtt. við frv.

Frv. þetta er flutt af allshn. Nd. eftir beiðni ríkisstj., og tilgangur þess er að bæta úr þeim örðugleikum, sem komið hafa í ljós við innheimtu útsvara í landinu. Það er kunnugt, að viða hefir horft til vandræða vegna þessarar innheimtu. Bæði er það, að útsvör hafa hækkað hin síðustu ár svo mjög, að þau standa ekki í réttu hlutfalli við gjaldþol skattþegnanna, og eins er hitt, að margir þurfa að leita sér vinnu í öðrum landsfjórðungum, og eiga hreppa- og bæjarstjórnir þá mjög erfitt um vik að heimta inn útsvör, sem fallin eru í gjalddaga.

Aðalbreytingin á núgildandi löggjöf um útsvarsgreiðslur verður sú, ef frv. nær samþykki, að innheimtufyrirkomulagið breytist þannig, að innheimtan verður lögð á herðar þeirra, sem kaup eiga að greiða. Þá er hin breytingin, að gjalddögum megi fjölga með samþykki ráðherra og sýslunefnda. Fjölgun gjalddaganna verður þannig fyrir komið, að þeir, sem eru upp á fast kaup, greiði útsvör sín 1. dag hvers mánaðar. Um þetta atriði var nefndin ekki alveg sammála. Form. n., 2. landsk., vildi láta gjalddagana vera 10 talsins. Á þetta gat meiri hl. n. ekki fallizt vegna þess, að þá myndi útsvarsgreiðslur falla yfir á næsta gjaldár. Meiri hl. n. var aftur á móti þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt væri, að lögin sæju svo um, að útsvörin væru greidd að fullu á hverju gjaldári.

Róttækasta breyting frv. er ákvæðið um sjálfa innheimtuna, þar sem atvinnurekendum er lögð sú skylda á herðar að halda eftir af kaupinu til greiðslu á útsvarinu. Fyrirmælin um, að atvinnurekandi, sem hefir daglaunam. í þjónustu sinni, skuli halda eftir 1/10 af kaupi launþega til útsvarshluta, munu án efa gera innheimtu þessa auðveldari. Í 29. gr. laganna frá 1906 var tæpt á þessu, en framkvæmdirnar urðu litlar, vegna þess að ákvæðin voru svo ströng, að sveitarstjórnirnar gátu ekki framfylgt þeim. En með frv. þessu er gert ráð fyrir, að lögtök vegna útsvara verði óþörf og falli að mestu niður.

Breytingar n. miða aðallega að því að tryggja rétt útsvarsgreiðenda, að þeir greiði ekki meira

en útsvarinu nemur, t. d. í þeim tilfellum, að menn fái kaup frá fleirum en einum kaupgreiðanda. Til tryggingar þessu hefir n. sett inn það ákvæði, að bæjarstjórn eða hreppsnefnd sé skylt að láta af hendi tvíritaða kvittanaeyðublaðabók við kaupgreiðanda, er síðan gefi útsvarsgreiðanda kvittun í hvert skipti, sem útsvar er greitt. Með þessu er það tryggt, að menn verði ekki krafðir um útsvar nema vissa sé fyrir skuldinni. Um þetta voru engin ákvæði áður. En af öllum þessum ákvæðum leiðir það, að útsvarsgreiðslan verður mál, sem eingöngu fer á milli kaupgreiðanda og bæjarstjórnar eða hreppsnefndar.

Ég geng út frá því, að mörgum muni þykja þetta nýja fyrirkomulag útsvarsgreiðslunnar harðar búsifjar, einkum fyrir kaupgreiðendur, og að því muni fylgja mörg óþægindi. Það skal játað, að nokkuð er til í þessu. En n. hefir ekki séð önnur ráð betri til að bæta úr þeim vandræðum, sem nú ríkja í greiðslu útsvara, og hún áleit þessa breyt. nauðsynlega, þrátt fyrir óþægindin. Í byrjuninni munu auðvitað verða nokkrir erfiðleikar um framkvæmd hinna nýju ákvæða, en óþægindin munu brátt hverfa, er menn fara að venjast þessu nýja fyrirkomulagi.

Um formshlið málsins er það að segja, að heppilegt þótti að fella l. gr. inn í 29. gr., en fella niður 3. málsgr. 29. gr., sem er óþörf, ef frv. verður að lögum.