06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

82. mál, útsvör

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vil þakka n. fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég tel mikla nauðsyn fyrir mörg bæjar- og sveitarfélög hér á landi að fá lagafyrirmæli eitthvað í þessa átt. Um langt skeið hafa komið umkvartanir frá mörgum bæjar- og sveitarfélögum, að innheimta útsvara gengi treglega og margir kæmu sér hjá útsvarsgreiðslu vegna þess, að svo óhægt væri um innheimtuna. Þess vegna vil ég fyrir mitt leyti mæla með, að frv. nái fram að ganga. Ég sé ekki, að frv. hafi í meðförum n. breytzt á verri veg svo að verulegu máll skipti, en n. hefir hinsvegar gert nokkrar breyt. á því til bóta. Hv. d. kannast við, að frv. er upphaflega runnið frá n., sem starfaði að þessum málum. Af því að ég fékk með þessi mál að gera í rn., bárust mér umkvartanir frá sumum kaupstöðum út af því, að þetta frv. náði ekki fram að ganga á fyrri hluta yfirstandandi þings. En úr því að það er komið svo langt sem raun er á orðin, þá geri ég ráð fyrir, að það muni ganga í gegn og verða að l. á þessu þingi. Og þar sem er eftir aðeins ein umr. í Nd., þá tel ég gætilegast að samþ. brtt. n., sem hér liggja fyrir.

Út af brtt. 2. landsk. get ég tekið undir, að æskilegast sé að hafa gjalddaga útsvars sem flesta og ganga þar eitthvað í þá átt, sem hann leggur til. N. leggur á móti þessu, af því að henni finnst ekki við það hlítandi, að gjalddagi nokkurs hluta útsvarsins sé ekki fyrr en á næsta gjaldári, og má segja, að nokkur rök séu fyrir því, en ég held, eins og hv. 2. landsk. sagði, að að því stefni, að gjalddagarnir séu fleiri en áður. Gæti þá komið til athugunar það, sem mér hefir komið í hug, hvort ekki væri rétt að breyta reikningsári sveitar- og bæjarfélaga. Þá mundi vera hægt að ná því, sem meiri hluti n. fer fram á, eða að binda sig við, að gjalddagarnir verði allir á greiðsluárinu.

Ég vil svo vænta þess, að frv. sigli hraðbyri gegnum d. og verði að l., því að ég tel það mjög aðkallandi nauðsyn fyrir mörg bæjar- og sveitarfélög, að eitthvað sé gert til umbóta í þessum málum.