06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

82. mál, útsvör

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það eru aðeins nokkur orð. — Hv. 1. þm. N.-M. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvernig færi með frádrátt til skatts á því útsvari, sem greitt yrði eftir áramót. Það er einfalt mál. Sá, sem ekki greiðir útsvar fyrr en eftir áramót, getur auðvitað ekki dregið það frá skatti fyrr en á því ári, sem útsvarið er greitt. Og þetta er það, sem skeður eins og nú er. Nú er fjöldi gjaldenda, sem á mikið ógreitt um áramót og getur því ekki dregið það frá skatti fyrr en næsta ár. Eins mundi verða hér. Hinsvegar geta þeir, sem vilja, vitanlega greitt fyrir áramót, og mundi engin bæjar- eða sveitarstjórn slá hendi á móti því.

Hv. frsm. sagði, að í þeim heimildarl., sem hér er um að ræða, sé sama reglan látin gilda fyrir alla. Hann færði fram sem rök, að greiðslan í sveitum færi aðallega fram á haustin. Það eru ekki miklar líkur til, að hrepparnir tækju þessa heimild upp. Þeir geta haldið við sína gömlu reglu, ef þeir vilja. Það er vitanlegt, að þetta frv. er komið fram fyrir atbeina bæjarstjórna, og kauptúnin vilja einnig tileinka sér þessa heimild, en á hinn bóginn sé ég ekki, að sveitarfélög tapi neitt á þessu.

Hv. frsm. álítur, að brtt. mín eigi ekki rétt á sér. Ég er þó þess fullviss, að ef hann athugar málið betur, þá hljóti hann að viðurkenna, að ég flyt hér rétt mál, því að það er rétt að stefna að því, að gjaldendur fái sem lengstan tíma til að greiða sína skatta, ekki sízt nú, þegar dýrtíð fer sívaxandi.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta mál, en láta skeika að sköpuðu, hvernig fer með mína till., en mun ef til vill flytja aðra till. við 3. umr., ef þessi finnur ekki náð fyrir augum þessarar hv. d.