06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

82. mál, útsvör

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál.

Það er eðlilegt, að eftir því, sem beinir skattar verða hærri, því fleiri tilraunir komi til þess að ná þessum óskapa gjöldum inn. Þetta þyrfti ekki að vera svo, ef gjöldin væru ekki svo þungbær, að það væri svo að segja ómögulegt að rísa undir þeim. Þessir stórkostlegu örðugleikar við að innheimta öll þessi margvíslegu gjöld ættu að vera hv. þm. góð áminning um, að hér sé komið of langt.

Mþn. í skattamálum hafði látið athuga nokkuð þetta mál og látið semja till. um, hvernig heppilegast væri að haga innheimtunni. M. a. kom þar fram till., sem ég álít, að gæti verið mjög athyglisverð, sem sé hvort ekki væri rétt að sameina innheimtu beinna skatta, láta eina stofnun annast hana, og sé hún kostuð af þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, sem sé ríki og bæ. En þetta er ákaflega vandasamt mál, og n. sá sér ekki fært að bera fram till. um þetta. Ég er viss um, að þetta verður mjög erfitt í framkvæmdinni, og sumt getur meira að segja snúizt til öfugs vegar. Við skrifum segja t. d., að atvinnurekandi innheimti útsvar hjá fjölda manna, og að þessir menn hafi alltaf staðið í skilum með útsvarsgreiðslu, en að sá stóri herra, sem annast innheimtuna, skili ekki fénu. Þessi. möguleiki er alltaf fyrir hendi, og getur þannig orðið stórfellt tap. Þetta þarf vel að athuga. Mér er líka kunnugt um, að mörgum er illa við, og finnst það vantraust, sem þeim er sýnt, ef þeir fá ekki að greiða sín gjöld sjálfir. Þeir spyrja, og það með réttu, hvaða ástæða sé til þess að draga af kaupi þeirra til greiðslu á gjöldunum, þar sem þeir hafi alltaf staðið í skilum. Það er alltaf varhugavert að vera að særa menn þannig að óþörfu.

Þá vil ég benda á eitt smáatriði, — það er innheimta útsvars af smáatvinnu, t. d. akkorðsvinnu eða daglaunavinnu. Ég held, að erfitt verði að eltast við slíkt. Hér eru t. d. fáeinir menn, sem hafa atvinnu við það að laga til í görðum, stinga upp götur, klippa tré og því um líkt. Ef nú á að draga 10% af hverjum 30–40 kr., held ég, að þetta verði erfiður eltingaleikur að ná þannig upp útsvarinu.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en aðeins minnast á það, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði síðast, því ég velt ekki, hvort hv. frsm. er búinn með ræðutíma sinn, en ég held, að það sé rangt, sem hann hélt fram, að útsvar væri ekki frádráttarhæft nema frá því ári, sem útsvarið væri lagt á, — heldur mun vera frádráttarhæft það, sem greitt er á árinu.