06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

82. mál, útsvör

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér heyrðist á ræðu hv.11. landsk., að hann hefði misskilið orð mín í sambandi við það, hvað væri leyfilegt að færa til skattafrádráttar af greiddu útsvari. En ég held, að okkur greini þar ekkert á, því ég álít, að það útsvar, sem greitt er á árinu, komi til frádráttar þá, en það sem greitt er eftir áramót, telst frádráttarhæft á því ári.

Reynslan verður að skera úr því, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, hvað mikið gagn verður að þessum lögum; síðar kunna einnig að koma ýmsir agnúar í ljós.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á vandkvæði á innheimtu útsvara samkv. 2. málsgr. b-liðs um útgerð upp á hlut. Þetta ákvæði var í frv. frá upphafi, og var lögð nokkur áherzla á það af utannefndarmönnum. Aftur á móti var tekin upp í frv. brtt. frá þm. Vestm., enda sjálfsagt að koma þar greiðsluskyldunni yfir á hlutarkaupanda.

Að öðru leyti mun ég ekki fjölyrða um frv.; vil aðeins benda á, að það mun litill vafi á því, að frv. verki þannig, ef að lögum verður, að útsvör náist almennt betur inn en áður. Hitt er rétt, að það er óviðkunnanlegt að vera að tyfta saklausa menn, sem alltaf hafa staðið í skilum, með slíkum ráðstöfunum. Það var jafnvel rætt um það í nefndinni að gefa mönnum mánaðarfrest, en við vorum sammála um að láta jafnt yfir alla ganga.

Ég hygg, að enn megi gera ýmsar umbætur á frv., t. d. eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á, að ef um vanskil af hálfu atvinnurekanda væri að ræða, væri útsvarsgreiðandi ekki í sökinni. — Læt ég svo útrætt um frv. frá mínni hálfu.