18.04.1939
Efri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

26. mál, sala Höfðahóla o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Landbn. hefir athugað þetta frv., sem komið er frá hv. Nd., og vill leggja til, að það verði samþ. með nokkurri breyt. á 2. gr. þess. Það er svo með þjóðjörðina Höfðahóla, að eftir skipting vindhælishrepps í þrjú hreppsfélög liggur meiri hl. byggðar hins nýja Höfðahrepps á landi þeirrar jarðar, er hér ræðir um, og mælir margt með, að hreppurinn fái jörðina keypta. Nokkur hluti þorpsins, sem þarna er að rísa, liggur í landi annarrar jarðar, sem er í einkaeign. Eins og frv. kom frá hv. Nd. var gert ráð fyrir, að um mat til verðákvörðunar yrði farið eftir þjóðjarðasölu frá 1905, þannig að lagt yrði til grundvallar 10 ára meðaltal af afgjaldi jarðarinnar og reiknað til höfuðstóls eftir því. En á síðastl. 10 árum hefir afgjald eignarinnar verið að margfaldast. Það var um 300 kr., en árið 1935–36, sem er það síðasta, sem heimildir liggja fyrir um í stjórnarráðinu, var það komið upp í 1200 kr. samtals, vegna nýbyggingar, úthlutana á lóðum o. fl. Síðan hefir verið úthlutað 20 ræktunarlóðum í viðbót, svo að afgjaldið hlýtur að hafa hækkað verulega og verðmætið vaxið, miðað við afgjaldið. Nefndin áleit því ekki fært að fara hér eftir l. frá 1905, en leggur til, að söluverðið sé ákveðið samkv. lögum um eignarnám, og þá meðal annars tekið tillit til framtíðarverðmætis, sem vex með vexti þorpsins. Hinsvegar sá n. ekkert athugavert við, að hreppurinn fái sömu afborgunarskilyrði og voru við þjóðjarðasölu, og er því ekki breytt.

Þá var um það rætt í n., að sömu ákvæði ætti að taka inn um land Hvanneyrar, sem Siglufjarðarkaupstaður er reistur á. En til þess var engin ákveðin afstaða tekin. Ef slík tillaga kemur fram, hafa einstakir nefndarmenn um hana óbundnar hendur.