24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

124. mál, hafnargerð í Stykkishólmi

*Flm. (Thor Thors):

Það þarf ekki mörg orð til að fylgja þessu frv. úr hlaði. Nægir að vísa til grg., sem lýsir því, að ætlazt er til, að gerð séu hafnarmannvirki í Stykkishólmi. Frv. er flutt að tilmælum hreppsn. Stykkishólms og var undirbúið á fundi, sem haldinn var þar á staðnum. Í Stykkishólmi eru um 30 ára gömul hafnarmannvirki, timburbryggja, mjög úr sér gengin, svo að það er hin mesta nauðsyn að endurnýja hana og gera önnur mannvirki. Fyrst og fremst er aðkallandi að byggja þar bátabryggju, svo að vélbátaútgerðin hafi möguleika til þess að leggja afla sinn á land. Vitamálastjóri hefir gert áætlun um, hvað slík hafnargerð myndi kosta samtals. Hann taldi, að 300 þús. kr. myndu nægja, þó með því að leggja talsvert á erlent efni frá því, sem nú er. Hér er um stóra fjárupphæð að ræða, en ég tek það skýrt fram, að hreppsn. ætlaðist ekki til, að farið væri geyst af stað í þessum málum, heldur smám saman, eftir því sem geta kauptúnsins leyfði.

Frv. þetta er samið eftir hafnarlögum, sem sett hafa verið hér í þinginu á síðustu árum. Ríkinu er ætlað að veita nákvæmlega sama stuðning til þessarar hafnargerðar og mannvirkja af sömu tegund á öðrum stöðum landsins. Ég leyfi mér að vænta þess, að mál þetta fái góðar undirtektir, og legg til, að því verði vísað til sjútvn.