29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

27. mál, íþróttalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég er af ýmsum ástæðum þeirrar skoðunar, að þetta frv. til íþróttalaga sé til töluverðra bóta viðkomandi íþróttum frá því sem nú er. Ég get jafnframt upplýst það, sem raunar hefir verið tekið fram áður og einnig af hv. 4. þm. Reykv., sem er andvígur frv. að nokkru leyti, af sérstökum ástæðum, sem hann hefir komið fram með, að íþróttamenn eru yfirleitt fylgjandi því, að íþróttal. séu sett, eins og kemur fram í bréfi Í. S. Í. sem vill aðeins fá nokkra breyt. á frv. Þeir íþróttamenn, sem hafa undirbúið frv., eru úr öllum fremstu íþróttafélögunum í Reykjavík.

Hv. 4. þm. Reykv. drap á, að það gæti ekki verið sérstök ástæða fyrir kennslumrh. að beita sér fyrir því, að sett væru l. um íþróttamál, nema gripa ætti til þess að leggja íþróttirnar undir ríkisvaldið, eins og sumstaðar tíðkast. Hann gat þess líka, sem er rétt, að ekkert slíkt væri tilætlunin með þessu frv. Það leynir sér heldur ekki á frv., að engin slík ákvæði eru í því, sem að neinu leyti nálgast það. Ég álít mig líka vera einn af þeim mönnum, sem eru þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið eigi ekki að óþörfu að vera að hafa afskipti af málum, enda veit ég ekki til, að ég hafi stutt frv., sem styðja að því, að ríkisvaldið hafi á einhvern hátt íhlutun um opinber mál, sem ekki er til bóta, að það hafi við, sem erum við völd á hverjum tíma, ættum að skilja það, að sá tími kemur, sem við förum ekki lengur með völd. En hvor okkar hv. 4. þm. Reykv. það er, sem fer með völd, þá álít ég, að frv. sé til bóta frá því, sem nú er.

Til þess að benda hv. 4. þm. Reykv. á, hve fjarri lagi það er, að frv. taki á nokkurn hátt til hinnar frjálsu íþróttastarfsemi, þá þarf ekki annað en lesa 24. gr., þar sem tekið er fram, að íþróttastarfsemi utan skólanna sé haldið uppi af frjálsu framtaki landsmanna. Íþróttamenn eru yfirleitt sammála um, að það sé ávinningur í því, að íþróttal. séu sett, enda hafa þeir reynt að greiða fyrir frv. á Alþ., en ágreiningur sá, sem er um þetta frv., er vissulega ekki stórvægilegur, enda er hægt að segja, að það sé á allan hátt eðlilegt, að þessi litli ágreiningur sé til staðar. Það er ekki nema eðlilegt, að Í. S. Í, sem unnið hefir mest að íþróttamálum landsins, fari fram á, að það fái þau völd yfir íþróttamálunum, sem ríkið tekur sér með þessari leiðbeiningastarfsemi, sem ríkið ætlar að takast á hendur með frv.

Það er þess vegna út af fyrir sig ekkert við það að athuga, þó Í. S. Í. fari fram á þetta, en rök þau sem það færir fyrir því, eru ekki veigamikil. Ég tel, að þar sem ríkið veitir talsverðan styrk til þessara mála, þá sé það eðlilegt, að þeir menn, sem fara með þann þátt íþróttamálanna, sem ríkið lætur til sín taka, taki að einhverju leyti völd sín af ríkinu. Þar er gengið svo langt til þess að láta hina frjálsu íþróttastarfsemi njóta sín, að nefnd sú, sem á að fjalla um þessi mál, er skipuð eftir tillögu Í. S. Í. og U. M. F. Í. og einn samkvæmt till. ráðh. Fulltrúar hinna frjálsu íþróttasamtaka hafa því meiri hl. í nefndinni.

Það sem sérstaklega veldur því, að ríkið á ekki að láta þessi mál afskiptalaus, er það, að þó talsvert hafi verið um íþróttaiðkanir í landinu, þá hafa þær verið stundaðar þannig, að þær hafa ekki komið að hálfum notum fyrir þjóðina. Við, sem stundað höfuð íþróttir, vitum, að fjöldi af þeim mönnum, sem stundað hafa íþróttir, hefir stundað þær þannig, að þær hafa verið þeim til tjóns, en ekki til gagns. Í þessu felst ekki nein sneið til Í. S. Í., sem haft hefir forgöngu um þessi mál og margt vel gert. En það hefir tæpast talið það sitt hlutverk að afla þeirra leiðbeininga og upplýsinga fyrir íþróttamenn, sem nauðsynlegar eru. Það hefir t. d. hvergi í nokkru landi, þar sem íþróttir eru stundaðar, verið gefið jafnlítið út af leiðbeinandi bókum um það, hvernig eigi að stunda íþróttir til þess að hafa gagn af þeim, eins og hér á landi. Ein af þeim beztu bókum, sem gefnar hafa verið út um slík efni hér á landi, hefir verið gefin út af bókaútgáfufélagi fyrir forgöngu áhugamanna. Það má fullyrða, að margt af því fólki, sem fer hér á skíði, hefir meira ógagn af því en gagn. Það gengur kannske 6–7 klst., sem áreiðanlega er óhollt og hefir oft í för með sér ofreynslu. (PHalld.: Í frv. er engin heimild til að banna slíkt.) Það er engin heimild til þess, en leiðbeiningar eiga að vera til þess að koma í veg fyrir slíkt. Eitt af því, sem kemur fram í „Skíðabókinni“, eru leiðbeiningar um þetta atriði. Fyrir það, að þessi leiðbeinandi bók var gefin út í Noregi, þá hafa Norðmenn haft meira gagn af þessari íþrótt en allar aðrar þjóðir. Það kemur árlega fyrir, þar sem íþróttakeppni er stunduð utan skólanna, að það eru of ungir menn, sem stunda þessa keppni, menn sem ekki eru nægilega undirbúnir. Það er slík leiðbeiningastarfsemi, sem ríkið getur ekki látið dragast lengur að taka að sér. Ef ríkið ver fjármunum til þess að efla íþróttastarfsemina, þá verður það að sjá um, að þeir fjármunir komi að gagni. Og það er einmitt tilgangurinn, sem kemur greinilega fram í þessu frv., sérstaklega í 3. gr. þess.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef þetta frv. verður að l., og sú leiðbeiningastarfsemi, sem ráðgerð er, kemur til framkvæmda, mun það verða þjóðinni allri til meira gagns en margan grunar. Ég hefi stundað íþróttir svo mikið, og svo mikið hefi ég umgengizt íþróttaiðkendur, að ég veit, að íþróttir, sem ekki eru iðkaðar eftir réttum reglum, eru stórhættulegar. Mér er minnisstætt, að Guðmundur heitinn Björnsson landlæknir kom einu sinni upp í leikfimissal menntaskólans, þar sem við nokkrir strákar vorum að æfingum. Hann sá, að ég var kappsfullur í leiknum, og gaf sig á tal við mig. Ég fór síðan heim með honum og hann ræddi við mig um íþróttir og gaf mér leiðbeiningar. Loks gaf hann mér bók um þetta efni, — fyrstu bókina, sem hann þýddi um íþróttir, og aðra til. Hann brýndi fyrir mér, hvers gæta þyrfti í sambandi við íþróttaiðkun, ef réttur árangur ætti að nást.

Það er skoðun mín, að leiðbeininga sé mikil þörf á þessu sviði, og tilgangur frv. er, að koma þeim á. Þar sem þetta er almennt áhugamál íþróttamanna, vil ég mælast til þess, að greitt verði fyrir frv. eftir föngum. Mér þykir leitt, að hv. 4. þm. Reykv. skuli ekki geta orðið mér sammála um frv., en ég vil enn benda honum á, að ágreiningurinn við Íþróttasamband Íslands er ekki stórvægilegur. Hann er einungis um það, að Í. S. Í. vill fá að taka að sér þetta leiðbeiningastarf í aðalatriðum, sem ríkið ætlar að hefja. En í frv. er séð fyrir því, að starfsemi Í. S. Í. verði alveg frjáls og óheft, svo sem verið hefir. Hér er lagt til að ríkið, í samráði við Í. S. Í. og U. M. F. Í., kynni sér hvernig því fé er varið, sem fer til íþróttamála, og beiti sér fyrir, að því verði varið á sem skynsamlegastan hátt. En það er öllum frjálst að stunda íþróttir án afskipta ríkisvaldsins. Aðeins vill ríkið vita vissu sína um það, að þeim styrkjum, sem það veitir, sé varið hagkvæmlega. Ég held, að þótt frv. yrði vísað frá nú, þá getum við ekki vænzt að fá um málið betra samkomulag síðar, — nema ríkið vilji alveg afsala sér þeim rétti, sem það hefir samkvæmt þessu frv., til annara aðila.

Tel ég svo ekki ástæðu að segja meira um málið að sinni.