29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson):

Í sambandi við íþróttastarfsemina í landinu, sem hér er hugsað að gera að ríkisrekstri, má koma með annað mál, sem mér virðist að mörgu leyti mjög hliðstætt. þessu frv. til samanburðar. Og það er bindindisstarfsemin í landinu.

Er nokkur ástæða til þess fremur, að ríkið taki yfirstjórn íþróttastarfseminnar í sínar hendur heldur en að ríkið taki yfirstjórn yfir og setji í kerfi bindindisstarfsemina í landinu? Geta hv. þm. hugsað sér að gera I. O. G. T. að ríkisfyrirtæki á sama hátt og hér er gert ráð fyrir með íþróttastarfsemina? Þetta er að mínum dómi ákaflega hliðstætt. Bindindisstarfsemin er greind út um allt land, alveg eins og íþróttastarfsemi hefir sína aðalstofnun og aðsetur í Reykjavík og er að mörgu leyti hliðstæð yfirleitt íþróttastarfseminni; er gagnlegur félagsskapur,

sem vinnur að prýðilegu málefni, sem er ekki minna um vert frá mórölsku og hagsmunalegu sjónarmiði heldur en íþróttastarfsemina. Hvernig stendur á því, að enginn hefir lyst á því að gera Góðtemplararegluna að ríkisrekstri eins og hér á að gera íþróttirnar? Þar skortir ákaflega mikla upplýsingastarfsemi í landinu. Ríkið veitir fjárstyrk til hennar, og gæti það þá ekki verið í því tilfelli eins og hér í frv. er gert ráð fyrir, að n. skipti styrk ríkisins milli þeirra, sem vinna í I. O. G. T., og annara, sem vinna að því sama málefni úti um land. Ég get ekki séð neinn stóran mun á þessu tvennu. (Forsrh.: Það er ekki hættulegt að drekka ekki).

Hæstv. forsrh. hefir þóknazt að leggja íþróttamálin undir ríkisvaldið. Fræðslu um bindindisstarfsemi o. þ. h. er haldið uppi í skólum landsins, svo að það þyrfti þá eins að skipuleggja þá fræðslu eins og íþróttafræðsluna. Þetta er sem næst alveg hliðstætt. Og sjái menn ástæðu til eða þörf á því að taka íþróttastarfsemina í hendur ríkisvaldsins með yfirstjórn ráðh. sem einskonar biskups og höfðingja allra í þessum málum, þá verð ég að segja það, að ég kem ekki auga á neitt í þessum svo kölluðu íþróttal., sem sé þess eðlis, að nauðsyn beri til þess, að ríkið taki þessi mál í sínar hendur. Nema ef vera skyldi það, að það er einhverskonar kapp á milli tveggja félagssambanda um íþróttamálin, þ. e. ungmennafélaganna og Í. S. Í. En heldur þá hæstv. ráðh., að ráðið til þess að setja niður þær deilur, ef einhverjar eru, sé það, að fara að mismuna íþróttasamböndunum í framlögum af hálfu ríkisins, þannig að sá eldur, sem kann að vera nú, magnist töluvert, ef svo óheppilega skyldi vilja til, að úthlutun styrktarfjár færi fram þannig, einu sinni eða jafnvel oftar, að það kynni að valda miklum ágreiningi og óánægju?

Ég held, að í hvorugu þeirra mála, sem ég hefi nú gert að umtalsefni, sé hin minnsta þörf á að taka málin undir afskipti ríkisvaldsins, heldur verði fyrirkomulagi þeirra betur hagað eins og verið hefir hingað til, að ríkið styrki þessi málefni með fjárframlögum og láti þau vera, eins og hingað til hefir verið, á valdi frjáls framtaks landsmanna að öðru leyti.