29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

27. mál, íþróttalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Mér þótti ákaflega vænt um þessi seinustu rök hv. 4. þm. Reykv., því að eftir þeim ætti hann að vera þessu frv. fylgjandi.

Ég ætla ekki að fara að rifja það upp, sem hér hefir verið sagt, eða að endurtaka það. En rök hv. 4. þm. Reykv. voru á þessa leið: Hvers vegna skyldum við láta ríkið skipta sér af þessu fremur en bindindismálunum? Við skulum láta svipað eða sama um þessi bæði mál gilda. En eftir þessum orðum ætti hv. þm. að vera með frv., því að það er næstum sama fyrirkomulag og haft er um bindindismálin, sem farið er fram á í frv., að haft verði á íþróttamálunum. Þar er bindindisfulltrúi, sem ferðast um. Og ég hygg, að hv. þm. sé það kunnugt, að undir hans stjórn starfa bindindisnefndir á vegum ríkisins út um allt land.

Ég held því, að þessi hv. þm. ætti að vera sjálfum sér samkvæmur og fylgja frv. (PHalld.

Má ég bara spyrja hæstv. forsrh., hvort honum finnist þessi nýja skipun muni verða til framfara).