05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

27. mál, íþróttalög

*Fram. minni hl. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Þessar brtt. mínar við íþróttalagafrv. miða að því að verða við óskum Íþróttasambands Íslands um, að sambandið fái að hafa forstöðu um íþróttamálin. Flestar þeirra eru innifaldar í ósk, er íþróttasambandið hefir beint til Alþingis um það, hvernig íþróttal. skuli afgreiða. Hv. þm. hafa á þskj. 351 fyrir sér bréf íþróttasambandsins þessu viðkomandi. Þetta er í stuttu máli aðalinnihald brtt., og þarf ekki að hafa um það mörg orð.

Ég vil þó drepa á eina eða tvær brtt., sem ekki eru beinlínis af þessum toga spunnar. Ein þeirra er við 17. gr., þar sem um það er rætt, að leggja skuli áherzlu á heilsuvernd. Mér skilst, að það eigi að leggja áherzlu á fræðslu um þetta og að meining þeirra, er ákváðu þessa gr., komi betur í ljós, ef þessu er bætt við. Önnur brtt. er við 23. gr. frv. Þar kemur skyndilega fyrirskipun um íþróttakennslu í kennaraskólanum. Þetta frv. tekur víða til löggjafarinnar og gerir kröfu til l., sem ekki er verið að breyta. En ef þessi gr. yrði samþ., yrði kennaraskólinn lokaður öllum, sem ekki eru færir um að taka að sér íþróttakennslu sérstaklega. Segjum, að maður sé t. d. fatlaður eða hafi slíkt eðlisfar, að hann getur ekki orðið íþróttakennari. En er nokkur ástæða til að loka kennaraskólanum fyrir honum þess vegna? Hann getur þrátt fyrir þetta haft góða hæfileika sem kennari. Það er ekki hugsanlegt, að allir kennarar í landinu þurfi að fást við íþróttakennslu. Brtt. mín gerir ráð fyrir, að þetta sé lagfært þannig, að þeir, sem lagt geta fram læknisvottorð um það, að þeim henti ekki íþróttaiðkanir, séu undanþegnir þessu ákvæði, en kvenfólk sé undanþegið, ef það óskar þess. Ég efast ekki um, að hv. þdm. geti fallizt á þetta„ ef frv. á að verða að l.

Að öðru leyti fara brtt. þessar fram á það að færa frv. í það horf, sem Íþróttasamband Íslands óskar eftir, og styðja þá meginstefnu, að íþróttastarfsemi hér á landi sé sem mest undir stj. eins aðila, sem hefir um áratugi haft þetta starf á hendi. Ef þessi réttur yrði með l. tekinn af íþróttasambandinu, yrði það af öllum íþróttamönnum skilið sem fjandskapur í garð íþróttasambandsins. Ég tel ósk sambandsins um, að löggjöfin viðurkenni þennan rétt þess, ekki annað en beint framhald af því, sem gerðist í þessum málum, áður en löggjöfin fór að skipta sér af þeim. Auðvitað er þá ekki nema sjálfsagt, að öll íþróttafélög eigi rétt á að vera í Íþróttasambandi Íslands.

Ef Alþingi ætlar að fara að setja löggjöf um þessi mál, sem ég tel raunar óþarfa, þá er skylt að haga henni svo, að íþróttasambandið hafi forystu þeirra mála.