05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

27. mál, íþróttalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég býst við, að það sé þýðingarlaust að hafa langar rökræður um þetta mál. Það var rætt talsvert um það við 1. umr. og einnig við 2. umr., sem var aðalumr. þessa frv. Það, sem hv. þm. þurfa að taka afstöðu til, er augljóst mál, það er brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. Þar er gengið út frá því, að Íþróttasamband ungmennafélaganna hverfi úr sögunni og Íþróttasamband Íslands fái viðurkenningu sem eina löglega íþróttasambandið hér á landi. Hvort hv. þm. vilja ganga inn á þetta eða ekki, verður að fara eftir sannfæringu þeirra,

Ég er þeirrar skoðunar, að ef þannig yrði gengið á rétt ungmennafélaganna, væri betra að láta þetta frv. hverfa alveg úr sögunni. Það getur ekki verið á neinn hátt óþægilegt eða óviðeigandi, né á nokkurn hátt orðið til tafar fyrir störfin, þótt Íþróttasamband ungmennafélaganna verði einnig viðurkennt, enda hefir það orðið svo, að formenn allra duglegustu, stærstu og þróttmestu íþróttafélaganna hér í Reykjavík hafa gengið inn á það.

Enda þótt Íþróttasamband Íslands hafi unnið merkilegt starf, tel ég það samt of langt gengið, að það verði eina löglega íþróttasambandið, og það fyrst og fremst gagnvart ungmennafélögunum. Íþróttasamband Íslands hefir að vísu unnið ýmislegt þarft, en þó er óhætt að segja, að það hafi vanrækt þá hlið málsins, er snýr að því að örva menn til að fullkomna sundíþróttina, og þær ráðleggingar, sem alstaðar annarstaðar eru látnar vera samfara íþróttastarfseminni. Það er mikið tjón, að íslenzkir íþróttamenn hafa ekki skilið þetta og það hefir ekki verið gert. Þeir munu hafa álitið þetta sér ofvaxið. Þó skal ég jafnframt geta þess, að innan íþróttafélaganna hafa verið gerðar smáumbætur, en íþróttasambandið hefir litið fé til þess að vinna að slíkum störfum. Ég tel rétt að geta þess til að unna Íþróttasambandi Íslands fullkomins sannmælis.

Hitt vil ég þó segja viðvíkjandi brtt. frá hv. 4. þm. Reykv., að ég tel það allt of langt gengið, verði þær samþ. hér á Alþ.

Viðvíkjandi kostnaðarhlið þessa máls skal ég geta þess, að kostnaðurinn er nokkuð orðum aukinn að því er hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) heldur fram, því að kostnaður sá, er af þessu leiðir, ef samþ. verður, er ekki ýkja mikill. Það þarf ekki að verða kostnaðaratriði, þótt ríkisvaldið ætti að veita íþróttasjóði nokkurt fé, eftir því sem Alþ. þóknaðist á hverjum tíma. Leiðir til að afla þeim sjóði tekna yrðu þær sömu, sem notaðar eru erlendis, t. d. í Englandi og Svíþjóð. Það fé, sem íþróttasamböndin þar fá til íþróttastarfsemi, skiptir tugum milljóna kr., og þess er aflað með því að reka smáveðmál í sambandi við íþróttir, og á ýmsan annan hátt, og ætlazt er til, að sú aðferð verði að einhverju leyti tekin upp hér, en ríkið mun leggja íþróttasjóði til fé samkv. því, sem fjárl. ákveða á hverjum tíma, þótt ekki verði því neitað, að miklir erfiðleikar eru á um alla fjármuni nú, og vitaskuld er ekki gott að þurfa að launa íþróttafulltrúa úr ríkissjóði nú. En allar líkur eru til þess, að annar fulltrúi fræðslumálastjóra geti tekið að sér þetta starf, og mun það verða reynt. Ég er bara þeirrar skoðunar, — ég veit ekki, hvort hv. Nd. er mér sammála um það –að það hafi verið til stórtjóns, hve litlum fjármunum hefir verið varið til íþróttamála hér á landi. Það er ekki of mikið af hálaunamönnum í þessu landi, þótt oft hafi verið talað um há laun og bitlinga. Það, sem fyrst og fremst hefir verið okkur Íslendingum til skaða, er ekki það. að laun manna og kaupgjald sé of hátt, heldur hitt, að okkur vantar nægilega mikið af vel starfshæfu fólki. Án þess að fara nánar út í þessi mál, vil ég staðhæfa, að íþróttirnar geta glætt vonir manna um, að sú aukna íþróttastarfsemi, sem nú er iðkuð, muni leiða unga menn burtu frá slæpingshætti á götunum og kaffihúsasetum, og vona ég, að hún geri sitt til að ala upp starfhæfa menn, sem okkur vantar mest. Enginn vinnuveitandi, hvorki íslenzkur né erlendur. dregur dul á það, að honum dettur ekki annað í hug, ef hann á að velja menn til starfa, en að velja íþróttamann öðrum fremur að öðru jöfnu, ef hann á þess völ. Hve stórkostlega fjárhagslega og „sósiala“ þýðingu hefir það ekki fyrir ríkið, ef því tekst að ala upp góða íþróttamenn í landinn? Það fylgir líka íþróttamönnum margt fleira en heilbrigði, hreysti og táp til vinnu; margir fleiri kostir fylgja þeim, ef þeir stunda íþróttir réttilega, sem ég get ekki talið upp.

Hv. þdm. verða að gera upp með sjálfum sér, hve mikla þýðingu þetta muni hafa fyrir íslenzku þjóðina. Þó að frv. verði fellt, get ég sagt það fyrirfram, að þó að einhver regináhrif verði þess valdandi, að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi, þá munu hv. þm. fá að taka afstöðu til þess á næsta þingi, því að það mun verða flutt þangað til það verður samþ.

Ég get vel skilið það hjá hv. þm. A.-Húnv., að þótt kostnaðurinn við þetta verði ekki ýkjamikill, virðist honum það nokkuð varhugavert atriði. Ég verð að segja það, að ég tel kostnaðinn svo lítinn, að hann sé alveg ósambærilegur við þann hagnað, sem ríkið getur fengið við þetta. En hitt, að með þessu frv. sé verið að leggja íþróttamálin undir ríkið, vil ég ekki heyra nefnt; það er algerlega rangt. Slíkar fjarstæður eru svo fjarri öllum sanni, að ekki þarf að rökræða þær. Það er aðeins leiðbeiningarstarfsemi, sem ríkið tekur að sér samkv. frv., en alls ekki nokkurskonar yfirstjórn íþróttamálanna í landinu; enda er það beinlínis tekið fram í þessu frv., sem ég ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Íþróttastarfsemi utan skólanna er falin frjálsu framtaki landsmanna, og fer fram í félögum og sem einstaklingsstarf, með þeim stuðningi, sem veittur er samkv. l. þessum.“ Enda tekur grg. frv. það skýrt fram, að það geti aldrei komið til mála, enda dettur engum í hug, að ríkisvaldið geti nokkurn tíma orðið driffjöður íþróttamálanna í landinu, eins og stjórnir einstakra íþróttafélaga myndu verða.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. A.-Húnv., að það starf, sem stjórnir sumra íþróttafélaga hafa unnið, ekki sízt fyrir íþróttamálin hér í Reykjavík, er svo mikið og stórkostlegt, að mér dettur ekki í hug, að ríkisvaldið gæti komið í stað þeirra. Það verður aðeins að verja þeim fjármunum, sem ríkið leggur fram, til að leiðbeina og leiða starfið í þann farveg, að það verði til sem mestrar heilsubætandi starfsemi. Vitaskuld er frjálst eftir sem áður að velja milli þess að hlíta l. og fá styrk eða gera hvorugt.