06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

27. mál, íþróttalög

*Sveinbjörn Högnason:

Ég mun hafa kvatt mér hljóðs í gær, þegar umr. um málið var að verða lokið. En það voru aðeins nokkur atriði, sem ég vildi benda á í sambandi við þær umr., sem fram hafa farið um málið.

Það er vitanlega enginn, sem efast um það nú á okkar tímum, hve nauðsynlegar íþróttir eru fyrir þjóðlífið. Og ég gæti trúað því, að það borgaði sig að draga eitthvað úr kennslu í einhverri námsgrein í okkar skólum og gefa íþróttunum meira rúm en verið hefir. Og er ég sannfærður um það, að við höfum verið allt of hirðulausir um þann þátt uppeldismálanna. Slíkt er hrein vanvirða.

Þó er því ekki að neita, að það hefir komið fram, bæði frá einstaklingum og félögum, mjög virðingarverð viðleitni um þessi mál. Ég dreg í efa, að svo margir í þjóðfélagi okkar hefðu gefið frá sér sjálfsbjargarviðleitni svo fljótt og flúið frá áreynslu og erfiði, sem raun ber vitni, ef þeir hefðu fengið þau uppeldisáhrif, sem íþróttirnar geta veitt, þ. e. meira starfsþrek, kraft og viljafestu.

Ég hygg, að það séu fáir þættir í uppeldismálum okkar, sem beri að leggja meiri áherzlu á en einmitt íþróttirnar, að koma þeim í viðunandi horf. En til þess að það megi takast, er fyrst og fremst nauðsynlegt að sameina þá krafta, sem fyrir eru í landinu og hafa starfað að þessum málum undanfarið, og reyna að skapa samstarf að eflingu íþróttanna. Mér virðist þetta frv. vera virðingarverð viðleitni í þá átt, að taka tillit til þeirra aðila, sem starfað hafa að þessum málum undanfarið.

Það hafa aðallega verið tvær félagsheildir, sem unnið hafa að þessum málum, ungmennafélögin annarsvegar, sem munu vera fyrstu frumherjar íþróttanna hér á landi og unnið þar lofsvert verk í því máli, þegar litið er á þá aðstöðu, sem þau hafa átt við að búa. Og svo er það Í. S. Í, sem unnið hefir mjög lofsvert starf. En hvortveggja þessi félög starfa á sínu sviði. Ungmennafélögin hafa unnið fyrir sveitirnar, og ég hygg, að bezt myndi íþróttamálum sveitanna borgið, ef þeim væri falið að hafa þau mál með höndum. Mér er ekki kunnugt um, að Í. S. Í. hafi starfað mikið úti í strjálbýlinu. Nú er það vitanlegt, að íþróttastarfsemi er miklu erfiðari úti um sveitir en í kaupstöðunum. Að vísu er það rétt, að ekki má ganga framhjá þessu íþróttasambandi, sem starfað hefir lengst allra heildarsamtaka hér á landi að þessum málum. En hitt er óhugsanlegt, að fela því að fara með mál sveitanna að þessu leyti. Það kemur glöggt fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að hann sér ekkert nema þar, sem mannfjöldinn er mestur saman kominn. Hann sér ekki hagsmuni dreifbýlisins, heldur aðeins þéttbýlisins. Þetta er það, sem ég fyrir mitt leyti vil átelja. Í þessum framkomnu brtt., sem eiga e. t. v. að einhverju leyti rót sína að rekja til stjórnar Í. S. Í, hefir verið reynt að koma á framfæri nokkurskonar sundrungarstarfsemi í þessu máli. Ef góður árangur á að nást, verður að sameina til þess alla krafta. Í dreifbýlinu, þar sem mér er ekki kunnugt um að stjórn Í. S. Í. hafi beitt sér mjög fyrir íþróttum, treysti ég ungmennafélögunum miklu betur til slíkra hluta. Og mig undrar, að hv. þm. A.-Húnv. skuli æskja þess, að áhrif á stjórn íþróttamála hverfi sem mest þaðan og til Reykjavíkur eða kaupstaðanna, skuli meira að segja, eins og kom fram í umr. í gær, gerast talsmaður fyrir því og vega manna harðast móti dreifbýlinu. Ég vildi óska, að allar brtt., sem stefna að því, að þéttbýlið ráði öllu, yrðu teknar aftur, en frv. samþ. í þeirri mynd, að góð lausn fáist á málinu.