06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

27. mál, íþróttalög

*Thor Thors:

Það hefir verið stefna Alþingis á undanförnum árum að láta stöðugt fleiri og fleiri svið þjóðlífsins til sín taka. Oft hefir það átt við og orðið til bóta, en hinu verður ekki neitað, að víða hefir verið of langt gengið. Lagafjöldinn er orðinn svo mikill, að fáir vita, hvað lög eru í landi, nema með sérstakri fyrirhöfn og árvekni. Menn eiga erfitt með að finna nokkurt svið, þar sem þeir mega um frjálst höfuð strjúka. Um þessi íþróttalög verður að viðurkenna, að þau eiga rétt á sér. Einkum er mikilsvert það, sem hér er ákveðið um íþróttir í skólum, og ekki verður deilt um, að fyrir þær opinberu stofnanir eigi Alþingi að skapa skipulag í þessum þýðingarmiklu þáttum uppeldisins. Ég skal ekki bæta við þau orð, sem hér hafa fallið um uppeldisgildi íþrótta, og aðeins drepa lauslega á þau atriði III. kaflans, sem mest framför er að. Í 15. gr. er ákveðið, að nemendum, sem að dómi læknis eru ófærir til þátttöku í íþróttaiðkunum fullhraustra nemenda, skuli séð fyrir líkamsæfingum við þeirra hæfi, eftir því sem fært þykir. Ennfremur, að fræðslumálastjórn skuli eftir tillögum íþróttafulltrúa og íþróttanefndar setja ákvæði um tilhögun og stundafjölda fimleikakennslu og annara íþróttaiðkana í skólum. Þessi ákvæði tel ég mjög nauðsynleg og að skólanefndum og skólastjórum sé gert skylt að sjá fyrir þessu. Og ég tel, að ganga eigi lengra í því en frv. gerir að skyldu til fimleikahússbygginga, og leyfi mér að flytja brtt. á þskj. 387 þess efnis, að þar sem 12. gr. ákveður, að barnaskólum í kauptúnum með 500 íbúum (eða fleiri) skuli séð fyrir hæfu húsnæði til fimleikakennslu, skuli koma „400 íbúum“, á tveim stöðum í gr. Vona ég, að brtt. fái góðar undirtektir.

Þá tel ég það mikilsvert ákvæði í 13. gr., að öll börn skuli skyld til þess að læra sund. Þetta hefði átt að vera komið í lög fyrir löngu, svo mörg eru dæmin um það, að menn hafa drukknað fyrir það, að vanrækt hafði verið að kenna þeim að synda.

Ef við lítum á sögu íþróttanna hér og árangur þeirra á undanförnum áratugum, verður ljóst, að hann hefir náðst fyrir frjálsa starfsemi margra einstakra manna. Íþróttalífið í landinu hefir farið mjög mikið vaxandi undanfarið. Íþróttagreinunum hefir fjölgað, nýjar íþróttagreinar hafa verið fluttar inn frá útlöndum, og þær hafa náð stöðugt aukinni útbreiðslu með þjóðinni. Það nægir að minna á knattspyrnuíþróttina, sem ekki er svo ýkjalangt síðan hófst hér á landi, en er nú orðin útbreidd um land allt og er að verða einn helzti liður í allri íþróttastarfsemi. Þá má nefna aðrar íþróttagreinar, svo sem tennisleik og golf, sem borizt hafa hingað á síðari árum. Svo má nefna það, sem ekki er síður þýðingarmikið, að hinar gömlu þjóðlegu íþróttir hafa farið mjög vaxandi, aðallega vegna þess að fyrir hina frjálsu íþróttastarfsemi hafa skilyrðin verið bætt verulega til aukinna íþróttaiðkana. Þá má vísa til þess, hversu sundíþróttinni hefir fleygt fram, því með nýjum og nýjum sundlaugum og sundhöllum hefir almenningi verið gert kleift að stunda þessa íþrótt. Ennfremur má geta þess, hversu skíðaíþróttin hefir stórum aukizt á seinni árum, og það fyrir hina frjálsu íþróttastarfsemi. Það hafa verið reistir hér og þar í nágrenni við stærstu kaupstaðina skíðaskálar, og það hefir mjög verið prédikað fyrir æskulýðnum, hve holl þessi íþrótt væri. Loks er þess að geta, að í kaupstöðum víða hefir verið komið upp bættum íþróttahúsum, þar sem almenningi gefst kostur á að iðka almennar íþróttir með nýtízku tækjum.

Öll þessi starfsemi er mjög lofsverð og þýðingarmikil fyrir heilbrigði þjóðarinnar, og mér finnst, að Alþ. hljóti að vera þakklátt þeim einstaklingum, sem rutt hafa brautina svo glæsilega á undanförnum árum. Það er vitað, að fjöldamargir menn, ekki sízt í Rvík, hafa fórnað öllum sínum frístundum í það, að skapa bætt skilyrði til íþróttaiðkana og auka áhugann fyrir íþróttum.

Nú vil ég spyrja: Því mega þessir menn ekki starfa áfram í friði að þessu göfuga hlutverki, að auka hina frjálsu íþróttastarfsemi í landinu? Hvaða nauðsyn er fyrir Alþ. að grípa til sérstakrar löggjafar til þess að taka fram fyrir hendur þessara manna? Það stendur að vísu í þessu frv., í 24. gr. þess: „Íþróttastarfsemi utan skólanna er falin frjálsu framtaki landsmanna og fer fram í félögum og sem einstaklingsstarf, með þeim stuðningi, sem veittur er samkvæmt lögum þessum.“

Þetta hljómar nú vel og sakleysislega. En þegar menn bera þetta ákvæði saman við önnur ákvæði þessa frv., þá sjá menn tilganginn með l., en hann er sá, að taka fram fyrir hendur þeirra manna, sem bezt hafa starfað að íþróttamálum undanfarin ár, og gera þá háða ríkisvaldinu um framtak sitt og vinnu. Þetta geta menn séð af 2. gr., þar sem segir: „Kennslumrh. hefir yfirumsjón allra íþróttamála að því leyti, er ríkið lætur þau til sín taka.“ Þetta getur nú litið sakleysislega út. En í 3. gr. er talað um þennan nýja framkvæmdarstjóra íþróttamálanna og honum er þar veitt heimild til þess að hafa bein afskipti á fjöldamörgum sviðum, sem hljóta að verða til þess að takmarka frelsi og frjálsræði íþróttafélaganna. Það leiðir yfirleitt af hans embætti og er tekið fram í 2. lið 3. gr., þar sem rætt er um starfssvið hans, að hann eigi að vinna að útbreiðslu og eflingu íþrótta í landinu. Hann er sjálfráður í samráði við ráðh., hve viðtækan íhlutunarrétt hann tekur sér, og hann á að gera tillögur um úthlutun fjár úr íþróttasjóði. Og hann hefir með höndum annað það, sem honum er falið í l. þessum eða verður falið með reglugerðum, er settar kunna að verða samkv. þeim. Það er á valdi ráðh. að setja þessum manni eins víðtækt erindisbréf eins og hann vill. (PHann: Eins og l. leyfa.) En þau eru býsna teygjanleg.

Þá kem ég að fjárhagshlið þessara mála. Þó það sé hin frjálsa starfsemi, sem hefir haldið uppi íþróttunum, þá hefir samt verið veittur nokkur styrkur til þessarar starfsemi, enda er nauðsynlegt, að hann sé veittur. Það á við hér eins og annarstaðar, að féð er afl þeirra hluta, sem gera skal. Og í stað þess að láta þetta afl í hendur þeirra manna, sem mest hafa unnið að framgangi íþróttamálanna, þá kemur það undir sérstaka íþróttanefnd, undir eftirliti ríkisins. Með því að hafa íhlutun fjárins með höndum er íþróttanefnd í sjálfsvald sett að hefta starfsemi einstakra íþróttasambanda eftir vilja sínum. Hér er það þýðingarmikið atriði, að verið er að draga úr áhuga og starfsgleði þeirra manna, sem mestum tíma og erfiði hafa fórnað undanfarið til þess að auka íþróttalífið. Þeir mega ekki vera frjálsir að verki lengur, allt á að vera háð opinberu eftirliti.

En ég fæ ekki séð, hver nauðsyn er á þessu, og vil spyrja: Hvers eiga þessir menn að gjalda? Því mega ekki íþróttamenn í landinu sjálfir undirbyggja sinn félagsskap og skipuleggja hann á þann hátt, sem þeir einir óska?

Ég ætla ekki að fara í neinn meting um það, hvort rétt sé að láta Í. S. Í. vera eitt að verki eða U. M. F. Í. líka. Ég fæ ekki annað séð en þessir aðilar báðir eigi það sameiginlega áhugamál, að auka útbreiðslu íþrótta, og þeir eiga að koma sér saman um, hvernig þeir haga hinni frjálsu íþróttastarfsemi.

Ég er hræddur um, að eitthvað annað sé á bak við þetta en umhyggjan fyrir velferð íþróttamálanna í landinu. Ég held, að þessu máli liggi ekki það mikið á, að aðilunum sjálfum sé ekki gefinn kostur á að setja sér sjálfir reglur um íþróttastarfsemi. Íþróttamenn eru vanir að setja sér sjálfir sínar leikreglur, og þær leikreglur eru ætið drengilegar. Það ætti því að vera óhætt að láta þá einnig á þessu sviði setja sér leikreglur.

Hv. þm. A.-Húnv. hefir borið fram till. til rökst. dagskrár. Ég get ekki verið sammála honum um rökstuðning þann, sem hann hefir flutt fyrir till. Ég tel, að það megi sízt spara fé til slíkrar starfsemi. Fyrir þá sök get ég ekki verið honum sammála, að það eigi af sparnaðarástæðum að hefta framgang málsins.

Ég vil ekki, að þetta mál nái fram að ganga að svo stöddu. Þeim ákvæðum, sem til bóta eru um íþróttalífið í skólunum, má skjóta inn í fræðslul. hvenær sem er á þessu þingi. En ég vil gera það að till. minni, til þess að koma í veg fyrir sundrungu í þessu máli, að málinu sé vísað til ríkisstj. og aðilum sé gefið tækifæri til þess að setja sér sjálfir sínar reglur eins og hingað til.