06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

27. mál, íþróttalög

*Eiríkur Einarsson:

Ég verð að segja eins og er, að ég er hvorki íþróttafrömuður né íþróttamaður. Það er náttúrlega leiðinlegt fyrir hvern og einn, sem verður að gera þá játningu um svo góða kunnáttu. En af því að það er líka viðhorf mitt sem annara, er hér hafa talað, að hér sé um menningu að ræða, sem þjóðin lætur sig miklu skipta og ber að láta sig miklu skipta, þá er sjálfsagt að fylgja slíku máli þannig eftir, að íþróttirnar fái notið sín sem bezt.

Ég álít það einnig skyldu mína að gera grein fyrir, hvernig skoðun mín er á þessu máli, sem vitað er, að almenningur lætur mjög til sín taka.

Ég er í tölu þeirra hv. þm., en þeir munu vera tiltölulega fáir hér í hv. d., sem ekki sjá ástæðu til að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir. Frá mínu sjónarmiði liggja fyrir því allt aðrar ástæður en þær, að ég játi ekki eins og margir aðrir hv. þm., að ýmisleg ákvæði í þessu frv. kunni að horfa til bóta og að því leyti eigi þessi lagasetning rétt á sér, heldur er það annað sem er þess valdandi, að ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með frv., og skal ég tilgreina þær ástæður. En áður en ég geri það, þá vil ég minnast á eitt eða tvö atriði í frv. sjálfu, sem ég álít, að séu varhugaverð, ef frv. skyldi ná fram að ganga. Það kom áðan fram skrifleg brtt. frá hv. þm. Borgf., sem hann flytur í góðu skyni og af sanngirni, til þess að aðilar þeir, sem þarna standa að, fái notið sín sem bezt. Í till. segir, að það eigi að ákveða íþróttafulltrúann að fengnum tillögum þessa og þessa aðila. Ég álít, að í till. sem þessari eigi að standa, að það skuli farið eftir till. þeirra aðila, sem þarna eru nefndir. Mér finnst mál til komið, að Alþ. nemi staðar á þeirri braut, að láta standa í l., að þetta og þetta embætti skuli veitt að fengnum tillögum þessa og þessa aðila. Ég tel reynsluna bera þess fullt vitni, að þessar tillögur eru oft óhaldbærar, þegar á hólminn kemur. Ef á að leita till. frá þeim aðilum, sem bera sérstakt skyn á málið og ætla má að hafi þá þekkingu, að verulegur veigur sé í þeirra till., þá eru þær ekki berandi fram á annan hátt en þann, að embættaveitingin sé framkvæmd samkv. till. þessara aðila. Ef till. er orðuð þannig, að embættið skuli veitt samkv. till. þessara aðila, þá er komin binding í málið. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta.

Annars finnst mér í fljótu bragði, ef íþróttal. ættu að vera framkvæmd, að ég geti þá tekið í sama streng og komið hefir fram í umr., að sá kafli, sem snertir íþróttamál í skólum, sé felldur inn í fræðslul. heldur en að vera að semja sérbálk um þessi málefni. Ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. liti svo á, að íþróttamálin séu svo mikið uppeldisatriði, að þau eigi heima í hverjum skóla. Ef það er rétt, að þau eigi þar heima sem réttmæt námsgrein, því þá ekki að skeyta þeim við námsgreinar skólanna og ætla þeim stað þar, en ekki í sérstökum l.?

Svo vil ég láta þess getið, ef koma á á þeirri skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, að ráðinn verði íþróttafulltrúi, þá er hans starf mjög yfirgripsmikið. Til þess að það starf geti orðið til umhóta á íþróttalífi landsmanna, þá finnst mér, að varla geti verið um það að ræða að lögfesta slíkan umsjármann slíkra mála öðruvísi en það sé á vitorði Alþ., að til sé í landinu sérstaklega hæfur maður, sem hv. þm. trúi, að geti öðrum fremur blásið lífsanda í þessa starfsemi. Það getur vel verið og ég vona það, ef frv. nær fram að ganga, að þá finnist slíkur maður.

Þá kem ég að því, sem aðallega hefir valdið því, að frá mínu sjónarmiði séð er mér ekki fært að greiða atkv. með frv., þrátt fyrir ýmislegt gott, sem má um það segja. Aðalástæðan er sú — og ég mun fylgja henni eftir —, að ég álít, að á þessu þingi beri í raun og veru ekki að lögfesta neitt það, er stofni til nýrra embætta eða nýrra opinberra starfa í landinu, sem muni hafa meiri eða minni aukinn kostnað í för með sér, nema því aðeins, að það standi í beinu sambandi við það sérstaka ástand, sem þjóðin lifir nú við. Það getur vel verið, að ég sé sá eini, sem hefi sett mér þetta markmið. Og þó um sé að ræða mál, sem er að ýmsu leyti gott, þá vil ég fylgja þessu eftir, enda virðist mér annað vera í ósamræmi við þann þingvilja, sem annars virðist vera fyrir hendi.

Þess vegna má þetta frv. bíða. Ég held, að þingið geri réttast í því að því er þetta lagafrv. snertir og önnur slík, að halda sig á þessu ári geldstæðu með tilliti til þessa frv. og samskonar frv.