06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

27. mál, íþróttalög

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég mun ekki fylgja því að vísa þessu máll til ríkisstj. Frv. kemur frá ríkisstj. og er samið af nefnd, sem skipuð var með fullu tilliti til íþróttafélaga og ungmennafélaga í landinu. Ég veit ekki betur en það hafi verið allgott samstarf í þeirri nefnd og engin rík óánægja út af till. þeim, sem lagðar voru fram, þegar málið var lagt fyrir menntmn.

Þegar á þing kemur, þá gera menn úlfalda úr því, að Ungmennafélag Íslands er sett við hliðina á Íþróttasambandi Íslands. Sumir menn virðast frekar vilja, að engin tegund löggjafar sé sett um íþróttamál heldur en að U. M. F. Í. sé sett við hliðina á Í. S. Í. Það hefir jafnvel komið fram í umr., að ungmennafélögin hafi ýms verkefni á dagskrá, svo sem stjórnmál, en það hafi íþróttafélögin ekki. Það er tilhæfulaust, að ungmennafélögin hafi nokkra flokksstarfsemi með höndum. Hitt kann að vera, að í ungmennafélögunum úti um landið, í þorpum og sveitum. sé meira af því fólki, sem kallað er að tilheyri hinum vinstri flokkum í landinu. En á sama hátt er Í. S. Í. kannske skipað öllu meir af þeim mönnum, sem tilheyra hinum hægri flokkum í landinu. Þetta fer eftir því, hvar þessi félög eru starfandi, en þrátt fyrir það hefir Í. S. Í. enga flokkspólitíska starfsemi með höndum. Hitt mun hafa komið fyrir um ungmennafélögin, að þau hafi tekið að sér mál, sem hafa verið óafgreidd og flokkar hafa barizt um, og það hafa þá sérstaklega verið ýms mannúðarmál. En það er ómögulegt að heimta það af ungmennafélögum eða íþróttafélögum, að þau láti alltaf afskiptalaus öll þau mál, sem flokkar koma nálægt. Slík félög ungra manna verða að taka þátt í ýmsri baráttu um mál, sem eru óútkljáð. Þau verða að taka þátt í vexti þjóðfélagsins með einhverjum hætti. En U. M. F. Í. eða Í. S. Í. hafa aldrei gert þetta af flokkspólitískum áhrifum. Ef nokkuð má finna að íþróttafélögunum, sem ég ætla annars ekki að gera, þá er það það, að þau hafi eingöngu starfað að íþróttum. Ungmennafélögin hafa haft fjölþættari félagsþroska. Það væri betra, að mörg íþróttafélögin hefðu auk íþróttanna ýmsa aðra starfsemi, sem ungum mönnum er nauðsynleg.

Ég tel þess vegna hyggilegt, að þessi tvö sambönd, sem stefna að líku marki, hafi bæði áhrif á skipun íþróttanefndar, einmitt vegna þess, að annað sambandið tekur meir til hinna stærri kaupstaða, en hitt sambandið nær meir til smærri kaupstaða og sveita. Þessi tvö sambönd geta því „kompletterað“ hvort annað og eiga ekki í neinni baráttu, enda er það tilgangur l., að þau geti ekki átt í baráttu.

Ég skil ekki, að forystumenn Í. S. Í. skuli einir vilja gína yfir öllu í sambandi við íþróttamál. Þessi l. eru engin bönd á íþróttafélögin. Þau geta haft þær framkvæmdir, sem þau hafa nú, og verið frjáls um allar sínar athafnir. Styrkur sá, sem íþróttan. kynni að geta veitt til íþrótta, er alveg sá sami og sá styrkur, sem stj. ungmennafélaga hafa átt að sækja í hendur þessara aðila. Ég skil ekki í öðru en að íþróttamenn vilji eins vel sækja þennan styrk í hendur íþróttan. eða íþróttafulltrúa, sem starfar í sambandi við fræðslumálastj. Ég sé ekki annað en að íþróttafélögin stæðu betur að vígi, að sækja hann í hendur íþróttafulltrúa og íþróttan.

Í sambandi við þetta frv. er ekki ástæða til að tala um það eins og hér væri um einhverskonar einokun að ræða og menn þurfi að biðja um sérleyfi til að fara í skíðatúr. Íþróttafélögin munu áframhaldandi rétt eins og áður halda uppi íþróttastarfsemi af frjálsum vilja og eigin frumkvæði. Þetta frv. hefir marga kosti. Ég tel það með kostum að sameina þessa aðila í starfi og líkum tilgangi. Eftir sem áður hefir Í. S. Í. öll ráð yfir leikreglum og öðru slíku, sem einn hv. þm. minntist á hér í hv. d., alveg íhlutunarlaust af öðrum aðilum. En um aðstoð hins opinbera til styrksins er sérstök n., sem ekki er hægt að færa nein rök fyrir, að hafi annan tilgang en þann, að efla íþróttirnar í landinu. Þetta frv. hefir marga kosti, bæði um sundskyldu og sérstakan íþróttafulltrúa. Það er vöntun á slíkum fulltrúa í landinu, ekki sízt í sambandi við margþætt íþróttastarf skólanna. Það er ekki nákvæmlega tekið fram í frv., hvernig störfum hans skuli háttað, og ekkert talað um kaup og þess háttar hluti. Ég tel, ef ríkisstj. sýndist svo, að það væri hægt fyrir hana að hafa þann mann í þessu starfi, sem hefði fasta leikfimiskennslu á hendi. Hann myndi að nokkru leyti geta sinnt sínum starfa, en hefði svo aðstoðarmenn, sem hann borgaði tímakaup. Með þessu móti ætti starfið að verða ódýrara en ella, þar sem hann gæti farið að sínu fasta starfi, eftir að þessi 3 ár eru útrunnin, ef þetta verður að l.

Ég er fyllilega sammála hv. þm. Borgf. um það, að íþróttan. hafi með höndum val íþróttafulltrúa. Ég er einnig samþykkur till. hv. þm. Snæf. um það, að færa niður tölu þeirra manna. sem hafa vinnu af skylduleikfimi, sundi og aðra slíka hluti. Ég mun greiða atkv. með 9.–10.–11. brtt. hv. 4. þm. Reykv., og auk þess 4. brtt., b: lið, þar sem skipun íþróttafulltrúa er ákveðin. En hinum till., sem víkja að því, að ríkisstj. á hverjum tíma verði að viðurkenna félögin, er ég öllum á móti.