06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

27. mál, íþróttalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er búið að ræða þetta mál svo mikið, að ég býst ekki við að bæta þar miklu við; ég geri ekki ráð fyrir, að það muni breyta miklu um afdrif þess. Ég mun þess vegna ekki fara út í langar umr. að þessu sinni. Það kom fram sú skoðun, að ungmennafélögin hefðu ekki valdið því hlutverki, sem þau þó sérstaklega hafa tekið upp sem stefnumark.

Það hefir lengi verið mín skoðun, að glímureglur frá 1912 gætu alls ekki staðizt, og að þær þyrfti að leggja niður. Glímureglurnar frá 1912 eru ekki eðlilegar og eins og þær hafa þróazt úti um sveitirnar í margar aldir, eins og menn geta séð, ef þeir athuga þær glímureglur, sem til eru á Landsbókasafninu.

Það verður að endurskoða þessar reglur rækilega. Í annan stað vil ég enn mótmæla því, sem fram hefir komið, og ég álít ekki hafa getað komið fram af öðrum ástæðum en þeim, að menn hafi ekki lesið frv., eða vilji ekki sjá það rétta, að hér er verið að stíga spor í þá átt að gera íþróttirnar í landinu sem frjálsastar. Það var skýrt tekið fram við 2. umr. þessa máls, og ég skal endurtaka það, að þeir menn, sem stóðu að þessu frv., eru margir af beztu íþróttamönnum landsins, og mönnum má vera það fullkomlega ljóst, að þeir menn voru ekki að semja frv., sem skerti frelsi íþróttanna. Ég ætla ekki að fara að telja upp nöfn þeirra manna, sem störfuðu að þessu frv.; ég veit, að þeir eru flestum kunnir. Ég er viss um, að ég segi ekki of mikið, þó ég telji þessa menn með fremstu íþróttamönnum þessa lands. Það hefir verið talað um, að það ætti að þvinga þetta frv. í gegn, en ég vil harðlega mótmæla því, að svo sé, og ég vil leggja áherzlu á það vegna þess, að ég trúi því, að þetta frv. verði samþ. Það mætti skýra margt í umr. manna á milli um þetta mál, sem ekki skýrist í umr. hér eins og þær hafa farið fram. Það er alveg óskiljanlegt, að það skuli geta komið fram í þessari hv. d., að hér sé um nokkra þvingun að ræða í sambandi við þetta mál. Það hefir komið fram, að það er mjög erfitt að skipa menn til þess að fara með íþróttamál, svo að ekki þyki einhverjum, sem hann hafi verið settur hjá. Af þeim mönnum er unnið gegn frv., og ef þessum mönnum tekst að hindra, að málið nái fram að ganga, þá verða íþróttamenn að gera það upp sín á milli, hvort það skuli borið fram aftur, og yfirleitt á hvern hátt það megi bezt verða. Íþróttamenn verða að gera það upp við sig sjálfir, hvort þeir álíta heppilegt að snúast gegn þessu máli að þessu sinni.