06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

27. mál, íþróttalög

Frsm. meiri hl. (Pálmi Hannesson) :

Mig undrar afstaða ýmissa andstæðinga þessa máls. Þeir tala þannig, að þeir virðast hafa hlaðið í kringum sig múr tortryggni, sem ekkert tilefni er til. Þeir halda því fram, að með þessu frv. sé verið að gera íþróttirnar að ríkisrekstri. Þeir halda því fram, að það eigi að þvinga hina frjálsu íþróttastarfsemi í landinu. Ég vil enn taka það fram, að frv. er undirbúið af n. manna, sem hafa mikla þekkingu á þessum málum. Ég skal fyrst leyfa mér að gefa hv. d. upplýsingar um skipun þessarar n., svo geta menn gert upp við sig, hvaða álit þeir hafa á þessum mönnum. Ég skal þá leyfa mér að lesa upp nöfn þeirra manna, sem sæti áttu í þessari n.: Aðalsteinn Sigmundsson, framkvæmdastjóri U. M. F. Í., Erlendur Pétursson, íþróttaforseti KR. Erlingur Pálsson, varaforseti Í. S. Í, og ætla ég, að ekki þurfi að kynna afrek hans á sviði íþróttanna. Guðmundur Kristinn Guðmundsson, alþekktur íþróttafrömuður hér í þessum bæ. Jón Kaldal, fyrrv. forseti Í.R. og sá Íslendingur, sem mestan orðstír hefir getið sér erlendis, og sá maður, sem einna einlægast hefir starfað fyrir íþróttirnar í þessum bæ. Jón Þorsteinsson íþróttakennari, alkunnur að dæmalausum áhuga fyrir íþróttum. Óskar Þórðarson íþróttalæknir, sem sérstaklega hefir gefið sig við þessum málum. Steinþór Sigurðsson forgöngumaður skíðaíþróttarinnar hér á landi. Og svo loksins síðasti maðurinn, en hann er ég, og að ég sé ekki íþróttamaður, skal ég játa, en ég er sem fulltrúi skólanna. Ég hefi talið þessa menn upp í tilefni af því, að þeim er núið því um nasir að hafa gengið á snið við það að koma fram málum íþróttanna.

Ég vil leyfa mér að mótmæla þessari framkomu. Ég get ekki séð, að nokkur maður þurfi að efast um áhuga þessara manna. Hitt er annað mál, þó fram komi aðdróttanir, því það er sérstaklega auðvelt verk. Ég vil að lokum lýsa því yfir, að meðal nefndarm. ríkti hin bezta samvinna frá hinu fyrsta til hins síðasta.

Það er um það rætt, að frv. feli í sér þvingun á íþróttastarfsemi landsmanna. Hvernig fá menn þetta út úr frv.? Ég vil halda því fram, að andmælendur frv. hafi ekki lesið það, því að ef það er gert, getur hver meðalgreindur maður gert sér ljóst, að ákvæði þess hefta á engan hátt frjálst íþróttaframtak landsmanna, enda stendur það skýrt og skorinort í 24. gr. En af hverju er verið að hafa þennan fulltrúa og af hverju er U. M. F. Í. tekið þarna með? spyrja menn. Það eru 3 aðilar í landinu, sem láta íþróttir til sín taka: U. M. F. Í., Í. S. Í. og skólarnir. (PHalld: Ýmsir fleiri, t. d. Farfuglahreyfingin). Nei, ég sem forseti þess félagsskapar get vel borið um það, að hún lætur íþróttir sig engu skipta. Gönguferðir eru ekki viðurkennd íþrótt. — Ég skal játa, að það var nokkuð rætt í íþróttanefndinni að veita skátum þarna íhlutunarrétt, og það var líka rætt um íþróttakennarafélagið í þessu sambandi, en það var horfið frá þessu aftur, þar sem skátar eru flestir í þeim landshlutum, sem íþróttafélög Í. S. Í. eru starfandi, en íþróttakennarar eru langflestir starfandi meðlimir í einhverjum félögum Í. S. Í. Hv. 4. þm. Reykv. talar um Ferðafélag Íslands sem íþróttafélag. Hvaða íþróttir hefir það á sinni stefnuskrá? (PHalld: Fjallgöngur.) Það hefir ekki fjallgöngur á stefnuskrá sinni, og auk þess eru fjallgöngur ekki viðurkennd íþrótt. — Menn tala um eitt eða tvö íþróttasambönd, sem eigi að vera löggilt. Hvar er slík löggilding? Í frv. eins og það er nú er hvergi á löggildingu minnzt. Þar er aðeins rætt um 3 manna n. frá Í. S. Í., U. M. F. Í. og fræðslumálastjórninni, til að hafa á hendi úthlutun fjár úr íþróttasjóði. Hvernig getur þetta haft bein áhrif á frjálsa íþróttastarfsemi í landinu? Hvernig getur íþróttafulltrúi gripið inn á svið frjálsrar íþróttastarfsemi? Honum er ætlað að vera leiðbeinanda, þar sem þess er óskað. Í brtt. hv. 4. þm. Reykv. er hvorki gert ráð fyrir meira né minna en að Í. S. Í. ráði íþróttafulltrúa og á hann að vera náðarsamlegast þess skrifstofustjóri, — en launast úr ríkissjóði, og Í. S. Í. á að ráða 2 mönnum af 3, sem sjá eiga um úthlutun úr íþróttasjóði. Finnst mönnum sanngjarnt að veita einum aðila af þremur þennan rétt yfir hinum tveimur? Ég er sannfærður um það, eins og við vorum í n. eftir að hafa rætt þetta mál ýtarlega, að góð samvinna er svo bezt tryggð milli aðila, að skipuð sé lítil nefnd, með fulltrúa frá þeim öllum, sem sjái um úthlutun fjárins. En að halda, að þessi n. ráði nokkru um frjálsa íþróttastarfsemi í landinu, er fjarstæða. Það á að hefta hið frjálsa íþróttastarf landsmanna, æpir hv. 4. þm. Reykv., og gera íþróttamennina alla að ríkisþrælum! Það eru meiri ósköpin, sem dynja yfir, eftir þessu að dæma. En hvar eru ákvæði frv., sem gefa hv. þm. tilefni til þessara skoðana?

Ég vil geta þess, að brtt. þær, sem hv. þm. Borgf. og hv. þm. Snæf. bera fram við frv. þetta, horfa til bóta. En mig undrar það, að hv. þm. Snæf. skyldi í sinni annars skýru og rökföstu ræðu halda því fram, að þarna væri um þvingun að ræða. Þessi þvingunarstefna, sem hv. þm. talar um, er hvergi til í sambandi við frv., enda átti hún enga formælendur innan n., sem undirbjó það.

Ég kem þá að hv. þm. A.-Húnv. Hann hélt fram sinni spádómsgáfu um útgjaldahlið málsins, þrátt fyrir það, að þau hljóta vitanlega að vera á hverjum tíma háð vilja fjvn. og Alþ., að öðru leyti en laun þessa íþróttafulltrúa. Laun hans þurfa auðvitað að greiðast, og mega metast sem ný fjárútlát, að frádregnu því, sem svarar þeirri vinnu, sem hann getur af hendi leyst fyrir fræðslumálastjórnina. Rök frv. standa á móti spádómsgáfu hv. þm., og verður hv. deild að skera úr því, hvoru hún treystir betur.

Ég verð að víkja að því hér, sem sagt hefir verið, að ungmennafélögunum sé frjálst að ganga í Í. S. Í. Það er að vísu rétt, en það kostar þau nokkurt fé, — lágmarksgjaldið mun vera 10 kr. á ári. En það skiptir ekki öllu máli, heldur hitt, að í þessum félögum eru íþróttamenn ekki nema litill hluti e. t. v. Þessi félög eiga erfitt uppdráttar, og tillagið til Í. S. Í. getur farið upp í 25 kr. Þótt þetta sé ekki mikil fjárhæð, þá munar hún furðumiklu fyrir fátæk félög, sérstaklega ef andstaða er gegn íþróttum hjá nokkrum hluta félagsmanna. Hún getur því auðveldlega valdið því, að félögin gangi ekki í Í. S. Í. Ég sé heldur enga ástæðu til að kúga þau til að ganga í Í. S. Í. Það hljóta allir að sjá, að íþróttir hér á landi eru bezt bornar uppi af tveimur aðilum: U. M. F. Í. og Í. S. Í. — Hv. þm. sagði, að ég væri með glósur til sín fyrir sparnaðarviðleitni hans. Þetta er ekki rétt, ég skal virða hvern þann mann, sem kemur með skynsamlegar till. í því efni. En sú aðferð þekkist líka, að spara eyrinn, en fleygja krónunni. Ég hlýt að benda hv. þm. á, hvaða afstöðu við tökum hér á Alþ. yfirleitt. Við erum einskonar Rauði kross, sem þykir sjálfsagt að taka við því, sem sjúkdómar, fátækt og sinnuleysi rétta að okkur, og veita stórkostlegt fjárframlag til að bæta úr, en það hefir ekki verið hugsað um að taka á móti í tíma, — koma í veg fyrir sjúkdóma. Árlega er varið um 1 millj. kr. til berklavarna. Skyldi ekkert geta sparazt af þessu fé, ef ötullega væri unnið að því að efla hreysti þjóðarinnar, — auk hins óbeina hagnaðar, sem af því leiðir? Við eyðum miklu fé í áfengisvarnir, samtímis því að áfengi og tóbak verður að nota sem mjólkurkýr til að afla ríkissjóði tekna. Við vitum, að þetta er rangt. Skyldi þá ekki jafnframt vera til þess hugsandi að eyða nokkrum krónum til að efla siðferðisþrek þjóðarinnar með íþróttum, svo að hún geti staðið á móti þeirri hættu, sem ríkisvaldið réttir að henni? Hv. þm. veit, að íþróttir eiga fyrst og fremst að stæla líkama manna og gera þá hæfa um að standa á móti því, sem að þeim steðjar, viðhalda hreysti þeirra og vinnuþreki. Er vinnuþrek þjóðarinnar þess virði, að því sé offrað nokkrum krónum eða ekki? Ég spyr.

Ég vil að lokum taka það fram, að þessa dagana dáumst við allir að mestu íþróttaþjóð heimsins, Finnum. Þeir hafa tekið á sínu böli með dæmafárri hreysti og ró. Skyldu íþróttirnar ekki eiga sinn þátt í því? Ég er ekki í vafa um það. Þeir hafa ekki fórnað einum fulltrúalaunum, eins og hér er farið fram á, heldur mörgum milljónum til þeirrar starfsemi, sem nú ber þeim ávöxt í hreystilegri vörn þjóðarinnar, í þrautseigju hennar, þoli og festu.