10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

28. mál, dýralæknar

Flm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Herra forseti! Í þessu frv. á þskj. 38 er steypt saman í eina heild tveim lagabálkum. Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á ákvæðum um dýralækna, er var steypt saman í frv. Mér fannst óþarfi að hafa þau í tvennu lagi. Aðaltilgangurinn með þessu frv. er þó annar. Dýralæknar hafa undanfarið óskað eftir, að viðurkenning á gjaldskrá fyrir embættisverk þeirra fengi staðfestingu stjórnarráðsins. Þetta hefir ekki tekizt hingað til, vegna þess, að stjórnarráðið áleit sig bresta heimild fyrir því að staðfesta, að dýralæknar megi taka einn einasta eyri fyrir það, sem þeir gera sem aukastörf. Þetta hefir þó ekki verið meining löggjafarvaldsins, að dýralæknar, sem hafa lægst laun allra lækna, mættu ekki fá laun fyrir sín aukastörf eins og aðrir læknar. Atvmrh. taldi nauðsynlegt að koma slíku ákvæði í 1. um skipun dýralækna og mælti með því. Ég hefi gert breyt. við fyrstu gr. frv. í framhaldi af frv., framkomnu frá hv. þm. N-Ísf.. á þskj. 10 um fjölgun dýralækna, sem er samkvæmt ósk

um að fá einn dýralækni til Vestfjarða. Í núgildandi lögum er ákveðið, að þeir skuli vera fimm. En ég hefi leyft mér að bæta einum við, þannig að þeir verði þá sex. Býst ég eindregið við, að þetta nái fram að ganga, þar sem einhuga áskoranir hafa komið frá Vestfirðingum um að fá sinn dýralækni.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál. Hér er aðeins um sanngirniskröfu að ræða og ekki mjög fyrirferðarmikla. Vildi ég óska þess, að þessi sanngirniskrafa okkar dýralækna mæti skilningi hér í hv. deild, og óska eftir, að frv. verði vísað til hv. landbn.