24.03.1939
Neðri deild: 26. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Flm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Ég vil byrja á því að benda hv. þdm. á, að í dagskránni í dag er prentvilla; þar stendur 48. mál Ed., en á vitanlega að vera 48. mál Nd., því að mál þetta er borið fram í þessari hv. d. Einnig er í frv. önnur meinleg prentvilla, þar sem stendur maí, en á að vera júní, sem verður vitanlega leiðrétt.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi lesið grg. frv., sem er aðallega erindi frá 54 bátaeigendum og sjómönnum, er stunda dragnótaveiðar frá Akureyri og sjávarplássum við Eyjafjörð, sem skora á hið háa Alþ. að gera þá breyt., sem frv. fer fram á, á l. um dragnótaveiðar í landhelgi. Mér þykir hlýða að láta fylgja hér með frv. orðrétta þá grg., sem fylgdi áskorun þessara manna, sem ég gat um. Þeim finnst þeir vera misrétti beittir með því, að veiðitíminn fyrir þessar dragnótaveiðar skuli ekki vera sá sami fyrir austan og norðan land eins og hann er fyrir sunnan og vestan land. Í l. nr. 45 frá 13. júní 1937 er ákveðið í 1. gr., að innan íslenzkrar landhelgi skuli dragnótaveiðar vera bannaðar ár hvert á tímabilinu frá 1. janúar til 15. maí og frá 1. til 31. desember á svæðinu frá Eystra-Horni sunnan um land að Straumnesi, og á svæðinu frá Straumnesi austur um land að Eystra-Horni frá 1. janúar til 15. júní og frá 1. til 31. desember. Einnig eru dragnótaveiðar á skipum, sem eru að stærð 35 smálestir brúttó eða meira, bannaðar frá 15. maí til 30. september ár hvert.

Ég býst við, að þetta misrétti sé byggt á því áliti þeirra manna, sem þykjast hafa mest vit á þessum málum, að hrygningartími kolans sé seinna fyrir norðan og austan land heldur en fyrir sunnan og vestan land, þar sem hitinn er meiri. Út af þessu hefi ég reynt að afla mér upplýsinga um þetta hjá fræðimönnum, sem helzt má vænta, að hafi vit á þessum hlutum, Finni Guðmundssyni og Árna Friðrikssyni fiskifræðingi, og hefi ég fengið upplýsingar um þetta hjá þessum mönnum, sem eru nokkuð samhljóða, nefnilega á þá leið, að það muni vera nokkurn veginn víst, að hrygningartíminn fyrir norðan land muni vera eitthvað seinna en fyrir sunnan land, en hrygning muni eiga sér miklu minna stað fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan og vestan land, þar sem heitari er sjór.

Ég legg ekki mikið upp úr því atriði, sem núgildandi löggjöf um dragnótaveiði er byggð á, að vegna hrygningar kolans þurfi að hafa þennan mismun á veiðitímanum fyrir norðan land og sunnan, vegna þess að ég álít, að litið af kola hrygni fyrir Norðurlandi.

Nú vakir það helzt fyrir þeim mönnum, sem fara fram á, að þessum l. um dragnótaveiðar í landhelgi verði breytt samkv. þessu frv., að ákveðinn verði sami veiðitími um þessa fiskitegund, skarkolann, kringum allt landið, hvort sem ákveðið verður svo, að byrja megi að veiða kolann 15. maí, 1. júní eða 15. júní.

Formaður fiskimálan. hefir tjáð mér, að meðal sjómanna sé almennur áhugi um það, ekki aðeins fyrir norðan land, heldur líka fyrir sunnan og vestan land, og jafnvel hér við Faxaflóa, að veiðitímatakmarkið sé fært til, vegna þess að fiskimenn hafa komizt að því fyrir löngu, að svo og svo mikið af hrygningarfiski af þessari tegund sé einmitt í þeim veiðiskap, sem veiðist á þessu tímabili, sem hér í þessu frv. er gert ráð fyrir, að veiðitímatakmarkið verði fært yfir.

Sá fiskur er ekki nema hálfgildingsfiskur hvað verðlag snertir, og varla útflutningshæfur, sem veiðist á þessu tímabili, frá 15. maí til 15. júní. Með tilliti til þessa virðist því rétt að færa veiðitímatakmarkið eins og hér er gert ráð fyrir.

Það er sanngirnismál, að Norðlendingar fái að nota sjálfir sín fiskimið til að veiða þennan fisk þar á sínum bátum án íhlutunar frá veiðimönnum í hinum veiðistöðvunum. Því að nú er það svo, að þegar Sunnlendingar og Vestfirðingar eru búnir að urga upp miðin hjá sér á tímabilinu frá 15. maí til 15. júní, þá koma þeir á fjölda báta norður til þess að veiða kolann á grunnmiðunum fyrir Norðurlandi og spilla með því mjög fyrir þeim, sem ættu meiri sanngirniskröfu á að fá að stunda þar sínar kolaveiðar óáreittir, nefnilega Norðlendingum, sem þá verða undir í þeim leik með sína 2–5 tonna báta. En Norðlendingar hafa eftir aflaleysisárin, sem komu eftir 1932, meira og meira hnigið að því ráði að koma sér upp smábátum í stað stærri báta, sem þeir notuðu áður, til þess að mynda sér lengri og vænlegri atvinnu heldur en fiskveiðar með stærri bátunum reyndust að vera. Verða svo þessir menn að sækja á þessi uppreyttu fiskimið allt sumarið og haustið, sem aðkomubátarnir eru búnir að skafa og skemma fyrir þeim. Með litlum bátum, sem þeim er miklu viðráðanlegra að eignast og reka en stærri bátum, sem kosta kannske tugi þús. króna, álita þeir, að þeir geti búið sér nokkuð tryggan atvinnuveg sér til lífsframdráttar, ef löggjöfin heimilar þeim tilhlýðilegan rétt yfir þeim grunnmiðum, sem þeir raunverulega eiga sanngirniskröfu á að hafa.

Þessi breyt., sem hér er farið fram á, er sanngirniskrafa líka með tilliti til þess, að það er viðurkenndur sannleikur, að veiðin mun nú vera of snemma leyfð, þar sem svo eða svo mikið af veiðiskapnum mun einmitt vera aflað um hrygningartímann, sem getur skert stofninn úr hófi fram og þá orsakað aflaleysi með tímanum.

Ég vona, að hv. þm. skiljist, hvað hér er á ferð, og sýni þessu sanngirnismáli fullkominn skilning.

Óska ég svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn., að þessari umr. lokinni.