13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég tel rétt, að það komi fram við þessa umr., í hverju fyrirvari minn er fólginn. Fyrirvari okkar hv. þm. Hafnf. stafaði af því, að í frv. eins og það er er bann við því, að skip, sem eru 35 smál. brúttó eða stærri, megi stunda dragnótaveiði. Við teljum, að eins og nú er háttað sé þess í fyrsta lagi ekki þörf. Reynslan hefir sýnt, að fá skip, sem stunda þessa veiði, hafa þessa stærð eða þar yfir. Að vísu er verið að ganga á gerða samninga, ef þessi takmörk eru sett. Ég hygg þó, að nú séu ekki mikil líkindi fyrir því, að dönsk skip, hvort þau hafa þessa eða aðra stærð, komi hingað til dragnótaveiða, og lítur út fyrir, að úr þeirri fisksókn dragi. Hinsvegar er leiðinlegt, að á þeim tíma, sem sambandslögin gilda, yrði hægt að segja með réttu, að við hefðum gengið á gerða samninga. Ég æski þess, að ríkisstj. láti sína skoðun í ljós um þetta mál. Þegar það var til umr. s.l. sumar, ákvað mþn. að vísa því til ríkisstj., og væri þess vegna æskilegt að heyra álit hæstv. ráðh. um þetta, hvort hér væri um að ræða brot á sambandslögunum. Ef ekki er svo, fellur minn fyrirvari niður.

Í öðru lagi vildi ég taka fram við þessa umr., að um b-lið brtt. frá n. er það að segja, að ég hefi ekki enn átt kost á að kynna mér til hlítar, hvernig slíkt bann myndi verka á veiðar innanlands almennt. Ef til vill myndu þessi takmörk verða óþægileg fyrir okkar veiðimenn. Ég gæti t. d. hugsað mér, að með þessu fyrirkomulagi yrði kannske lokað höfnum við Skagafjörð, á svæðum, þar sem fiskimenn almennt stunda veiðar. Ég hefi gert tilraun til að fá kort hjá vegamálastjóra yfir þau svæði, sem hér koma til greina, en fékk það svar, að slík kort væru ekki til. Ég bendi aðeins á þetta hér til þess að koma í veg fyrir, að frv. hefði óþægilegar afleiðingar, því okkur ber fyrst og fremst að afla þess fiskjar, sem gefur beztan arð. Því má heldur ekki gleyma, að staðreyndir sanna, að saltfiskurinn hefir verið mun minni en undanfarið, og við verðum því að byggja okkar afkomu á frysta fiskinum. Þá er það viðurkennt, að bezt borgar sig að veiða þann fisk, sem dýrastur er á erlendum markaði, og þarf að ganga frá því með aðgæzlu, hvort sú veiði skerðist að miklum mun. Ég hefi ekki getað gengið úr skugga um það við þessa umr., ef Íslendingar taka upp þá reglu að banna með öllu dragnótaveiðar í landhelgi, hvort nægileg rök liggja fyrir um það, að þetta sé réttlátt.