13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég ætla að gera að umræðuefni. Annað er um það, að með frv. er styttur sá tími, sem heimilaður er til dragnótaveiða í landhelgi, og gerði frsm. n. grein fyrir því. Ég er nú ekki fremur en hann dómbær um það, hvort nægileg rök liggja að því, að þetta sé nauðsynlegt. Ég trúi því, að frá vissu sjónarmiði sé vit í þessum breytingum. Aftur á móti má líka finna rök til andmæla. Ég sé, að n. hefir breytt þessum ákvæðum frv. þannig, að tíminn er færður fram um hálfan mánuð frá því, sem frv. ætlaðist til. Ég tel þetta til bóta og nær því, sem ég hefði óskað eftir, að lögfest yrði að þessu sinni. Það, sem ég hefi á móti því að gera breytingu á þessum l., er það, að eins og hv. þm. er kunnugt, hefir breyting á þessari löggjöf valdið miklum deilum innan þingsins. Hafa oft staðið þar fremstir hv. þm. Borgf. og hv. þm. Vestm. Nú er það svo, að þessi breyt., sem hér um ræðir, er alveg gagnstæð óskum hv. þm. Vestm. og gegn því fyrirkomulagi, sem hann hefir borið hér fram í umboði kjördæmis sins og barizt fyrir. Nú vill svo illa til, að hann er ekki viðstaddur, dvelur erlendis á vegum ríkisstj. til þess að vinna að hagsmunum alþjóðar. Ef ekki væri svo, myndi hann nú hafa fært mörg rök gegn þessum breytingum, og ég dreg í efa, hvort þær hefðu náð fram að ganga ef hans hefði notið við. Ég skýt þessu fram hér til þeirra, sem vera kynnu í vafa um, hvað rétt sé, hvort ekki væri ástæða til að leggja svo mikið upp úr fjarveru þessa hv. þm., að vert væri að hraða málinu gegnum þingið. Einnig hvort ekki væri rétt að taka tillit til þess við afgreiðslu málanna, hvort þeir hv. þm., sem mest hefðu barizt fyrir þeim á þingi, væru viðstaddir eða ekki. Ég læt nægja að skjóta þessu fram til athugunar.

Þá vil ég út af þeim tilmælum, sem hv. 2. landsk. þm. beindi til mín viðvíkjandi niðurlagi fyrri málsgr. 1. gr. laga um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, hjá skipum, sem eru 35 smál. og stærri, leyfa mér að segja, að mitt álit er, að þetta ákvæði sé stílað beint gegn dragnótaveiði Dana hér við land. Þeir eiga með sambandslögunum sama rétt til að veiða og við Íslendingar, en geta ekki hagnýtt sér minni báta en 35 smál. Þetta ákvæði mundi í framtíðinni dæmt sem ekki rétt, vegna þess að hlutur Dana er skertur og þeir ekki látnir njóta sambandslaganna. Ég er þannig skapi farinn, að ég myndi skammast mín fyrir þetta. Með sambandslögunum láta þeir okkur í té annað og meira en við getum nokkurntíma vonazt eftir af öðrum þjóðum. Það er því ekki sæmandi að leita til þeirra annan daginn, en hinn daginn að samþ. breytingar, sem blátt áfram taka fyrir dragnótaveiði þeirra hér við land. Ég álít okkur of mikla menn til að vera með slíkan smásálarskap, sem engu munar fyrir þjóðarbúskapinn. Sjálfsvirðing okkar og höfðingslund er meiri en svo, að við viljum setja þennan blett á okkur, þó að lítill sé. Þetta varðar litlu fyrir okkar þjóðarhagsmuni, en það er ekki laust við, að ég hafi það á tilfinningunni, að þetta sé ekki okkur samboðið. Þess vegna væri æskilegt, að hv. n. flytti við 3. umr. brtt., sem felldi niður þetta ákvæði.

Ég vil segja út af brtt. á þskj. 412, að ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir við þessa umr., hverjar afleiðingar þær myndu hafa. En ég vil sérstaklega heina þeirri ósk til hv. d., að hún taki til athugunar þetta, sem ég hefi rætt hér, annaðhvort í samráði við n. eða við 3. umr. málsins.