13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki tala mikið um þetta mikið rædda mál. Ég játa, að það er fullkomlega fyrir utan minn verkahring, en hefi samt tekið afstöðu til þessara mála hér í d. á undanförnum árum. Ég er andvígur of mikilli þrengingu að þessum atvinnurekstri. Mér finnst koma fram í frv. nokkurskonar þrenging, með því að stytta þann tíma, sem ætlaður er til dragnótaveiða í landhelgi. En það, sem kom mér til þess að standa upp og ég get talsvert dæmt um, sökum setu minnar í dansk-íslenzku ráðgjafarnefndinni, er hitt atriðið, um takmörk á stærð skipanna. Mér þótti vænt um ummæli hæstv. atvmrh. og hv. 2. landsk. um það atriði. Að vísu má segja, að með þessu frv., þó að lögum yrði, væri ekki sköpuð sú fyrsta óánægja, sem hér um ræðir. Eftir að rætt var ákvæði í l. 1937, kom þessi óánægja upp og Danir kvörtuðu undan því, að þeim væri ekki leyft að veiða á þeim bátum, sem komu upp til landsins í okt. og nóv. mánuðum, og það sé sama sem að eyðileggja þeirra veiði. Þeir fóru fram á, að það yrði lengt um einn mánuð, þannig að bátar 35 smál. eða stærri fengju að veiða frá 1. sept. til 1. des. Þetta spursmál var ekki tekið upp í nefnd þeirri, sem hafði með þessi mál að gera hér á þinginu, og ekki þær ástæður, sem færðar eru fram móti þessu. Bannið er sett jafnt á Íslendinga og Dani, og hæstv. ráðh. túlkaði rétt tilfinningar okkar allra í dansk-íslenzku ráðgjafarn., því að okkur þótti skömm að þessu. Það er tilraun til að fara í kringum gerða samninga. Fyrst eru gerðir samningar um fullkomið jafnrétti beggja þjóðanna til þessarar atvinnu, en svo eru sett ákvæði um að útiloka hinn aðilann, en ekki Ísland sjálft. Sambandsþjóðin getur ekki sótt yfir hafið til þess að nota þessa veiði. Það er óhætt að segja, að nefndarmennirnir íslenzku hafa verið sammála um þetta þjóðarspursmál. Í dansk-íslenzku n. hefir verið farið að þessum málum af mikilli gætni. Þeir hafa engan veginn verið að heimta það, að þeirra hagsmuna sé gætt, heldur aðeins farið fram á, að þeirra bátar, sem hingað til hafa stundað þessa veiði, fái framvegis að stunda hana. Ég verð að segja, að ég hefi ekki kjark í mér til að standa á móti svo sanngjörnum óskum. Það má alltaf segja, hvað það stoði danska þjóðarbúskapinn að fá að veiða hér á þessum fáu bátum, — ég held, að þeir séu 12, þar af 3 frá Færeyjum, — og alltaf heltist eitthvað af þeim úr lestinni, bátarnir ganga úr sér eða skipta um eigendur. En þótt þetta sé lítið atriði í danska þjóðarbúskapnum sem heild, þá segja þeir sem svo, að þetta geti verið aðalatriði í búskap þeirra þegna danska ríkisins, sem þessar veiðar stunda. Þetta kemur út eins og verið sé að reyna að koma sér hjá að efna þau loforð, sem felast í danskíslenzka samningnum, og sem mikið hefir verið deilt um, en úr því að hann er til, þá álít ég þetta óheppilegt.

Ég get að mestu sparað mér umr. um þetta efni; hæstv. atvmrh. tók fram það, sem segja þurfti. Ég býst ekki við, að þetta hafi nein áhrif á viðskipti milli þjóðanna, og auðvitað verður aldrei farið að gera neitt aðalatriði út úr svona smámunum, en ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil ekki, að farið verði að þrengja enn meira að þessu, og þótt við megum e. t. v. vera ánægðir yfir, að þessi veiði verði ekki leyfð nema 2 mánuði ársins, þá þykir mér þetta leiðinlegt svar við svo hógværum kröfum af Dana hálfu að banna þeim veiðarnar alveg, en það er gert með þessu frv. Ég mun því stuðla að því fyrir mitt leyti, að þetta ákvæði nái ekki fram að ganga. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að þar sem málinu var vísað til ríkisstjórnanna síðast, en hæstv. ráðh. gaf ekki um það neina skýrslu, þá muni því alls ekki hafa verið hreyft milli ríkisstjórnanna. Má líka vel vera, að fyrir stjórnarvöldin hafi þetta mál enga þýðingu, en það má líka segja, að fyrir okkur sé leiðinlegt að sýna ekki vilja okkar, að halda uppi sæmd okkar í þessu máli.