13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. 2. þm. S.-M. hefir eiginlega tekið af mér ómakið. Ég kvaddi mér hljóðs af því, að ég kunni ekki við, að það stæði óleiðréttur sá misskilningur, sem kom fram hjá hæstv. atvmrh., hv. 1. þm. Reykv. og einnig að nokkru leyti hjá hv. 11. landsk., sem sé, að takmörkuninni á stærð þeirra báta, sem stunda mega kolaveiðar, væri beint gegn Dönum, til þess að hafa af þeim réttindi, sem þeir hafa hér sem sambandsþjóð okkar. Þetta er misskilningur — till. er fram komin af sömu ástæðu og óskirnar um að opna landhelgina fyrir dragnótaveiði, svo að fiskimenn landsins geti orðið aðnjótandi þeirrar veiði, sem þar er að fá. Þetta hefir ekki þótt fært, og því hefir skapazt þetta samkomulag á milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Um þetta mál, sem nú liggur fyrir, er einnig til samkomulagsmöguleiki, sem sé, hvað mikið af landhelginni eigi að opna og hvað mörgum skipum eigi að leyfa að veiða. Takmarkanir á stærð skipanna eru ekki annað en takmarkanir á fjölda þeirra og er eins réttlát og takmörkun þess tíma, sem veiða má á. Það liggur í augum uppi, að ef þessi veiðiskapur er arðberandi, þá myndu landsmenn sjálfir stunda hann jafnt á stórum skipum og smáum, svo veiðin er ekki takmörkuð vegna þess, að stóru skipin eru dönsk.

Því er hér fullkomið jafnrétti á milli Dana og Íslendinga að þessu leyti. Að sjálfsögðu geta Danir ekki notið fullkomins jafnréttis á við Íslendinga hér á landi, en sama máli gegnir um Íslendinga í Danmörku; þeir njóta ekki fulls jafnréttis við landsmenn þar.

Þessi löggjöf verður ekkert skarð í þau réttindi, sem Danir eiga hér samkv. sambandslögunum, og slíkur misskilningur má ekki vera ríkjandi.