13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Magnús Jónsson:

Hæstv. atvmrh. hefir tekið af mér ómakið og sagt það, sem ég vildi sagt hafa. Það hefir komið í ljós við umr., að menn eru mismunandi viðkvæmir fyrir því, hve nærri sé gengið gerðum samningum. Ég get gengið inn á rök hæstv. fjmrh., að innlendar ástæður hafi ráðið því, að bannaðar verði dragnótaveiðar, til að fækka þeim bátum, er veiðar þessar stunda. Mál þetta var dregið fram í dansk-íslenzku ráðgjafanefndinni. Hinum dönsku nefndarmönnum var þetta nokkuð viðkvæmt atriði. Þeim fannst Danir vera útilokaðir frá veiðum, og þótt Íslendingar hefðu lagalegan rétt til að setja þessi ákvæði, þá hafi þeir þó farið í kringum samninginn. Og um það er ekki að efast, að við höfum rétt til að setja svona lög. En lagamenn, sem halda fast við bókstafinn, refjamennirnir, standa einmitt alltaf á grundvelli laganna. Þeir brjóta aldrei beinlínis lögin, en þeir fara bara í kringum þau. Ég vil nú ekki líkja okkur við refjamenn, en við ættum ekki að beita rétti okkar til lagaskipunar í þessu efni meira en góðu hófi gegnir. En reynandi er að komast að samningum um það, hvort ekki mætti leyfa þeim mönnum, sem gert hafa út báta á þessar veiðar, heimild til að stunda þessar veiðar áfram. Ég fæ ekki séð neina ástæðu til að óttast þessa báta. Þau 4 ár, sem eftir eru unz sambandslögin ganga úr gildi, eru ekki langur tími. Það er einnig vitanlegt, að bátum þeim, sem stundað hafa þessa veiði, hefir fækkað frá 14 niður í 8, og því varla ástæða til að ætla, að þeir geti gert mikinn usla. Við í sambandslagan. höfum rætt þessi atriði og afgr. þau til stj., en ég veit ekki, hvort till. n. hafi verið læstar niður í skúffu þar eða hvað orðið hefir um þær. Því var í sambandslaganefndinni haldið fram af Dana hálfu og við ísl. nm. gengum inn á, að skjóta bæri þessu máli til ríkisstjórna beggja landanna. Og mér dettur ekki í hug að ætla, að tvær ríkisstjórnir séu svo þvermóðskufullar, að þær geti ekki komið sér saman um þetta mál.