23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

28. mál, dýralæknar

*Jón Pálmason:

Eins og sést á nál. landbn., hefir hún orðið sammála um að mæla með framgangi þessa máls. En við hv. þm. Borgf. flytjum brtt. við frv., eins og sést á þskj. 67, á þá leið, að í staðinn fyrir, að í frv. er gert ráð fyrir tveim dýralæknum í Vestfirðingafjórðungi, þá viljum við láta nægja að hafa þar einn dýralækni, eins og er í Austfirðinga- og Norðlendingafjórðungi. Við teljum það frekar óeðlilegt á meðan ekki er nema einn dýralæknir í Norðlendingafjórðungi, sem er stærstur, að fara að setja á stofn tvö dýralæknisembætti á Vestfjörðum. Hinsvegar er það augljóst mál, að það er mjög óeðlilegt, að dýralæknir fyrir Vestfirði, sitji í Borgarnesi, því að sjálfsögðu ætti hann annaðhvort að sitja í Stykkishólmi eða á Ísafirði. Er það miklu nær allri sanngirni, að sækja til dýralæknis í Reykjavík fyrir Borgarfjarðar- og Mýrasýslu en fyrir Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu að sækja til dýralæknis á Akureyri. Ef farið yrði að fjölga dýralæknum í Vestfirðingafjórðungi, kæmi strax krafa um, að fjölgað yrði dýralæknum í Norðlendingafjórðungi. Og þótt hér sé um tiltölulega litla fjárupphæð að ræða, tel ég ástandið hjá okkur á sviði fjármálanna þannig nú, að við verðum að fara hægt í að bæta nokkru nýju inn í okkar fjárlög, sem við mögulega getum komizt af án. Hér er náttúrlega ekki nema um 3–4 þús. kr. að ræða, en þótt það sé ekki hærri upphæð, ef við getum komizt hjá því að greiða hana, eins og við hv. þm. Borgf. leggjum til, þá álít ég það sjálfsagt. Sé ég ekki annað en það sé ósköp auðvelt að spara þessa upphæð með þeim hætti, sem ég hefi þegar tekið fram.