21.12.1939
Efri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa brtt., en vil benda á það, að ef hún yrði samþ., yrði það til þess, að málið verður að fara til sameinaðs þings, og er þá ekki hægt, þar sem nú er áliðið þingtímans, að ljúka málinu á þessu þingi. Hvernig um málið fer þar, skal ég ekki segja. En mér þykir einkennilegt, hversu mikið kapp er lagt á að vera í andstöðu við Nd., sérstaklega vegna þess, að þessar breyt. eru ekki annað en leiðréttingar, t. d. það, að leyfa ekki bátum, sem eru 35 smálestir eða stærri, dragnótaveiði innan íslenzkrar landhelgi. Í gildandi lögum nú er þessi heimild bara frá 1. okt. til 30. nóv., m. ö. o. að eins og frv. kemur frá Nd. er heimildin sú sama, að undanteknu því, að nú verður að fá leyfi ráðherra. Tímatakmörkunin nákvæmlega hin sama. En ef till. hv. 1. þm. Reykv. verður samþ., er tíminn lengdur. Þetta atriði var töluvert rætt í Nd., og tel ég málið í hættu með því að setja það í Sþ. Það var lögð áherzla á það að koma til móts við Dani, og einnig lögð áherzla á það af hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Reykv. að sýna vinsamlegt tillit, og finnst mér, að hæstv. ríkisstj. gæti orðið við því, án þess að auka þennan rétt. Ég vildi láta þetta koma fram, þótt menn líti misjöfnum augum á þessi ákvæði eins og þau eru nú. Því, sem kann að vera nauðsynlegt í frv., er ef til vill stefnt í voða með því að leita til Sþ. Nd. hefir aðeins viljað hvika til í því að veita leyfið eftir því sem á stendur, en vill alls ekki lengja tímann. Ég tel því ástæðulaust að samþ. þessa brtt.