21.12.1939
Efri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Magnús Jónsson:

Við þurfum ekki að hafa langar umr. um þetta mál. Það var leiðrétt í hv. Nd. að því leyti, að nú er fullkomin heimild fyrir því, að ráðh. veiti veiðileyfi fyrir þessa báta. Ég er ekki að hafa á móti rökum hv. 2. þm. S.-M., annað en það, að þetta eru ekki lög. En eins og brtt. mín er nú, fer hún aðeins fram á, að fyrra markið sé fært fram, og vil ég segja, að ef mín till. verður samþ., er þetta ákvæði orðið rýmra en í lögunum. Hér er ekki um annað að ræða en að ráðh. geti veitt leyfið. Enginn af þessum bátum getur stundað veiði nema með leyfi ráðherra.

Hv. þm. talar um að fara í kringum sambandslögin. Þeir kvarta um lögin eins og þau eru, en það er búið áður að fullnægja þeim kvörtunum. Þeir kvörtuðu út af lögunum 1937. Á fundum nefndarinnar er alltaf kvartað um þetta, og er því óheppilegt að leggja slíka áherzlu á það nú.

Ég held, að hv. þm. hljóti að vera mér sammála um, og það sé einmitt eftir hans rökum, að ekki sé rétt að útiloka þá báta, sem geta haft upp úr síldveiðinni, og að ráðh. geti leyft þeim bátum, sem hafa orðið fyrir tapi, að vinna það upp með því að stunda dragnótaveiði. .

Eins og nú er með verðmæti þessarar vöru, væri það ófyrirgefanlegt að nota sér það ekki að afla hennar. Verðlag getur breytzt, og komið getur fyrir, að ekki sé hægt að selja vöruna, en á þessum tímum á að auðvelda það fyrir landslýðinn að afla þeirra verðmæta, sem gildi hafa. Við eigum að grípa gæsina meðan hún gefst. Núna selja togararnir afla sinn fyrir 5000 £. En það er ekki vist, hvað það stendur lengi.

Ég geri ekkert úr þeirri röksemd, að málinu sé hætta búin, ef þessi till. er samþ. og það fer til Sþ. Hv. Nd. hefir veitt því samþykki sitt, og ef það yrði samþ. hér í þessari hv. deild, getur því ekki verið nein hætta búin í Sþ.