27.03.1939
Neðri deild: 27. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

28. mál, dýralæknar

Sigurður E. Hlíðar:

Ég lét nokkur orð falla um þetta mál við fyrri hluta þessarar umr., og mætti því segja, að óþarfi væri að hafa þau orð fleiri. En það eru ummæli hv. þm. A.-Húnv., sem ég get ekki látið ómótmælt. Hv. þm. hélt því fram, að það væri óþarft að bæta við öðrum dýralækni á Vestfjörðum. Þetta er ekki rétt. Hvað viðvíkur samanburði hans á hinum landshlutunum, sem ekki hafa nema einn dýralækni hver fjórðungur. þá skal það tekið fram, að þetta er ekki sambærilegt. Vestfirðingafjórðungur er sá landshluti, sem versta hefir aðstöðuna í þessu efni. Hv. þm. stakk upp á því að flytja dýralækninn frá Borgarnesi til Ísafjarðar. Að mínu áliti væri ekki hægt að bæta úr þörfinni, sem fyrir annan dýralækni er í Vestfirðingafjórðungi nú. með því að flytja aðsetur dýralæknisins til í umdæminu. Enda efa ég það stórlega, að Borgfirðingar,mundu sætta sig við það, að slíkt yrði gert, og ég efast um, að þeir þakki þm. sínum nokkuð fyrir að berjast fyrir slíku hér á Alþ. Það er ekki raunverulegur sparnaður, sem hér er á ferðinni, heldur er hér verið að kasta krónunni, en spara eyrinn. Sá aukni kostnaður, sem það hefði í för með sér að bæta einum dýralækni við á Vestfjörðum, er alls ekki geysilega mikill. Það er vitanlegt, að byrjunarlaun dýralækna eru 2500 kr. Nú er hinsvegar ekki völ á nema einum manni til að taka þetta starf að sér, og sá maður hefir ekki verið í embætti áður. Hann mundi því verða að byrja með byrjunarlaunum. Það hefir heyrzt, að stofna ætti 2 embætti innan skamms hvort upp á 10 þús. kr. Það er enginn, sem talar um það. En ef á að fjölga dýralæknum um einn, þá þykir mönnum nóg komið af eyðslunni. Það skýtur talsvert skökku við, að sömu menn skuli vera á móti fjölgun dýralæknanna, en með því að stofna 2 10 þús. kr. embætti.