27.03.1939
Neðri deild: 27. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

28. mál, dýralæknar

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Hv. þm. A.-Húnv. færði fram þá röksemd fyrir sinni brtt., að nú þegar væri einn dýralæknir í Vestfirðingafjórðungi, og það væri þá bezta ráðið að flytja hann á þann stað í fjórðungnum, sem bezt væri aðstaðan að sækja hann. Ég vil benda hv. þm. á það, að þó að svo sé að orði komizt, að umdæmi dýralæknanna séu bundin við fjórðunga, þá er slíkt ekki eðlileg skipun, enda er það ekki þannig í framkvæmdinni. Ég veit líka til þess, að dýralæknirinn í Borgarnesi hefir gegnt dýralækningastörfum víðar en í Vestfirðingafjórðungi, þar á meðal í nokkrum hluta Sunnlendingafjórðungs, þar sem er Borgarfjarðarhérað. Einnig hefir dýralæknirinn í Borgarnesi verið talsvert sóttur norður í Húnavatnssýslur, og þannig hefir hann bætt Húnvetningum upp þá vondu aðstöðu, sem þeir hafa til að ná til dýralæknis frá Akureyri. Ég álit þess vegna, að það geti ekki komið til mála að flytja dýralækninn frá Borgarnesi til Ísafjarðar. Ef það yrði gert, þá mætti segja, að Borgarfjörður, Dalir og Snæfellsnes væru algerlega dýralæknislaus, og einnig sá hluti Norðurlands, sem þessi dýralæknir hefir gegnt. Og ef við á annað borð göngum inn á, að nokkurt gagn sé að dýralæknum — og ég er einn þeirra, sem álít að svo sé — þá verðum við að hafa opin augun fyrir því að reyna að setja dýralæknana niður á þeim stöðum, þar sem bændur geta sem almennast til þeirra náð. Það hefir aldrei verið meiri þörf fyrir þessa stétt en einmitt nú, þar sem loðdýrarækt og mjólkurframleiðsla hafa færzt svo mjög í aukana. Og það er vitað, að loðdýrin eru ákaflega kvillasæl dýr, en jafnframt verðmikil, og þess vegna er mjög nauðsynlegt fyrir þá, sem stunda þennan atvinnurekstur, að geta náð til dýralæknis, ef með þarf. Við verðum því að játa, að þessar krónur, sem það mundi kosta að fjölga dýralæknum um einn, gætu fljótlega unnizt upp.