21.12.1939
Efri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

126. mál, friðun hreindýra

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! N. hefir, eins og frv. ber með sér, orðið sammála um að mæla með því, að það verði samþ. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er ekki nema tiltölulega lítill hreindýrastofn eftir hér á landi, og eru þau aðallega á Brúaröræfum. Þó að menn viti ekki vel, hve mörg þessi hreindýr eru, má samt fullyrða, að þeim hefir mjög fækkað. Allir eru sammála um það, að nauðsynlegt sé að stuðla að því, að þessar skepnur deyi ekki út með öllu, og er l. þessum ætlað að stuðla að þessu meira en áður hefir verið. Reynslan mun svo skera úr um það, hvernig þetta tekst. Menn greinir nokkuð á um það, hverjar ástæður liggi til þess, að stofninn minnkar. Fyrir sumar af þessum ástæðum á nú að girða, þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir það, sem að líkindum er aðalástæðan, sem sé það, hversu fáir kálfar komast upp, þegar vor eru köld. Sumir telja aftur drápið vera aðalástæðuna, og fyrir það er ætlunin að girða. Frv. felur í sér lítil útgjöld, í hæsta lagi nokkur hundruð kr., svo að það þurfa menn ekki að óttast. Vera má, að þessi l. geti nokkuð stuðlað að því að viðhalda hreindýrastofninum.