20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

153. mál, sala á spildu úr landi Saurbæjar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Nefndin hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ., en þó með tveim smáefnisbreytingum. Í frv. er farið fram á það, eins og hv. þd. er kunnugt, að heimila ríkisstj. að selja bóndanum á Þórisstöðum, sem flutt hefir bæ sinn að landamerkjum Saurbæjar, allt að 30 ha. spildu úr Saurbæjarlandi. Ábúandi Saurbæjar getur tiltölulega lítil not haft af því landi vegna fjarlægðar, og hefir núv. prestur í Saurbæ gefið leyfi sitt til sölunnar, þó með því skilyrði, að andvirðinu sé varið til túnbóta heima á staðnum, og ætlar hann að vinna þannig upp, eða vel það, þær nytjar, sem staðurinn missir við söluna.

Fyrri efnisbreytingin er á þá leið, að spildan, sem seld er, megi ekki ná inn fyrir Vatnaskógargirðinguna. Skógræktarstjóri vill ekki færa hana, sem vonlegt er. En sanngjarnt er að selja bóndanum allt annað, sem þarna er um að ræða af góðu ræktunarlandi. — Þegar túnbætur þær, sem gerðar verða í Saurbæ, eru kostaðar að öllu leyti af ríkinu með andvirði hins selda lands, virðist ekki rétt, að ábúandi Saurbæjar fái ræktunarstyrk út á þær. Seinni breytingin, sem n. leggur til, er því sú, að jarðabætur þær, sem gerðar eru fyrir andvirði hins selda lands, njóti ekki styrks samkv. jarðræktarlögunum. Ég vænti þess, að hv. þdm. geti samþ. þessa brtt. og frv. í heild sinni.