25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

130. mál, lögreglumenn

Brynjólfur Bjarnason:

Ég held, að hæstv. forsrh. hafi byrjað á að segja, að þær breyt., sem hér á að gera, væru bæði fáar og smáar. Ójá, hann hefir auðvitað sína skoðun á því, hvað eru smáar breyt. á þessum l., en svo mikið er vist, að fyrir fáum árum hefðu þessar breyt. ekki verið taldar smáar, heldur mjög stórvægilegar.

Hvað er það, sem felst í þessu frv.? Í fyrsta lagi, að það er hægt að auka varalögreglu ótakmarkað. Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði ótakmarkað. Áður var þetta takmarkað þannig, að ríkissjóður greiddi ekki nema nokkurn hluta af kostnaði við varalögregluna. Í öðru lagi er hægt að gera allt liðið að ríkisher, sem má svo nota til hvers sem er. Í þriðja lagi, ráðherrann hefir ótakmarkaðan rétt til að vígbúa lögregluna með hvaða tækjum sem er og leggja á ríkissjóð ótakmarkaðan kostnað vegna vigbúnaðarins. Í fjórða lagi hefir ráðh. ótakmarkað vald yfir þessum her. Og svo kemur annað frv., sem er í sambandi við þetta frv., sem skiptir lögreglustjóraembættinu í Reykjavík í tvennt, og hefir það ærinn kostnað í för með sér. Þetta finnst hæstv. forsrh. vera smávægileg breyt.

Ég vil nú með nokkrum tilvitnunum í ummæli hans flokksmanna og annara sýna fram á, að fyrir fáum árum hefði þetta ekki verið kallað smábreyting.

Á Alþingi 1925 flutti Jón Magnússon frv. um varalögreglu, sem var þó smáræði á móti þessu frv., því að samkv. því átti aðeins að launa foringjana fyrir varalögreglunni, en ekki að koma upp ríkisher eins og hér er verið að skapa. Árið 1925 tókst að kveða niður þennan draug. Ég ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að tilfæra hér nokkur orð úr þessum umræðum. Ég tek þá fyrst kafla úr ræðu eftir Tryggva Þórhallsson. Hann segir svo:

„Málið er þegar orðið mikið æsingamál, og þó er aðeins um byrjun að ræða. Af henni verður þegar ráðið, að úr getur orðið eitthvert mesta æsingamál, sem hafizt hefir á landi hér. Það getur orðið upphaf nýrrar Sturlungaaldar á Íslandi. Og það er sjálf landsstjórnin, sem viðinn ber á bálið.

Æsingaeldurinn logar þegar dátt í kaupstöðunum. Fundasamþykktir um málið drífur að úr öllum áttum. Fyrir eru í kaupstöðunum harðandstæðir pólitískir flokkar. Er sízt bætandi á þann eld, sem er í milli.“

„Þeir telja (þ. e. sjómenn og verkamenn), að þetta lið eigi að verða einskonar pólitískur lífvörður íhaldsins. Þykir mér ekki ólíklegt, að þeir geti hengt batt sinn á einhver ógætileg ummæli af íhaldsmanna hálfu í þá átt, því að slík ummæli hefi ég einnig heyrt úr þeirri átt. Er ekki að undra, þótt blóðið hitni, er menn gera sér slíkar hugmyndir.

Á þessum grundvelli er málið rætt og verður. Áfram mun stefna eins og nú horfir. Getur engum dulizt, hvað er fram undan. Og það er landsstjórnin, sem viðinn ber á bálköstinn“.

„Hér er pólitískri stjórn gefið alveg ótakmarkað vald til að velja svo háa eða lága tölu manna, sem henni gott þykir í þetta lið og vopna það með þeim tækjum, sem henni gott þykir. Það liggur í augum uppi, að ekkert er því til fyrirstöðu, að slíku pólitísku, vopnuðu úrvalsliði getur hin pólitíska stjórn beitt, eftir því sem henni gott þykir og öldungis eins og henni býður við að horfa. Allar dyr eru opnar fyrir landsstjórnina að misbeita þessu liði gegn borgurum og stjórnarskipun landsins.“

„Hér er ekkert því til fyrirstöðu, að í liðið verði valdir atvinnulausir eða litlir íhaldsmenn, — því að nóg er af þeim — og að pólitískir kosningasmalar verði gerðir að launuðum yfirmönnum.

Þetta eru ummæli Tryggva Þórhallssonar. Má tilfæra mörg fleiri ummæli, t. d. Jóns Baldvinssonar. Hann segir svo:

„Ekki eru liðin sex fullveldisárin, þegar íslenzki „milítarisminn“ skýtur fyrst upp kollinum á Alþingi Íslendinga.“

„Frv. sjálft er takmarkalaust fyrir utan það, sem það er takmarkalaust vitlaust. Orðalag þess opnar upp á gátt víðara valdsvið fyrir ríkisstjórnina yfir lífi og limum landsmanna en þekkist í nokkrum öðrum lögum.“

„Hún getur ráðið eftir vild, hvaða „tæki“ eða hergögn eru notuð. Hún ræður því, hvort það er hríðskotabyssur, sem nota á, handsprengjur, byssustingir, skammbyssur, fallbyssur, kylfur, rýtingar, sverð, korðar, axir eða blátt áfram axarsköft; með öðrum orðum: allt, sem nota þarf í bardaganum, og kostnaðurinn er líka ótakmarkaður og á vitanlega að greiðast úr ríkissjóði.“

Þetta eru ummæli Jóns Baldvinssonar, og ennfremur segir hann svo:

„Manni verður næst að spyrja: Til hvers á að stofna her þennan? Fyrir því hefir hæstv. forsrh. (JM) enga grein gert. Það eitt er vitanlegt, að fyrst stofna á her, þá á að fara í stríð. Það eru einu afleiðingar frv., sem menn vita nokkurn veginn fyrirfram. Það var yfirleitt lítið á upplýsingum hæstv. forsrh. að græða, en hvar sem frv. er rætt manna á milli, og þeir fáu menn, sem hafa getað fengið sig til að bera í bætifláka fyrir það, eða a. m. k. talið sig fylgjandi því að lögleiða slíka herskyldu í einhverri mynd, hafa verið spurðir í þaula um, til hvers nota ætti herinn, þá hefir síðasta vígi þeirra verið að vitna í kaupgjaldsdeilur, sem orðið hafa hér í Reykjavík á síðustu árum. Við slík tækifæri á að nota her þennan. Annað verkefni hafa formælendur málsins ekki fundið handa honum. Það er því sennilega rétt tilgáta hv. þm. Str. (TrÞ), að til þessa máls sé stofnað í þessu skyni.“

Það er í rauninni ekki annað en „fascismi“ eftir ítalskri fyrirmynd, sem stjórnin vill koma hér á. Svona gæti ég lengi haldið áfram. Það væri t. d. ekki úr vegi að tilfæra nokkur ummæli eftir Ásgeir Ásgeirsson. Hann segir svo:

„Þó að ekkert væri annað en það, að þetta ríkislögreglumál hefir ekki verið lagt fyrir þjóðina, áður en það var borið fram hér á þingi, þá bæri af þeirri ástæðu einni saman að visa því frá að þessu sinni.“

„Það er illt verk og óþarft að espa sjálfan sig og aðra upp í byltingarótta, þegar ekki einu sinni þeir, sem mesta samúð hafa með þjóðfélagsbyltingum í öðrum löndum, telja neinar líkur til, að hér geti orðið bylting, nema hún sé undan gengin í Englandi og á Norðurlöndum. Enþess verður langt að bíða, að þar sporðreisist þjóðfélögin.“

„En hér í þingdeildinni er svona frv. flutt undir yfirskini friðarins, þó að vitanlegt sé, að allur liðssamdráttur miðar til ófriðar. Það hefir verið sagt, að þetta sé að byrgja brunninn, áður en barnið detti ofan í, — þó það sé miklu líkara hinu, að hér sé grafinn brunnur, sem betur færi, að ekki aðrir en stjórnin detti ofan í.“

Þannig hljóða þá nokkur ummæli þessara hv. þm. um varalögregluna árið 1925. En það þarf ekki að fara svo langt aftur í tímann til að finna svipuð ummæli. Árið 1933 fóru fram umr. um frv. um lögreglumenn, og þá var enn haldið fram þessari skoðun, svo sem af þeim hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Seyðf. Það er því ekki lengra en frá 1933, sem var barizt ákveðið á móti að mega leggja í ótakmarkaðan kostnað við varalögreglu. Og þá var það, að þetta ákvæði var sett eins og smyrsli í l. um lögreglumenn, að ekki mætti beita lögreglunni nema til að halda uppi friði og reglu og til að afstýra vandræðum. En þetta er svo teygjanlegt sem hrátt skinn, því að hver á að ákveða, hvenær þarf á lögreglu að halda til að halda uppi friði og reglu og til að afstýra vandræðum? Það gerir dómsmrh., og þessi orð getur hann teygt eins og hann vill og notað lögregluna hvenær sem honum líkar, í hvaða kaupdeilu sem er. Það er gersamlega tilgangslaust að ætla sér að skjóta sér undir svona loðið ákvæði. Það er aðeins til þess að gera sjálfan sig broslegan.

Það er kunnugt, að í þeim kosningum, sem hafa farið fram síðan 1933, er þessi l. voru sett, hefir það verið eitt aðalmál Alþfl. að kveða niður þennan ríkislögregludraug. Eitt af því, sem þeir töldu stjórnarsamvinnu sinni og aðallega til gildis, var að afnema ríkislögregluna. Þeir töldu það svo mikils virði, að það út af fyrir sig hefði réttlætt samvinnu þeirra við Framsfl. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur í þessari afstöðu, hefði því Alþfl., þegar frv. slíkt sem þetta kom fram, ekki aðeins átt að mótmæla því kröftuglega, heldur hefðu þeir átt að slíta stjórnarsamvinnunni. Það má að vissu leyti segja alveg það sama um afstöðu Framsfl. og Alþfl. í þessu máli. Framsfl. hefir talið sér sérstaklega til gildis að hafa afnumið ríkislögregluna, eftir að hann myndaði samsteypustj. við Alþfl. 1934. Þá er spurningin sú, þegar slík kúvending hefir verið tekin: Hvað er það, sem hefir breytzt? Ég veit ekki um afstöðu Alþfl., en það er ekki lítil breyt. á afstöðu hans, að ekkert skuli hafa heyrzt frá honum um svona mál, sem var mál málanna fyrir þennan flokk fyrir ekki lengri tíma en liðinn er frá síðustu kosningum. Hvað er það, sem hefir breytzt svo mjög, að Framsókn hefir tekið upp stefnu íhaldsflokksins frá 1925 og 1933, sem þeir stimpluðu þá sem stefnu blóðsúthellinga, sem miðaði að því, að ný Sturlungaöld risi upp á Íslandi? Hvað er það, sem hefir breytzt? Ef við athugum málið sjálft, þá er eitt víst, og það er það, að allt, sem sagt var' um ríkislögregluna árið 1925, gildir um þetta frv. í ennþá ríkara mæli. Hér á að veita heimild til að stofna her, sem getur búið sig öllum þeim morðvopnum, sem upp voru talin árið 1925 og leggja í milljónakostnað eins og þá, nema í enn ríkara mæli, Tryggvi Þórhallsson gerði ráð fyrir, að kostnaðurinn mundi ekki verða minni en ein millj. kr. Jón Baldvinsson var enn stórtækari og gerði ráð fyrir, að hann mundi verða ekki minni en 1700 þús. Hér getur maður gert ráð fyrir miklu meiri kostnaði, því að þá var ekki gert ráð fyrir, að aðrir en sveitarforingjarnir væru launaðir. Allt þetta er ágætt nú, allur þessi kostnaður, allt þetta takmarkalausa vald til að vígbúa svona her með hvaða vopnum sem er, allt er þetta sjálfsagt og ágætt nú. Hvað er það þá, sem hefir breytzt? Hæstv. forsrh. margtuggði það upp í ræðu sinni, að viðhorfið hefði gífurlega breytzt á nokkrum árum. Hann vissi upp á sig og flokksmenn sína skömmina, en nefndi alls ekki þessar breyt. Hann vitnaði í Norðurlönd og þær breyt., sem hefðu orðið þar. Það er náttúrlega billegt að flýja til Norðurlanda, en við erum nú að semja l. fyrir Ísland. Ef hann vill ræða þær breyt., sem orðið hafa á Norðurlöndum, þá er honum það velkomið, en honum er nær að halda sér við okkar þjóðfélag og skýra frá, hvað það er, sem gerir nauðsynlegt að taka slíka vendingu.

Frv. þetta bendir til þess, að stjórnin hafi vonda samvizku, og það er vel skiljanlegt, þegar athugað er ástandið í landinu og aðgerðir stjórnarinnar í því efni. Dýrtíðin er óbærileg og þúsundir manna ganga atvinnulausir og hafa ekkert til þess að lifa af. — Til þess að bæta úr þessu sér ríkisstj. það ráð, að banna að hækka kaup manna, skerðir samtakafrelsið og margbrýtur þannig stjórnarskrána, eins og gert hefir verið með gengislögunum. Svo langt er gengið, að í Nd. Alþ. er nú flutt frv., sem bannar iðnnemum að vera í verkalýðsfélögum. Þá kemur annað ráðið: hinn svokallaði flutningur á vinnuafli, eins og hæstv. forsrh. orðaði það svo fagurlega, þessi þvingunarflutningur, sem ætlaður er í þeim tilgangi, að unnt sé að fara með styrkþega sem ófrjálsa menn, svo að hægt sé að nota vinnuafl þeirra fyrir sama sem ekki neitt.

Að lokum kemur svo allsherjarráð ríkisstj., sem á að tryggja henni það, að unnt sé að stjórna landinu með því ástandi, sem nú ríkir, þetta frv. um heimild henni til handa til þess að koma upp ótakmörkuðum her með ótakmörkuðum vígbúnaði. Það er svo sem ekkert óeðlilegt, þótt þetta frv. sé borið fram, því að það er sýnilegt eins og ástandið er í landinu og eftir pólitík stjórnarinnar, að hún getur ekki treyst sér til þess að stjórna nema með ofbeldi. — Hér er skýringin á framkomu frv., og nú hefi ég tekið ómakið af hæstv. forsrh. að skýra frá, hvers vegna frv. er svo nauðsynlegt sem hann telur.

Í stað þess að nota skatta landsmanna til þess að ráða bót á ástandinu á nú að verja stórfé — kannske hundruðum þúsunda, kannske milljónum, ef marka má fyrri útreikning þessara manna, — til þess að vígbúast gegn fólkinu, ef það kynni að mögla. Annars er tilgangslaust að gizka á það, hver kostnaður kann að verða af þessum vígbúnaði; frv. setur þar engin takmörk.

Það hefir verið boðað af ríkisstj. óbeinlínis, að til stæði að spara mikið fé. á þessum fjárl. með því að skera niður atvinnubótafé, framlög til vegamála, landhelgisgæzlu, vitamála og alþýðutrygginga. Með öðrum orðum: „fyrsta boðorð þegar þarf að spara, þá skal ráðast fyrst á öreigana“. Hér þarf hinsvegar ekki að spara, þegar um þennan vígbúnað gegn fólkinu er að ræða, þá er ekki horft í milljónirnar, þá á að bæta við stórútgjöldum. En þessi stórútgjöld þykja nauðsynleg vegna hins fyrra sparnaðar.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að halda því fram, að þessi aukning lögreglunnar eigi að vera til þess að halda óaldarmönnum í skefjum. Til þess nægir sú lögregla, sem nú er, meira en það, en samkv. gildandi lögum er auk þess hægt að kveðja nóga menn lögreglunni til aðstoðar undir slíkum kringumstæðum, og það myndu allir gera með ljúfu geði, ef á þyrfti að halda. En þegar á að berjast gegn fólkinu sjálfu, vill enginn gefa sig fram og þá þurfa valdsmennirnir á slíkum her að halda. Þannig var þetta í Hafnarfirði í fyrra; það var svo sem reynt eins og hægt var, en það vildi enginn gefa sig fram til aðstoðar lögreglunni, vegna þess að henni átti að beita gegn hagsmunum fólksins og vilja þess. Það er einungis í slíkum tilfellum, sem þörf er á æfðum her. Það gildir það sama í dag og 1925, að her er stofnaður í þeim tilgangi að heyja stríð, eins og Jón Baldvinsson orðaði það þá. — Engum dettur í hug, að þessi her eigi að vernda okkur gegn erlendri ásælni; honum á að beita gegn íslenzkri alþýðu, og öðrum ekki.