25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

130. mál, lögreglumenn

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þessi andmæli hv. 1. landsk. eru eins og ég gat búizt við. Þegar ræða hans er krufin til mergjar, — og það geta hv. þm. og áheyrendur gert fyrir sig —, sést, að ekki er mikið eftir af rökum.

Hv. þm. hélt því fram, að þessi breyt. á l. frá 1933, sem ég hafði skýrt með nokkrum orðum, væri til þess ætluð, að stjórnin gæti samkv. henni kvatt saman svo mikið lögreglulið sem henni þóknast.

Nú er svo fyrir mælt í l. nr. 92 frá 19. júní 1933, að kalla má saman varalögreglulið, ef dómsmrh. álítur þess þörf og meiri hluti bæjarstj. samþykkir, þ. e. a. s., að heimilt er að kalla saman alveg ótakmarkað lið. Það er þá ekki annað öryggið, sem hv. þm. ber fyrir sig, en að meiri hluti bæjarstjórnar Reykjavíkur, Sjálfstfl., sem alltaf hefir verið fylgjandi ríkislögreglu, setji skorður í veg fyrir það, að kveðja saman aukið lögreglulið.

Það verður því ekki sagt, að þessi breyting, sem frv. fer fram á, feli í sér rýmkun hvað þetta snertir frá því, sem er í núgildandi lögum, a. m. k. ekki að því er við kemur lögreglunni hér í bæ, því að í 6. gr. fyrrgreindra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar sérstaklega stendur á og ráðh. telur nauðsynlegt öryggi bæjar, að lögregluliðið sé aukið meir en segir í 1. gr., getur hann, að fengnum till. bæjarstjórnar, bætt við varalögreglumönnum, og greiðir þá ríkissjóður allt að helmingi þess kostnaðar, sem leiðir af aukningunni, en þó ekki hærri fjárhæð en nemur ¼ kostnaðar af hinu reglulega lögregluliði.“

Þess vegna eru þau rök, sem hv. þm. bar fyrir sig í ræðu sinni, að hér sé verið að skapa heimild fyrir ríkisstj. til þess að kalla saman ótakmarkað lögreglulið, ekkert annað en vindhögg út í loftið, nema því aðeins, að hann treysti því, að meiri hl. bæjarstj. hér setji skorður fyrir það, að aukningin verði látin fara fram.

Samskonar rök færði hv. 1. landsk. fyrir máli sínu, þegar hann kom að því, um hvað var deilt, þegar talað var um ríkislögreglu í gamla daga, hvort sem það var 1924 eða 1925. Hann sagði, að sem rök fyrir málinu hefði þáv. flm. vitnað í tíðar kaupdeilur.

Ég skal nú engan dóm á það leggja, hvort sá ótti þeirra manna, sem þá voru gegn frv., hafði við rök að styðjast, að nota ætti lögregluna á þennan hátt, en svo mikið er vist, að þá undanfarið höfðu verkföll verið mjög tíð og því viðkvæmir tímar að bera slíkt frv. fram. En þó að þetta hefði ef til vill mátt nota sem rök gegn frv., þá eru aðstæður breyttar nú.

Í 4. gr. laga nr. 92 frá 19. júní 1933 segir svo: „Lögregluna má ekki nota til þess að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar eins og annarstaðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.“ Nú mátti segja með nokkrum rökum, að þetta hugtak, hvað væri löglegar vinnudeilur og hvað ekki, mætti teygja og toga, en það er ekki á valdi dómsmrh. að skera úr um það, heldur. er svo fyrir mælt í lögum, að hann hafi ekki heimild til þess að kveða upp slíkan úrskurð. Í lögum nr. 80 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, er í 15. gr. tekið nákvæmlega fram í þrem stafliðum, hverjar séu forsendur fyrir því, að vinnudeila sé lögleg, en það er eins og menn muna, að ákvörðun um vinnustöðvun hafi verið tekin við almenna atkvgr. í félaginu, að samninganefnd hafi verið gefið umboð o. s. frv. Það er þannig skýrt tekið fram í lögunum, hvað er lögleg vinnudeila.

Við skulum nú gera ráð fyrir því, að óhlutvandur dómsmrh. vildi samt sem áður teygja þessi ákvæði og toga, en það er heldur ekki hægt, því að í sömu lögum er ákvæði um félagsdóm og samkv. IV. kafla, 44. gr. laganna er það hann, sem á að ákveða með dómi, ef um er deilt, hvort vinnudeilur eru löglegar eða ekki. — Það er því mjög auðvelt fyrir verkamenn að gæta þess, að vinnudeilur séu löglegar, en þegar svo er, má lögreglan ekki koma nálægt slíkum deilum nema til þess eins að koma í veg fyrir meiðsl og slys.

Þetta er það, sem gerir muninn á frv., sem hér er flutt nú, með þeim ákvæðum, sem nú eru í lögum, og á frv. frá 1925; þær aðstæður, sem þá mátti telja sem nokkur rök gegn frv. eru ekki fyrir hendi nú. Um langt skeið hafa ekki heldur verið neinar alvarlegar vinnudeilur, og þeim fáu, sem verið hafa, hefir lyktað með friði.

Annars er það furðulegt, að þeir menn skuli vera til, sem halda því fram, að við megum ekki eins og aðrar síðaðar þjóðir hafa fullörugga lögreglu, til þess að halda uppi löggæzlu í landinu. og það er því undarlegra, að því skuli vera haldið fram, að nota eigi lögregluna gegn samtökum verkamanna, þegar þess er gætt, að við eigum mjög frjálslynda löggjöf í þessu efni, sem kveður skýrt á um það, hvað eru löglegar vinnudeilur, og tryggir þannig verkalýðnum, að auðvelt er að gæta þess, að þær séu jafnan löglegar, en eins og ég minntist á áðan, má lögreglan engin afskipti af þeim hafa.

Við lifum nú á tímum ófriðar — og meðal annars þær breyttu aðstæður gera það að verkum, að við þurfum örugga lögreglu —, þeim tímum þegar öfgaflokkar vaða uppi í þjóðfélögunum, ekki einn eins og áður var, heldur tveir. — Ég hefi annars margar broslegar endurminningar frá þeim tíma, er nazistaflokkurinn skaut hér upp höfðinu við hliðina á kommúnistunum. Enginn var þá eftirgangssamari og frekari um vernd lögreglunnar en einmitt kommúnistar á meðan nasistar voru þeim sterkari. Einu sinni t. d. voru kommúnistar á fundi í húsi því hér í bæ, sem nefnt er „Fjalakötturinn“ og höfðu nazistar neglt þá þar inni. Lögreglan varð að koma á vettvang, rífa fjalirnar frá dyrunum og fylgja kommúnistunum heim í fylkingu, svo að þeir kæmust óskemmdir leiðar sinnar. Öðru sinni varð að fylgja kommúnista heim af rakarastofu til þess að firra hann meiðslum af völdum nazista, og svona mætti lengi telja.

Hver segir nú, að svona öfgaflokkar geti ekki skotið upp höfðinu aftur og neglt kommúnistana inni á ný? En þessu verndarstarfi varð lögreglan að halda uppi vegna kommúnistanna á annað ár.

Það er oft um það rætt, hve Þjóðverjar hafi orðið hart úti við Versalasamningana. Það er satt, Versalasamningarnir voru harðir, en það datt engum í hug að neita hinni sigruðu þjóð um að hafa hundrað þúsunda lögreglulið til þess að halda uppi öryggi og reglu innanlands. Þetta var svo sjálfsagður réttur, að ekki var um deilt og það þjóðfélag er illa á vegi statt, sem ekki megnar að halda uppi sæmilegri reglu innanlands. Þegar verið er að tala um, að við megum ekki hafa sæmilega örugga lögreglu, er aldrei á það minnzt, að flest önnur lýðræðisríki hafa ekki aðeins mjög öfluga lögreglu, heldur einnig her manns, enda þótt það sé vitað, að honum muni aldrei beitt gegn öðrum þjóðum. lægir í því sambandi að minnast á Norðurlönd, sem engum kemur til hugar, að ætli sér að ráðast á aðrar þjóðir. Þau hafa auk þess miklu sterkari lögreglu en við, — og hverjum dettur þar í hug, að eigi að beita henni gegn verkalýðnum? Annars er sama, hver ræður í hverju þjóðfélagi, það er alltaf jafnnauðsynlegt, að sá, sem með völdin fer, geti haldið uppi lögum og reglu innanlands. Jafnvel þótt það ætti fyrir okkur að liggja, sem vonandi verður þó aldrei, að kommúnistar færu hér með stjórn, þá væri það versta, sem fyrir gæti komið, það, að þeir gætu ekki haldið uppi reglu á meðan þeir stjórnuðu.

Það er því undarlegt, að sá flokkur skuli vera til, sem gerir það að árásarefni á stjórnina, að hún skuli vilja gera þær ráðstafanir, sem hvarvetna þykja nauðsynlegar, að koma upp hæfri lögreglu, og það því fremur, þegar þess er gætt, hve íslenzka ríkið hefir sett frjálslynda vinnulöggjöf og þar með veitt verkalýðnum fullkomið öryggi í vinnudeilum. Aðalrök þeirra gegn frv. eru þannig að engu orðin.

Með rökum þeim, sem ég hefi áður fært fram, vil ég leggja áherzlu á, að afgreiðslu frv. verði sem mest hraðað, og vil beina þeim tilmælum til hv. deildar, að svo verði gert.

Það má ekki minna vera á þeim tímum, sem nú eru, en að við höfum sæmilega lögreglu, þótt hún verði aldrei hlutfallslega jafnsterk og lögregla nærliggjandi landa, og þó að þess sé ekki að vænta, að hún geti verndað okkur gegn erlendri ágengni. Við höfum ekki efni á því að hafa her, þótt það væri æskilegt, vegna þess að samkv. alþjóðalögum er talið nauðsynlegt, að hvert það ríki, er lýsa vill yfir hlutleysi sínu, hafi her til þess að vernda það hlutleysi.

Nýlega skeði sá atburður, sem mönnum er í fersku minni, að hingað kom hernaðarflugvél, sem raskaði okkar hlutleysi, því að hún flaug burtu, svo sem kunnugt er. Þá kom sú fregn í útvarpinu frá Moskva — ég veit ekki, hvaðan heimildir hafa komið fyrir henni; kannske frá þeim, sem eru á móti aukningu lögreglunnar — að það væri undarlegt, að þetta kotríki, sem hefði engan her og ekki hefði einu sinni lögreglu til þess að afvopna eina flugvél, þættist vera sjálfstætt ríki.

Þótt þess sé ekki að vænta, að við verðum nokkru sinni megnugir þess að verja okkur gegn erlendri ásælni, verðum við að tryggja öryggið innanlands með sæmilegri lögreglu, því að fyrsta skilyrðið til þess að geta talizt sjálfstæð menningarþjóð, er að geta haldið uppi löggæzlu innanlands. Það er því harla undarlegt, að sá flokkur skuli vera til, sem berst gegn aukinni lögreglu, og það þeir sömu menn, sem hafa hvað eftir annað orðið að leita á náðir lögreglunnar.