25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

130. mál, lögreglumenn

Brynjólfur Bjarnason:

Í fyrsta lagi vil ég inna hæstv. forsrh. eftir því, hvort það sé rétt, að hann hafi hlustað á þetta fréttaskeyti, sem hann las upp, og vilji standa við þau orð sín. En þessu hefir hann ekki ennþá svarað. Hæstv. forsrh. var að tala um það, að það væri ekkert undarlegt, þó að flokkur sá, sem ég væri í, væri á móti frv., og lýsti því jafnframt yfir, að við vildum berjast utan við l. og rétt þjóðfélagsins. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh.: Hvar hafa þessar yfirlýsingar komið fram? Og hann bætti við orðum, sem fólu í sér hótun um bann á flokknum. Á þessu er hægt að sjá, hvað freklega er hægt að ganga fram í ósvífninni, — fyrst eru búnar til ósannar yfirlýsingar, svo vill hæstv. forsrh. helzt láta banna flokkinn á grundvelli þessa uppspuna. Þeim mönnum, sem eru eins óhlutvandir eins og hæstv. forsrh., er bezt trúandi til að misbeita lögum.