12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

130. mál, lögreglumenn

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég greiði atkv. með frv. eins og ég flutti það. Annars geri ég engan mun á því eins og n. vill hafa það og á því eins og það er. Auðvitað verður að halda námskeið fyrir lögregluna í Reykjavík og ráðh. að ákveða það á hverjum tíma, hvaða útbúnað lögreglan eigi að hafa, — hvort sem það stendur beinum orðum í l. eða ekki. Slík atriði leiðir af sjálfu sér. En af því að ég kann betur við að hafa þetta í l., sem um þetta verða samþ., kýs ég frv. fremur óbreytt og greiði atkv. móti brtt., en læt að öðru leyti ráðast, hvort þær ná fram. Það er líka sjálfsagt mál, að ráðh. skuli setja reglugerð um þau framkvæmdaratriði, sem ekki er nánar gengið frá í frv.

Um það, að aukningin skuli takmörkuð við ¼ kostnaðar af reglulegu lögregluliði, má segja, að það sé alveg meinlaust. Það er a. m. k. alveg óvanalegt, að það komi fyrir, að kostnaðurinn þurfi að fara fram úr þessu. Þegar ég fór að athuga nánar þetta atriði í l. frá 1933, sá ég, að dómsmrh. getur, að fengnum tillögum bæjarstjórna, fjölgað lögreglumönnum eins og hann telur þörf á. Í því efni hefir dómsmrh. alveg frjálsar hendur, og er ekki farið hér fram á neina breytingu, hversu miklu moldviðri sem þyrlað er upp út af því atriði málsins. Það verður eins, ef sett er þarna, að það megi ekki borga meira en ¼ af kostnaðinum við hið fasta lögreglulið, að hann álítur sig ekki bundinn við það. Dómsmrh. þarf að fá till. bæjarstjórna, en í tveimur tilfellum eða viðvíkjandi tveimur bæjum hefir hann ekki séð sér fært að fara eftir till. bæjarstjórna. Ég álít, að það sé auðsætt mál, ef þarf á lögreglu að halda og öryggi bæjar krefst þess, að haft sé lögreglulið, þó að kostnaður við varalögregluliðið sé orðinn 50 þús. kr., sem mun vera ¼ kostnaðar við hið fasta lögreglulið. Ég býst varla við, að ég sem dómsmrh. eða einhver annar myndi afskrá liðið og segja því að fara heim, þar sem kostnaðurinn væri orðinn ¼ af kostnaðinum við hið fasta lögreglulið, og því yrði öryggi bæjarins að eiga sig.

Vitanlega er þetta ákvæði gagnslaust, því það verður ekki farið eftir því, ef öryggi þjóðfélagsins er í hættu. Það er að því leyti rétt, sem tekið hefir verið fram, að þessa takmörkun, sem verið er að reyna að fara eftir, er ekki hægt að binda sig við, ef öryggi þjóðfélagsins er í hættu.

Það er satt að segja ekki aðeins hlægilegt, heldur er það líka sorglegt, að til skuli vera í okkar þjóðfélagi menn, sem dirfast að halda því fram — enda mun þetta vera eina menningarþjóðfélag nútímans, þar sem slíkt á sér stað –að hér eigi ekki að vera lögreglulið, sem geti haldið uppi reglu.

Það hafa borizt hingað fundarsamþykktir, sem eru blátt áfram ægilegt sýnishorn af því, hvernig hægt er að blekkja fólk. Það er sjálfsagt einhver ávæningur af því, að miðað er þarna við ¼, til þess að hafa það eins og var. Ég álít, að það ákvæði sé meinlaust, því vitanlega myndi enginn dómsmrh. taka á sig þá ábyrgð að fara eftir því, ef öryggi þjóðfélagsins heimtaði annað.

Til þess að sýna, hvað það er talið lífsnauðsynlegt fyrir þjóð að geta haldið uppi lögum og reglu, þá tók ég við 1. umr. dæmi af einni þjóð í Mið-Evrópu, sem var gersigruð og allt var tekið af, en þó var það eitt, sem allir voru sammála um, að þessi þjóð fengi að hafa herlið, 100 þús. manns, til þess að halda uppi reglu í landinu. Sú mesta ógæfa, sem hægt er að leiða yfir eina þjóð, er einmitt stjórnleysi. Það eru þess vegna engin undur, að maður lætur í ljós hryggð sína yfir því, að til skuli vera nokkur maður, sem vill neita íslenzku þjóðinni um það, að geta haldið uppi lögum og reglu, og það skuli vera hægt að telja einhverju fólki trú um, að það sé gæfuvegur fyrir þjóð, að geta ekki haldið uppi lögum og reglu.

Ég mun þess vegna ekki gera það að verulegu ágreiningsatriði, hvort brtt. verða samþ. eða ekki, þar sem 2 brtt. eru þannig, að þau atriði, sem þær vilja fella niður, hljóta að verða tekin upp í reglugerð, því ráðh. verður að ákveða, hvaða útbúnað lögreglan á að hafa. í m 3. atriðið er það að segja, að enginn ráðh. myndi leyfa sér að fara eftir því, ef þjóðfélagið skyldi þurfa á lögregluvernd að halda.

Ég þakka svo n. fyrir, að þetta mál hefir getað fengið afgreiðslu, og ég vonast til, að því verði hraðað gegnum þingið.