21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

130. mál, lögreglumenn

*Ísleifur Högnason:

Ég vil lýsa afstöðu minni til þessa máls. Ég er algerlega á móti frv., ekki eingöngu vegna þess, að ég álít, að þessi l. séu hættuleg fyrir verkalýðinn í landinu, því ef að

l. er farið, má ekki nota þetta lögreglulið gagnvart verkalýðnum, enda er aukningin ekki svo mikil; t. d. í Vestmannaeyjum yrði það einn maður, og það gerir hvorki til né frá. En það er ákaflega hætt við, ef þeim ákvæðum frv. væri beitt, að flytja lögreglulið milli staða, að það yrði til þess að egna til óeirða og slagsmála úti um land. Hér í Reykjavík er 60–70 manna lögreglulið, og það ætti að mega senda til annara landshluta, þar sem óánægja væri með stjórn valdhafanna, og þá er ekki ólíklegt, að gerðust alvarlegir hlutir.

Fyrir skömmu fjölgaði þingið ráðherrunum úr 3 og upp í 5. Ég geri ráð fyrir, að ef þetta samstarf á að haldast, þá hafi þeir tilhneigingu til að koma fleiri bitlingadýrum á spenann, og þá gæti það verið sú ástæðan að koma þessu frv. í framkvæmd, um aukningu 1/3 til þess að vernda borgarana, og lögregluliðið sé í réttu hlutfalli við aukningu bitlinganna.

Það eru nú 14 ár síðan frv. um ríkislögreglu var borið hér fram á þingi. Þá voru framsóknarmenn undantekningarlaust, að ég held, og alþýðuflokksmenn líka á móti því frv. Á þessum árum hafa orðið miklar breytingar á hugsunarhætti þeirra, sem eiga að hafa forustu um hagsmunamál flokkanna, og því ekki annars að vænta en að þessir menn snúi sér eins og þeir hafa gert síðan síðustu kosningar gegn hagsmunamálum fólksins og með hagsmunamálum yfirstéttanna.

Ég mun verða á móti þessu frv. til 3. umr. Og þó að ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi áhrif á úrslit málsins innan þessara sala, þá mun þjóðin ekki gera sér það að góðu, að þessi og þvílík l. standi, heldur afnema þau, og framkvæmd þeirra mun ekki standa lengur en til næstu kosninga.