21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

130. mál, lögreglumenn

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Í sambandi við það, sem hv. 5. landsk. minntist á, að ekki mætti beita lögreglunni í sambandi við kaupdeilur, þá vil ég vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. sagði, að ekki mætti nota lögregluna í sambandi við kaupdeilur, sem er samkv. 4. gr. l. nr. 92, um lögreglumenn. En sú gr. er afskaplega teygjanleg, því að þar stendur: „Lögregluna má ekki nota til þess að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar eins og annarstaðar friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.“

Í verkföllum er vanalega settur verkfallsvörður um vinnustaðinn. Atvinnurekendur reyna oft að beita verkfallsbrjótum, það er það venjulega, sem veldur óeirðum, að átök verði milli verkfallsvarða og verkfallsbrjóta. Nú á lögreglan, eftir þessum fyrirmælum, að halda uppi friði og afstýra skemmdum og vandræðum. Hvað þýðir svo það? Að lögreglan getur verndað verkfallsbrjóta í sínum störfum til þess að afstýra meiðslum, skemmdum og vandræðum. Á þennan hátt er hægt fyrir hverja stj. sem er að skipta sér af vinnudeilum eins og henni þóknast, — hún sendir bara lögregluna til þess að afstýra meiðslum og vandræðum, því að það má teygja þetta ákvæði ákaflega mikið; sérstaklega er þess að vænta í sambandi við ummæli dómsmrh., að hann hiki ekki við að brjóta l., ef þörf krefum að hans áliti. Nú er verkalýðnum bannað að knýja fram kauphækkun með verkföllum. Og meðan þetta þing hefir setið í nærri tvo mánuði, þá hefir engin till. fengizt afgr. um að verða við þeirri sjálfsögðu kröfu verkalýðsins að hækka hans kaup í hlutfalli við dýrtíðina í landinu. Alþingi hefir legið á bráðabl., sem gefin voru út um þetta, — þau eru ekki komin til 2. umr. í fyrri d. og breyt. við gengisl. er ekki farið að ræða enn. Og frv. um að tryggja verkalýðnum réttlæti á þessu sviði hefir ekki komið frá n.

Það kemur greinilega í ljós í helztu málgögnum stj., að það er meiningin að halda niðri kaupinu eins og framast er vogandi fyrir ríkisstj., og líka að reyna að banna, að hækkað verði kaup 1. apríl næsta ár. Það er því mjög líklegt, að ólögleg verkföll verði gerð á næsta ári. Þá eru það náttúrlega vinnudeilur, sem dómsmrh. myndi álíta, að hann yrði að skipta sér af. Það liggja fyrir miklar breyt. á vinnulöggjöfinni, enda hefir þá, sem settu hana, ekki órað fyrir því, hvað út úr henni gæti komið og hvaða skilning mætti leggja í hana, því þó að verkalýðurinn reyni að fara eftir henni, þá er hægt að finna marga agnúa á henni vegna þess, hve henni var hroðað af. Og þótt verkalýðurinn leggi sig í framkróka um að verkföllin séu lögleg, má eftir l. segja, að þau séu ólögleg, — sérstaklega er hætt við, að dómsmrh. telji þau ólögleg og sendi lögregluna á staðinn.

Þetta frv. og hvað því er hraðað gegnum þingið og hvað allir þm. eru handjárnaðir, svo að ekki einn einasti þm. innan stjfl. þorir að segja nokkurt orð um þetta; það bendir til þess, hve nauðsynlegt verkfæri þetta er fyrir valdaklíkuna í landinu og hve slæm samvizka stj. er út af því, sem hún hefir gert og hún ætlar að gera vegna sinnar slæmu samvizku, og þess vegna sé nauðsynlegt fyrir hana að skapa annað eins ofbeldistæki í landinu og þetta er. En það voru forsendurnar hjá Alþfl., að Framsfl. lýsti því yfir, að hann ætlaði að afnema ríkislögregluna 1934, og það ætti að vera hægt að stjórna okkar fámennu þjóð með þeirri mannúð og því réttlæti, að ekki þyrfti á her og ofbeldi að halda.

Þessir flokkar, sem nú hafa snúizt í hring í allri afstöðu sinni til þessa máls, hafa sjálfir ekki fært fram nein rök fyrir þessum hringsnúningi sinum. Þeir reyna ekki að koma fram fyrir þjóðina til að rökstyðja þetta. Ég skil það vel, að þeim finnst þögnin fara þeim bezt til þess að dylja, hvernig þeir hafa brugðizt því, sem þeir 1934 og 1937 stærðu sig mest af. Hv. þm. Seyðf. sagði um kosningarnar 1937, að eitt af því dýrmætasta, sem Alþfl. hefði fengið, væri það, að ríkislögreglan var afnumin, og það eitt út af fyrir sig hefði getað réttlætt stjórnarsamvinnuna 1934–1937. Nú ætlar Alþfl. auðsjáanlega að vera með að koma henni á aftur í enn verra formi en nokkru sinni áður, og hans þaulsætni ráðherra ætlar enn að vera kyrr í sæti sínu, hvernig sem óánægjan ólgar hjá flokksmönnum hans út af svikunum við stefnu flokksins og yfirlýsingar hans við síðustu kosningar.

Ég skal svo láta máli mínu lokið við þessa

umr. málsins.