22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

130. mál, lögreglumenn

*Forsrh. (Hermann Jónasson) ; Ég álít, að þetta frv. sé ekki svo stórvægilegt, að það þurfi skýringar við. Þó að hv. síðasti ræðumaður virtist vera búinn að gleyma afstöðu annara þm. til hans flokks, eru þó einstaka atriði í ræðu hans, sem mig langar til að leiðrétta, aðeins til að sýna hugsunargang þessara manna:

Breytingin á l. er sáralítil. Þegar l. frá 1933 voru samþ., lét þessi sami hv. þm. þau orð falla í þinginu, að þetta myndi leiða til þess, að lögreglan vísaði þm. burtu af Alþingi. Með þeim l. var sköpuð hér ríkislögregla og tekið það skref í málinu, sem þetta frv. er aðeins leiðrétting á. Í því frv. voru ákvæði, sem gáfu dómsmrh. alveg eins mikið vald og þetta frv. Samkv. þeim l. var þessum ógurlega dómsmrh. heimilt að nota varðskipin, þegar með þurfti. Í öðru lagi hefir ákvæðið um, að 2 lögreglumenn skuli koma á hverja þús. íbúa, aldrei verið notað að fullu. Í þriðja lagi myndi heimildin til að stofna varalögreglu aldrei hafa verið notuð, ef ekki hefði komið til óeirða. Það, sem farið er fram á í þessu frv., er ekki, að dómsmrh. fái meiri völd. Aukning lögreglunnar verður sú sama, aðeins ¼ áður, nú 1/3. Þetta eykur ekkert völd dómsmrh. Nú er búizt við, að varðskipin gangi ekki á næstunni, og þá minnkar frekar lögreglan í landinu heldur en hitt. Ef litið er yfir það 6 ára tímabil, frá því l. um lögreglu gengu í gildi, kemur í ljós, að lögreglan hefir aldrei blandað sér í vinnudeilur, nema árekstrar hafi neytt hana til þess. Þá er orðið lítið eftir af röksemdum þessi hv. þm. viðvíkjandi dómsmrh.

Ég ber þessa breyt. okkar hér fram, og hv. þm. mun sjá, að langmestur hluti þm. er henni fylgjandi; aðeins nokkrir óróaseggir eru andvígir henni. í frv. er dómsmrh. gefið vald til þess að afhenda lögreglunni vopn, — og hver annar en hann ætti að ráða, hvað hún hefir í höndum sér, og hafa yfirumsjón með henni? Ég þekki a. m. k. ekki það land, sem dómsmrh. hefir ekki leyfi til þess að fyrirskipa, hvaða tæki lögreglan hefir. Ég hefi ekki heldur í þessi 5½ ár, sem ég hefi verið dómsmrh., misnotað þetta vald mitt með útbúnað lögreglunnar.

Hv. þm. talaði um það, að óþarfi væri að hafa sterkt lögreglulið, og það hafi aldrei komið að sök, þó að lögreglunnar hefði ekki notið við. En það hefir komið að sök. Í það eina skipti, sem við misstum lýðsforræði okkar, var það af því, að við höfðum ekki nægilega sterkt vald í landinu.

Ég ætla ekki að fara hér út í deilu um 9. nóv., en ég vil nota þetta tækifæri til þess að mótmæla því í þessari hv. d., að ég hefði ætlað að beita lögregluvaldi í Hafnarfirði. Ég kannast við það, að hv. 3. þm. Reykv. hringdi til mín um morguninn, og við töluðum aftur og fram um þetta mál. En hitt vita allir, og ekki sízt hv. þm., hvernig ég tók á því máli. Ég lét menn fara suður til þess að rannsaka ástandið, og fylgdist með gangi málsins, en reyndi aldrei að safna saman varalögreglu til þess, að skipta sér af deilunni. Það vita líka allir, sem þekkja til, að ég stakk einmitt upp á því, að dæmt skyldi í þessu máli. Án þess að ég vilji fara frekar út í sögu þessa máls, vil ég geta þess, að það kom fram við þetta tækifæri, að þessi hv. þm. er ekki eins spar á að kalla saman lögreglu og ég hefi verið í þessum deilum. Ég er ekki mikið fyrir það að halda uppi illindum, og ég hugsa, að ég hafi fullan rétt til að segja, að í þessi 5½ ár hafi ég ekki misbrúkað mitt vald. Hv. þm. talaði um veilu í skaplyndi mínu í sambandi við embætti mitt sem dómsmrh. Ef slík yfirlýsing hefði komið frá öðrum þm., myndi ég hafa tekið það óstinnt upp, en ég læt hér nægja að segja, að ég er mér þess ekki meðvitandi að hafa misbeitt valdi mínu, enda voru rök þessa hv. þm. furðu léttvæg, til þess að slá slíku fram.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vil aðeins benda á það skýra ákvæði í l., að lögreglunni má ekki beita í vinnudeilum, og henni hefir ekki verið beitt í vinnudeilum, sem hægt hefir verið að kalla því hafni með réttu. Nú er til skýrt ákvæði um, hvað séu vinnudeilur, og sérstakur dómur úrskurðar, hvenær þær séu löglegar. Meðan ég hefi verið dómsmrh. hefir lögreglunni aldrei verið beitt í löglegum vinnudeilum. Svo ætla ég ekki að segja fleira viðvíkjandi þessu máli.