22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

130. mál, lögreglumenn

*Héðinn Valdimarsson:

Ég þarf ekki að svara hæstv. ráðh. með langri ræðu. Mest af því, sem hann sagði, voru blekkingar einar, eins og mörgum hv. þm. mun kunnugt. Sérstaklega voru blekkingarnar skýrar í því, sem hann sagði um Hafnarfjarðardeiluna. Ég geri ráð fyrir, að mönnum detti ekki í hug að trúa honum, en eins og þingið er nú samansett, virðist það hafa svo að segja ótakmarkað traust á þessum hv. dómsmrh.

Þar sem hann minnist á samtal okkar, vil ég gera grein fyrir hlutunum eins og þeir eru. Hann vildi strax láta senda 200–300 manns til Hafnarfjarðar, áður en málið yrði rannsakað. Hann vildi senda varðskipið þangað og vita, hvort ekki tækist að smala saman íbúum Hafnarfjaðar og undir forystu varðskipsins koma málinu undir félagsdóm, með því að beita valdi. Af þessu sést, hvílíkar blekkingar hæstv. ráðh. leyfði sér að koma með áðan. Eins og menn vita, er enginn annar tilgangur með þessu frv. en að ráðh. vildi útvega sér þau völd, sem hann gat ekki fengið í Hafnarfirði, til þess að skakka leikinn. Það eru ósannindi, að ég hafi verið á móti því að fjölga almennu lögreglunni í Reykjavík. Ég álít, að hér eigi að vera fyrir hendi nægilega fjölmenn lögregla til að inna af hendi venjuleg störf, en að hafa lið, sem enginn veit, hvað er fjölmennt eða hvernig skipað og einn maður hafi á valdi sínu að stjórna, ekki sízt þegar það er maður, sem almenningur hefir ekki meira en svo mikið traust á, það finnst mér vera brot á öllum lýðræðislegum reglum.

Ég skal svo ekki deila frekar við hæstv. ráðh. um þetta mál, að öðru leyti en því, að ég vil geta þess, sem hæstv. ráðh. sagði, að lögreglunni megi ekki beita í vinnudeilum. Það hefir áður verið tekið fram opinberlega, að lögin eru ekki þannig. Það má ekki beita lögreglunni til annars í vinnudeilum en til að afstýra vandræðum, en það er á valdi ráðh., hvenær þess telst þörf, en hann mun varla bíða eftir úrskurði félagsdóms um það, þegar hann er búinn að fá völdin í sínar hendur. Svo verð ég að segja, að ég hefi ekki sérlega mikla tiltrú til þess dóms, eftir því hvernig hann hefir dæmt undanfarið, því hann hefir ekki gert annað en að lögleiða klofning í öllum verklýðsfélagsskap í landinu og hafa þegar gert hin mestu vandræði, sem nokkru sinni hafa orðið innan verklýðshreyfingarinnar. Það er orðið svo, að ef dómararnir í félagsdómi dæma ekki eins og mikilsvarðandi mönnum innan stjórnarflokkanna þykir hlýða, þá leyfa þessir menn sér að skrifa annað eins í blöðin og það, að það eigi að setja þessa menn af, eins og hv. þm. S.-Þ. hefir gert, og hræða dómarana með því. Sama hafa menn úr Sjálfstfl. gert. Það má geta nærri, hve dómararnir verða sjálfstæðir með þannig aðbúnaði frá stjórnarflokkunum.

Ég er hæstv. ráðh. sammála í því, að lögreglulið verði ekki lengi sterkt, ef það er misnotað, en það getur samt komið mörgu illu til leiðar, ekki sízt ef þeir menn eða sá maður, sem stýrir því, er þannig skapi farinn, að hann beiti því í öllum mögulegum tilfellum.

Ég fæ ekki annað séð en að það sé markleysa hjá hæstv. ráðh., að hann fái ekki aukið vald yfir lögreglunni með þessu frv., — og til hvers mundi hann sækjast eftir því valdi, ef ekki til að beita því? Ég hefi ekki orðið var við, að einu sinni úr Strandasýslu hafi komið meðmæli með þessu frv., en alstaðar að hafa komið mótmæli gegn því frá samtökum og fjöldafundum um allt land, og það sýnir, hvað verkalýðurinn álítur, að sé markmiðið með því.