15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

149. mál, héraðsskólar

*Árni Jónsson:

Herra forseti! Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, en fyrirvari minn lýtur að brtt. þeirri, sem ég skal síður koma að.

Eins og menn sjá, er alllítill tími til stefnu með þetta frv., sérstaklega ef ætlunin er að ljúka þingi fyrir jól. Enda er það svo, að við höfum ekki rætt frv. sérlega mikið í n. við höfum þó farið yfir frv. og borið það saman við l. Eins og hv. frsm. tók fram vorum við allir á einu máli um það í n., að það væri ómaksins vert, að frv. gengi fram, af mínni hálfu að tilskyldri þeirri breyt., sem ég ber fram, og ef til vill fleirum.

Þetta frv. er borið fram af þeim manni, sem hefir barizt einna bezt í þessum héraðsskólamálum. Eins og við vitum, hefir viðleitni Alþ. gengið mjög í þá átt að sporna við því, að fólkið streymdi eins úr sveitunum og verið hefir, og ein merkasta ráðstöfunin, sem gerð hefir verið til að halda fólki í sveitunum, er stofnun héraðsskólanna. L. um héraðsskóla eru 10 ára gömul. Það er enginn vafi á því, að sveitamenn hafa haft og hafa enn mikinn áhuga fyrir starfsemi þessara skóla. Aðsóknin hefir verið mikil að þeim og framlög einstakra héraða mikil. Og um þessa viðleitni er ekkert nema gott eitt að segja. En reynslan hefir því miður sýnt, að þrátt fyrir dýrar og veglegar byggingar, og þrátt fyrir það, að þessir skólar hafa átt kost á og notið starfskrafta margra ágætra kennara, þá hafa þeir ekki svarað tilgangi sinum að því leyti, að fólkið hefir haldið áfram að streyma úr sveitinni, og það meira að segja svo, að nú eru uppi raddir um það, að gripa verði til sérstakra ráðstafana til að stemma stigu fyrir þeim straumi.

Ég er enginn skólamaður, en á fund okkar í menntmálan. kom fræðslumálastjórinn, Jakob Kristinsson, sem hefir verið kennari við alþýðuskóla. Ég er honum kunnugur og tel hann í hópi samvizkusömustu og gagnmenntuðustu kennara landsins. Eftir honum hefi ég það, að þessari breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, muni verða vel tekið í sveitunum, en vitanlega væri tilgangslaust að gera þessar breyt. á l., et þær yrðu til þess, að fólkið hætti að sækja skólana. En eftir því, sem fræðslumálastjóri sagði, er mikill áhugi í sveitunum fyrir því að fá þessar breyt. á.

Frv. þetta gerir einnig nokkra breyt. á kjörum kennara. Þeim er sem sagt lögð sú skylda á herðar að dvelja á skólasetrunum allt árið, mótsett því, sem nú er. Í fljótu bragði hefði mátt halda, að kennararnir væru ekki hrifnir af þessari breyt. Við spurðum fræðslumálastjóra um álit hans á þessu. Hann tjáði okkur, að engin hætta væri á slíku, því kennurunum myndi einmitt líka þetta betur. Ég tel þetta vel farið, því ef þessir skólar eiga að koma að fullum notum, þá er það mikilsvert, að kennararnir gangi þar á undan með góðu eftirdæmi, þeir ílengist þarna og taki sér þar bólfestu og verði sveitamenn af lífi og sál.

Sú breyt., sem hér er gerð á kennslunni, er aðallega í því fólgin, að verkleg kennsla er stórum aukin. Ég held ég fari rétt með það, að núna séu 2 tímar ætlaðir til verklegrar kennslu, en í frv. er þeim fjölgað upp í 12 tíma á viku. Með þessu er ætlazt til, eins og skemmtilega er komizt að orði í frv., að þeir piltar, sem útskrifast frá þessum skólum, verði búhagir. Ég tel þetta mjög vel til fallið, og það er einmitt þetta, sem getur valdið miklu um það, að fólkið kunni við sig í sveitunum, að heimilin geti orðið vistlegri en þau nú eru, og það er ekki hægt að gera með hægu móti nema með því að menn læri að vinna að því sjálfir.

Ég ætla ekki að fara mikið inn á að ræða einstakar gr. þessa frv., en ég er flm. sammála um það, hvað íþróttir snertir, að ég álít, að kapp ætti að leggja á það að viðhalda hinni gömlu og fögru íþrótt, íslenzku glímunni, í héraðsskólunum. Þetta er vafalaust mikil nauðsyn, því sú hætta virðist beinlínis vofa yfir, að þessi gamla þjóðaríþrótt sé algerlega að falla úr sögunni.

Ég skal svo snúa mér að þessari brtt., sem ég hefi gert við frv. Hún er á þá leið, að óbreytt verði það ákvæði, sem er í núgildandi l. um héraðsskóla, að framlag af hálfu ríkisins sé helmingur á móti framlagi frá héraði. Í frv. er ætlazt til, að héruðin leggi ekki fram nema ¼. Ég skal nú fara nokkrum orðum um þetta.

Um þessar mundir eru gerðar miklar og margvíslegar till. um að draga úr opinberum kostnaði og reyna að lækka útgjöld ríkisins eins og verða má. Og mér hefir skilizt, að flm. frv. sé einn af þeim, sem virðist hafa mjög opin augun fyrir því, að ekki megi svo til ganga framvegis, að menn geri sífellt kröfur á hendur ríkinu, en hætti að gera kröfur til sín sjálfs. Hér er þó verið á þessari braut. Skólarnir hafa hingað til getað komizt af án þess að ríkið legði fram meira en helming stofnkostnaðar þeirra. Nú er með þessu frv. ætlazt til, að skólunum verði komið í það horf, með eigin vinnu, að þeir geti verið gistihús á sumrin, og vitanlega er þá tilætlunin, að þeir hafi einhverjar tekjur af þessu. Ég held þess vegna, að skólarnir ættu að vera betur staddir eftir að þetta frv. er gengið í gegn, án þessa ákvæðis, sem ég vil breyta, heldur en þeir nú eru, svoleiðis að þess vegna sé ekki ástæða til að auka þetta framlag til þeirra. Og ef það er svo, sem mér hefir heyrzt á flm., að mikill áhugi væri í sveitunum fyrir því, að sú breyt. verði gerð á fyrirkomulagi kennslunnar, sem hér er gert ráð fyrir, þá hygg ég, að þeir menn, sem að skólunum standa, muni fúslega leggja á sig þær byrðar, sem þeir hafa haft af þessu. Nú liggja ekki fyrir upplýsingar um, hverju þetta muni nema fyrir ríkissjóð nú í bili, hvað þá heldur í framtíðinni. Fræðslumálastjóri hefir lofað að útvega okkur upplýsingar um, hverju þetta muni nema, en við lauslegt yfirlit, sem var gert á fundi n., kom það í ljós, að skuldirnar. sem hvíla á héraðsskólunum, muni vera hátt á 4. hundrað þús. krónur. Mér skilst þess vegna, að ríkissjóður muni taka á sig með þessum l. upp undir 100 þús. kr. Það er því auðsætt, að ríkissjóður er að binda sér þarna bagga, sem virðist ganga mjög í öfuga átt við það, sem mikið er rætt um nú, að reyna að draga sem mest úr útgjöldunum.

Ég vil svo áður en ég sezt niður, samræmisins vegna, benda hv. flm. á það, að hann á hér till. á þskj. 414 við „höggorminn“. Síðasti liðurinn í þeirri till. er um það, að þeir, sem eiga að fá inngöngu í menntastofnanir, verði að hafa vottorð frá formanni búnaðarfélags í sveit um, að þeir hafi dvalið, eftir 13 ára aldur, árlangt í sveit og fengið góðan vitnisburð. Ef nemandinn hefir ekki fengið góðan vitnisburð, getur hann ekki komizt inn í skólann. Nú er ég ekki fylgjandi þessari brtt. Þess vegna mun ég ekki þurfa að flytja brtt. við hana, en samræmisins vegna ætti hv. flm. að flytja brtt. við hana um það, að þeir, sem vilji fá inngöngu í héraðsskóla, skuli hafa unnið árlangt í kaupstað við algeng störf og fengið vottorð þar um frá t. d. sjómannafélagi eða öðru slíku félagi, þar sem fram væri tekið um vitnisburð o. s. frv. Mér finnst þetta sjálfsagt, og þegar maður fer að hugsa betur um þetta, þá er raunar ekki víst nema það sé töluverð „raison“ í þessu. Við skulum hugsa okkur t. d., að ég á 13 ára pilt, sem ég vil koma í skóla. Ég kem honum til kunningja míns uppi í sveit, en tek þá ef til vill son hans í staðinn, til þess að hann geti búið sig undir að fara í héraðsskóla. Vitanlega fer það svo eftir vitnisburðinum, sem ég gef honum, hvort hann fær inngöngu í Laugarvatnsskólann. Þessu vildi ég beina til hv. flm., til þess að hann geti undirbúið þessa till. fyrir 3. umr.