15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Jónas Jónsson) :

Það fór eins og ég bjóst við, að síðasti ræðumaður myndi koma með ýms rök fyrir sínu máli. Og þó ég ætli ekki að ræða neitt verulega það mál, sem hann kom inn á, en er annars þessu máli óviðkomandi, þá verð ég að segja það, að hann hefir þar nokkuð til síns máls. Það er ágætt fyrir sveitafólkið að kynnast kaupstaðarlífinu, en það gerir það bara sem stendur án þess að því hafi verið gefin skipun um það. Í þessu sambandi vil ég benda bv. þm. á það, að það hefir tíðkazt talsvert mikið, að stúlkur hafa verið einn vetur eða svo í kaupstað, og margar þeirra hafa án efa lært þar mjög margt gott, alveg eins og ætlazt er til, að bæjarbörnin geri í sveitinni. Ég get ennfremur sagt hv. þm., að þegar ég kenndi börnum fyrir 25 árum, þá var einn drengur hjá mér í nokkur ár, sem var einhver sá óþægasti, sem ég hafði með að gera, en hinsvegar mjög skemmtilegur að mörgu leyti. Síðar fór hann upp í sveit og hefir orðið þar myndarmaður, hefir verið bæði hreppstjóri og oddviti í sinni sveit og gert miklar og góðar jarðabætur. Þegar ég sé þennan mann, þá segi ég stundum við hann, að hann eigi sjálfsagt mikið af sínu gengi í sveitinni að þakka því, sem hann lærði á götunni í Reykjavík. Ég hefi aldrei neitað því, að bæjarlífið getur kennt mönnum ýmislegt, t. d. hvernig það eigi að vara sig á ýmsum freistingum.

Ég skal svo víkja mér að því máli, sem til umr. er.

Ég vil fyrst byrja á því að útskýra dálítið, hvers vegna ég álít það óheppilegt, ef brtt. hv. 9. landsk. yrði samþ. Ef við athugum, hvað hefir breytzt síðan þessir skólar voru stofnaðir, þá kemur þetta í ljós. Það, sem menn höfðu þá í huga, voru unglingaskólar fyrir sveitirnar. Fyrir stofnun þessara skóla var þá mikill áhugi og menn lögðu á sig miklar fórnir til að hægt væri að koma þeim upp. Ég nefni til dæmis Borgarfjörð. Það voru mörg félög og einstaklingar í héraðinu, sem gáfu stórgjafir til þess að byggja Reykholtsskóla og stuðluðu að því á annan hátt. Þetta hérað hefir lagt mest til síns héraðsskóla, en önnur héruð hafa lagt fram mikið fé til skólabygginga í héruðunum. En síðan þetta gerðist hefir aðstaðan breytzt. Þessir skólar voru byggðir flestir á heitum stöðum. Og þetta leiddi til þess, að þegar búið var að byggja þá, fór að myndast sú krafa, að þessir staðir tækju á móti gestum á sumrin. Þetta kom í raun og veru af sjálfu sér, og þetta var ekki beinlínis gróðavegur fyrir stofnanirnar, því að enginn skólinn hefir í raun og veru haft tekjur af þessu, nema þá Laugarvatnsskólinn, og hann þó ekki eins mikið og menn skyldu halda. En þarna kom nýtt „problem“ til sögunnar. Þessir skólar voru orðnir gistihús án þess að við því væri búizt fyrirfram. Það eru að vísu myndarleg hús á þessum stöðum og fullsæmilegur útbúnaður, eða a. m. k. útbúnaður, sem skólafólk sættir sig við, en hann er náttúrlega öðruvísi en venja er á hótelum. Þau húsgögn, sem upphaflega voru keypt í þessa skóla, standast ekki þær kröfur, sem gestir gera til gistihúsa, og þetta er ósköp eðlilegt. Fátækt þessara stofnana hefir líka orðið meira áberandi fyrir það, að á fyrstu árum þeirra kom kreppan, sem gerði það að verkum, að ekki hefir verið hægt að ljúka við neinn af þessum skólum. Nú vil ég benda hv. 9. landsk. á það, að jafnvel í Reykjavík var ekki hægt að koma upp því eina gistihúsi, sem sómasamlegt má teljast til að taka á móti t. d. erlendum gestum, án þess að fá bæði ábyrgð bæjarsjóðs og ríkissjóðs. Og þó lítur nú út fyrir, að sá maður, sem réðst í að byggja þetta hótel, sem mun hafa lagt í það talsvert af sinum eignum, hann muni tapa öllu sínu í þetta, og nú liggur það fyrir þinginu, hvernig eigi að hjálpa til þess, að þetta hótel geti haldið rekstri sínum áfram. Nú vil ég spyrja hv. 9. landsk., hvort honum finnst von til þess, úr því að ekki var hægt að koma þessu gistihúsi upp án opinberrar aðstoðar, að þá sé hægt að ætlast til þess, að hægt sé að starfrækja gistihús í héraðsskólunum til mikils hagnaðar. Það kann að vera, að einhver segi, að úr því svona hótel beri sig ekki, þá hafi verið ástæðulaust að vera að byggja það. En þarna kemur bara annað til greina, og það er metnaður bæjarins og landsins. Ég man eftir, að Kristján Albertsson sagði einu sinni við mig: „Ég verð oft að segja við vini mína erlendis. að ég vilji ekki, að þeir fari heim, því ekkert gistihús sé til í Reykjavík.“ Þannig var ástandið. Bærinn var í heild sinni orðinn miklu myndarlegri en þau gistihús, sem hér voru. Þetta var að mínu áliti alveg rétt hjá Kristjáni Albertssyni. Ég vil nú segja við 9. landsk., að þetta nýja hlutverk, sem héraðsskólarnir hafa fengið, er landinu nauðsynlegt, alveg eins og það var nauðsynlegt að byggja hótel í Reykjavík. Það er nauðsynlegt að hafa einn stað í hverju héraði, sem er fullkomlega í samræmi við okkar nútímalíf. En eins og lífið er orðið í landinu, þá er erfitt að samrýma gistihúshaldið búskapnum á sveitabæjunum; slíkt samrýmist ekki nútímabúskaparháttum. Þórhallur biskup sagði fyrir mörgum árum, að hann vildi láta ferðamannastrauminn fara eftir vissum leiðum, en ekki vera um sveitabæina. Hann hefir verið forsjáll. Metnaður þjóðarinnar hlýtur að krefjast þess, að við getum tekið sómasamlega á móti erlendum ferðamönnum, sem hingað koma. En þetta getum við naumast eins og nú háttar. Einn hv. þm. sagði mér frá því, að einn þýzkur kunningi sinn, sem mikið væri búinn að ferðast hér á landi, hefði kvartað undan því, að hann hefði hvergi fengið nægilega löng rúm. Það er út af fyrir sig ekkert við þessu að segja. Við hér heima erum vön þessum rúmum, en útlendingar, sem öðru eru vanir, geta ekki sofið í þeim.

Ég á einn góðkunningja í Englandi, sem er hár maður vexti, álíka hár og hv. 9. landsk. Hann hefir gist víða á sveitabæjum hér á landi, því að hann er mikill laxakóngur. En þegar búið er að vísa honum til sængur, fer hann með rúmfötin niður á gólf og lokar herberginu, til að leyna því, að hann sofi á gólfinu og hringi sig þar saman. Svo er hann kominn upp í rúmið aftur áður en stúlkan kemur á morgnana til að færa honum kaffi, því að fyrir kurteisissakir vill hann ekki láta húsbændurna verða vara við, að hann sofi á gólfinu.

Af skiljanlegum ástæðum getur enginn sveitabær verið hótel með Evrópusniði, því að við höfum ekki aðstöðu til þess, en úr því að við Íslendingar erum farnir að reyna að vera nútímaþjóð, verðum við að fara eftir því, sem ferðamenn krefjast. Það er mikið happ fyrir landið, að eiga eitt nýtízku hótel, Hótel Borg í Reykjavík. Héraðsskólarnir hafa yfirleitt verið byggðir þannig, að þeir geta rekið gistihús á sumrin sér að útlátalausu, eða jafnvel sér til stuðnings. Þetta eru raunar engin hærra stigs hótel, þau eru rekin vegna þjóðarnauðsynjar, en ekki sem gróðafyrirtæki. Ég tek t. d. einn hinn stærsta þessara skóla, héraðsskólann í Reykholti; hann hefir verið leigður góðri veitingakonu yfir sumartímann fyrir 700 kr. Þetta er stærðar hús, og það er lagt til gufa og rafmagn, svo að heita má, að hún hafi öll gæði, en þó held ég, að hún geti ekki borgað meira sér að skaðlausu.

En í viðbót við þetta vil ég segja það, að ég held, að þjóðarnauðsyn krefjist þess, að þessir skólar geti orðið sæmileg gistihús. Að vísu er ekki ætlazt til þess, að þeir geti keppt við hótel annarstaðar en í sveit, t. d. alls ekki við hótel í höfuðstað landsins, hvað allan algengan aðbúnað snertir. En enginn maður mun vera óánægður yfir því að geta haft þar nægilegt fæði og annan þann útbúnað, sem nauðsyn er til að skólatímanum loknum. Þegar ferðamannastraumur frá útlöndum kemur hingað, sumpart með skipum og sumpart með flugvélum, munu þeir ferðast viða um landið og skilja eftir peninga, en í raun og veru eru það ekki gistihúsin, heldur eins mikið verzlanir, sem græða á því.

Þá vildi ég ennfremur víkja að fleiri atriðum í ræðu hv. 9. landsk. Ég er honum þakklátur fyrir skilning hans og samúð bæði á þessu, sem um talsverðar breyt. á íþróttamálum, fullkomna íþrótta- og vinnuskyldu. Ég held, að af því að héraðsskólarnir eru svo fátækir, verði þeim ómögulegt að bæta á sig mjög miklu átaki, eins og gera þyrfti til þess að koma 600 manns á ári að vinnunámi þar. Það hefir verið talað um það sem stórt átak að koma upp 60 nemenda vinnuskóla að sumri til, en það væri afarmikilsvert, ef hægt yrði að koma 600–700 manns til nokkurra verka í 1–2 vetur, án meiri tilkostnaðar eða áhættu en hér er farið fram á. Ég óttast það, að ef brtt. frá hv. 9. landsk. yrði samþ. um leið og kröfurnar til skólanna eru auknar, yrði þessu nýja kerfi ekki komið á. Skuldir hvíla á skólunum, sem nú þrýsta þeim niður.

Ég get nefnt það fyrir þá, sem ekki eru þessum málum kunnugir, að það þarf að koma upp mjög ódýrum vinnuskúrum, sem eru upphitaðir. T. d. hefir á einum stað verið reistur vinnuskúr fyrir 20 menn, sem kostaði litið, — eitthvað um tvær þúsundir kr. Grindin var af einfaldri gerð, klædd pappa og bárujárni að utan, en rafmagnsljós og upphitun var í góðu lagi. Þetta hús er hlýtt og bjart, að vísu ekki fínt, en þó vel hægt að nota það. Ég býst við, að eins og nú standa sakir, sé mikil nauðsyn að koma upp svona skólum með ýmiskonar áhöldum, sem þörf er að hafa við kennsluna.

Ég ætla síðar að taka eitt dæmi, að vísu af einum skuldugasta skóla landsins, Laugarvatnsskólanum. Ég get tekið annan skóla fyrst, héraðsskólann á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu, sem skuldar um 55 þús. kr., og varð auk þess fyrir óhappi út af rafstöðinni, er þar var sett upp, svo að hennar vegna komst hann í 22 þús. kr. skuld, þar sem maðurinn, sem samið var við um rafveituna, var .,ósólid“, en líklegt má telja, að skólinn sleppi við þá skuld með því, að helmingur þeirrar upphæðar verði borgaður, eða um 10 þús. kr. Þetta er skóli, sem hefir ekki neitt svo teljandi sé upp úr sér á sumrum, og það er erfiðleikum bundið fyrir hann að borga þessar 65 þús. kr., því að heita má, að hann hafi ekki aðrar tekjur en kennslugjaldið.

Nú ætla ég að taka dæmi af stærsta héraðsskólanum, sem skuldar helmingi meira, en hefir 160 nemendur, og er nú eini héraðsskólinn, sem er e. t. v. of stór, eða sem a. m. k. enginn óskar eftir að verði stærri. Hann stendur nærri Reykjavík, hefir verið talsvert sóttur þaðan, og hefir mesta aðsókn af skólum þessa lands. Hagur hans er þannig, að bygging hans kostaði nærri ½ millj. kr., og var þess fjár sumpart aflað með gjöfum og samskotum; lagt fram um 60 þús. kr. af einstökum mönnum, sýslunni og hreppnum. Svo var tekið lán til skólans að upphæð 150 þús. kr. Það, að núverandi skólastjóra, Bjarna Bjarnasyni, tekst að halda þessu gangandi, stafar aðeins af dugnaði hans. Hann hefir haft leigu fyrir húsið á sumrum, en þó hygg ég, að hreinar tekjur af gistihúsinu á Laugarvatni hafi að jafnaði aðeins numið 10–12 þús. kr. á ári. Húsið þar er ekki heldur sambærilegt við hin stóru hótel í Reykjavík, sem hafa haft aðstöðu til að velta fram skuldum.

Svo að ég taki aðeins eitt dæmi, þá vantaði stóla á Laugarvatni. Skólastjórinn tók sig þá til og lét smiða 100 stóla, en efnið í þá kostaði 700–800 kr. Þótt ekki væri nema að smíða stóla, myndu nemendur spara skólunum stórfé. Ég hygg, að þarna veiti ekki af 600–700 stólum í viðbót til að fullnægja bæði vetrarþörfum og sumarþörfum.

Í Laugarvatnsskólanum eru venjulega um 150 nemendur, þar af hérumbil 40 úr Árnessýslu, þ. e. a. s. nálægt fjórði hlutinn. Þá kemur þetta spursmál: Á hún að standa straum af skólanum ein, þó að það séu um 110 nemendur árlega, sem eru annarstaðar að af landinu; margir úr Rangárvallasýslu, sem ekki hefir lagt neitt fé fram til byggingar skólans, Vestur-Skaftafellssýsla ekki heldur og Reykjavík ekki neitt, nema að því leyti, sem skólinn hefir verið byggður á kostnað ríkisins?

Ég hefi skotið þessu til hv. 9. landsk. Málstaður þessa hv. þm. er ekki eins sterkur og hann gæti virzt í fyrstu. Hvaða ástæða er til þess, að Árnessýsla kosti Laugarvatnsskólann að öllu leyti, aðalsumargististað Reykvíkinga og þar sem 3/4 af þeim nemendum, er sækja skólann, eru annarstaðar að af landinu? Það má Árnessýsla hafa. Hún á engan lögfræðilegan kröfurétt til að fá þetta endurgoldið.

Sama á við um alla hina héraðsskólana; þetta eru orðnar landsstofnanir. Mér finnst það nærri þakkarvert við héruðin, ef þau hafa getað lagt fram ¼ af stofnkostnaði. Þetta eru orðnar svo að segja alþjóðlegar stofnanir á sumrin, og verða það meir og meir. Ef ekki hefði komið stríð, myndi Esja hafa flutt 150 manns á viku milli Íslands og útlanda, og skip Eimskipafélags Íslands meira hálfsmánaðarlega. Sannleikurinn er sá, að það má vel vera, að héraðsskólarnir séu hentugir gististaðir fyrir fólk, sem vill koma hingað. En ég vil spyrja: Til hvers er að hafa byggt sérstaklega fínt skemmtiskip fyrir svona fólk, þegar aðbúnaðurinn er þannig á gististöðunum, að það verður að taka rúmfötin úr rúmunum og hringa sig eins og litlir seppar á gólfinu í þeim herbergjum, sem það fær? Getum við annars í alvöru tekið á móti erlendum gestum, þegar allt er svona óundirbúið?

Ég hefi ferðazt nokkuð í Noregi og hefi lagt mig fram að kynnast því, sem þar er helzt sjónarvert viðvíkjandi móttöku ferðamanna. Mín reynsla frá Noregi, þar sem landshættir eru líkir og hér á Íslandi, um það, hvernig þeir ferðast, og hve miklar kröfur eru gerðar á sumargististöðum, til þess að mæta þörfinni, er sú, að íslenzku héraðsskólarnir muni geta staðizt samkeppni við þá norsku, ef við hlúum að þeim svipað því, sem þar er gert.

Auðvitað er það mjög mikilsvert atriði, að nemendur skólanna eiga að starfa, þeir eiga að smíða og hjálpa upp á skólana á ýmsan hátt, eins og ég hefi sagt. Ég hefi nefnt eitt dæmi um smiði húsgagna á Laugarvatni. Ég talaði við núverandi skólastjóra þar, Bjarna Bjarnason, í gær og spurði hann, hvernig hann héldi, að skóli hans stæði, ef þetta frv. næði fram að ganga hér á Alþ. með þeim auknu kröfum og breyt., sem í því felast, ef unnt væri að létta skuldunum af skólunum eða færa þær þannig til, að þeir þyrftu ekki að öllu leyti að standa straum af þeim. Hann sagðist alls ekki óska eftir að fá þessar auknu kröfur, því að hvernig ætti hann að geta staðið undir hinum nýju kröfum, ef hann yrði að basla áfram með þessar gömlu skuldir?

Ég vildi spyrja hv. 9. landsk., hvort hann gæti ekki hugsað sér að ljá þessu máli stuðning sinn, til þess að það gæti gengið áfram, og það af þeim rökum, sem ég hefi fært fyrir því, — þó að till. hans yrðu ekki samþ. Það er athugavert, hvort þessar óhjákvæmilegu endurbætur, sem gerðar verða fyrir þjóðina, verða henni ekki ofviða, hvort hún getur staðið undir þeim. Þar þarf að koma fleira til.