15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

149. mál, héraðsskólar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er ekki í fyrsta skipti, sem hæstv. forseti mælist til þess við mig að vera stuttorður, og skal ég að vísu verða við þeirri beiðni, enda get ég sagt það, að ég er yfirleitt samþykkur þessu frv., að undanteknu því ákvæði, sem er í 13. gr. Ég verð að segja það, að ég óska þess, að hér í sambandi við þetta frv. verði skýrt frá, hve há upphæð stofnkostnaður þessara skóla hefir verið, svo að unnt sé að segja til um, hvort á að láta þá fá meiri styrk. Ég vil fá að vita þetta, til þess að ég geti gert mér grein fyrir þessu máli. (JJ: Ég held, að þeir skuldi alls um 400 þús. kr.). Mat á þessum framlögum héraðanna er að sjálfsögðu oft mikið álitamál. Ég hefi ekki séð neitt, sem gæti orðið til að rengja áætlanir hv. þm. S.-Þ. um fjárhagshlið þessa máls, en vitanlega verður hæstv. ríkisstj. að láta meta vinnuframlögin og fleira. Eitthvað hefi ég heyrt talað um hitaveitur. Ef ríkisstj. er búin að samþ. ákveðna veitingu, er kannske ekkert um það að tala, en þó finnst mér Alþ. eiga heimtingu á, að skuldaskýrslur skólanna séu lagðar fram, svo að ljóst sé, hvað þörf er að greiða fyrir skólana. Einn lítill héraðsskóli, skólinn á Núpi í Dýrafirði, mun ekki skulda nema 5–6 þús. kr. (JJ: Hann skuldar um 10 þús. kr.). Hann myndi þá e. t. v. fara að leggja í sjóð, ef hann væri búinn að fá allar þessar greiðslur. Mér virðist eftir frv. að dæma, að ríkissjóður eigi jafnt að borga ¼ af stofnkostnaði héraðsskólanna, hvort sem skólarnir skulda svo mikið eða ekki. En mér finnst satt að segja nú vera þeir tímar, að nauðsyn heri til að fara gætilega í það, að leggja byrðar á ríkissjóð, því að vel kann svo að fara, að skólarnir gangi mjög fast eftir því, að ríkissjóður greiði annaðhvort þessi framlög í peningum sem allra fyrst, eða þá að ríkið taki á sig eitthvað af skuldum skólanna, en ég tel hér um bil sama, hvort af þessu tvennu er. Það er einkum héraðsskólinn í Árnessýslu, sem er mjög skuldugur. En eins og tímarnir eru nú, tel ég ekki rétt fyrir ríkissjóð að taka á sig þau útgjöld, sem ekki eru bráðnauðsynleg, en hinsvegar, ef eitthvað rofar til, þá er allt öðru máli að gegna, og þá gæti maður reynt að hjálpa héraðsskólunum eftir því sem ástæður leyfðu.