18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

149. mál, héraðsskólar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil segja fáein orð um þetta frv. Það er flutt að tilhlutan kennslumrh., en vinnuna við frv. og tilhögun þess hefir hv. flm. og frsm. frv. algerlega annast.

Þetta mál hefir verið rætt mjög mikið að undanförnu meðal allra landsmanna, og ég veit, að ég tala þar fyrir munn mjög margra, þegar ég segi, að mjög mikill áhugi sé fyrir þessu frv.

Ástæðurnar til að ég tel, að þetta frv. elgi að ganga fram, eru hinar sömu og lágu til þeirra breyt., sem gerðar voru á bændaskólal., þegar komið var þar á meiri vinnu. Það er skoðun mín og ég trúi því, að við þurfum í þessu landi að hafa skóla fyrir vinnu, ekki síður en fyrir bóklega fræðslu. Vinnan er svo stór þáttur í lífi okkar, sem lifum að mörgu leyti við erfið skilyrði í þessu landi, að við þurfum á því að halda að kenna mönnum að vinna og kenna þeim að vinna réttilega. Ég hefi ekki trú á, að sú tækni, sem nú er almennt nauðsynlegt að nota, verði gerð tiltækileg okkur á annan hátt en þann, að útfæra hana á vinnuskólum.

Ég býst ekki við, að við þurfum að fara um þetta mörgum orðum. Sjálfsagt eru hv. þm. alveg sammála um þetta atriði. Það hefir líka fengizt nokkuð mikil reynsla í þessu. Við vitum, að þeir menn, sem fengið hafa búfræðimenntun og stundað hafa vinnunám erlendis, skera sig úr meðal þeirra manna, sem búfræðikunnáttu hafa í þessu landi. Þeir eru langsamlega fremstir og hugkvæmastir í öllu því, sem þessari starfsgrein við kemur. Sú sama var reynslan af skóla Torfa í Ólafsdal. Þeir, sem þaðan komu, skáru sig úr meðal búfræðinga hér á landi.

Það er enn meiri þörf á vinnuskóla nú, þegar nútíminn býður upp á margskonar tækni, sem ómögulegt er að læra á hinum einstöku heimilum í sveitum landsins, heldur verður að stofna sérstök heimili í sveitunum til þess að kenna fólki að notfæra sér þessa tækni.

Margt af því fólki, sem útskrifazt hefir frá þessum skólum, hefir lagt meiri stund á fræði, sem því er ekki nauðsynlegt að hafa þekkingu á til þess að gegna þeim störfum, sem skólunum er ætlað að búa það undir. Það vill því stundum verða þannig, að sumir af þessum skólum verði áfangi yfir í annað.

Ég held, að þær breyt., sem hér eru gerðar, séu til stórfelldra bóta, ef rétt er á haldið, og þó þær hafi nokkurn aukinn kostnað í för með sér, þá álit ég, að við megum ekki horfa í þann kostnað. Það má að vísu um þetta deila á tímum eins og þeim, sem nú eru. Þeir, sem andmæla þessu á þeim grundvelli, hafa auðvitað nokkuð til sins máls. En ég held, að það megi ekki horfa í þann kostnað, sem í þetta fer. Þess ber líka að gæta, að svo gætilega er ákveðið í frv., að útborgun þessa fjár fer eftir ákvæðum fjárl. og er skipt niður á langt tímabil.

Ég geri ekki ráð fyrir, að mikið fé verði veitt til þess að stækka skólana á meðan hinir erfiðu tímar eru, því það er ekki hagkvæmt, þegar búast má við því, að hverjar 3 kr., sem settar eru í byggingar á meðan á stríðinu stendur, jafngildi 1 kr., þegar stríðinu léttir af. Að vísu mun það vera svo, að eitthvað af stofnkostnaðinum myndi ríkið þurfa að taka að sér eftir að lögin hefðu fengið staðfestingu.

Ég vil líka benda á það, sem fært hefir verið fram til stuðnings þessu máli, að það sé sanngirnisatriði, að ríkið hlaupi hér undir bagga, þar sem þessir skólar hafa orðið aðalhótelin úti um sveitir landsins, sem kaupstaðarbúum og öðrum þykir þægilegt að dvelja á. Það er ekki sjáanlegt, að það verði fundnar heppilegri leiðir til þess að byggja upp hótel í sveitum landsins.

Þegar talað er um eyðslu. í þessu sambandi, þá er í raun og veru ekki rétt að kalla þetta því nafni. Það er ekki vafi á því, að við erum hér að ræða um það mál, hvernig eigi að koma í veg fyrir, að fólk flytji úr sveitunum. Það hefir verið samþ. till., þar sem veitt er heimild til að flytja þann vinnukraft til, sem safnazt hefir fyrir í bæjunum. Þetta frv. er spor í þá átt, að fólksstraumurinn til bæjanna verði stöðvaður að einhverju leyti, þar sem hér er verið að stuðla að því, að hægt sé að búa þetta fólk þannig undir lífið, að það sé fært um að taka að sér störf í sveit og geti lifað þar viðunandi lífi. Ég álít, að þetta frv. sé verulegur þáttur í að fyrirbyggja það misvægi í þjóðfélaginu, sem rætt hefir verið um í sambandi við framfærslul., og við vorum einnig að tala um, þegar rætt var um að setja byggðaleyfi. Það er þáttur í að forða bæjunum frá því öngþveiti, sem þar hefir skapazt með aðstreymi fólks úr sveitum landsins. Það stefnir að sama marki og ýmislegt annað, sem hér hefir verið gert, að laga það ósamræmi, sem orðið er á vinnukraftinum í landinu, þar sem fólki í kaupstöðum er haldið uppi með atvinnubótavinnu á meðan sveitirnar vantar vinnukraft. Það verður ekki hjá því komizt, að ríkissjóður taki á sig einhverjar byrðar til þess að laga þetta ósamræmi.

Ég er fylgjandi þessu frv. líka af því að ég álít, að það geti orðið drjúgur þáttur í að koma í veg fyrir þessa flutninga úr sveitunum til kaupstaðanna.

Ég verð að viðurkenna, að þetta símskeyti frá kennurunum á Laugarvatni skyggir á þetta mál fyrir mér, ekki af því, að ég taki það sem rök, heldur af því, að til skuli vera sá hugsunarháttur að mótmæla þessu frv., sem tvímælalaust gengur í umbótaátt, á þeim grundvelli, að þessari stétt sé ekki ætlað nema mánaðar sumarfrí. Margir í þessari hv. d. og mjög margir aðrir þegnar þjóðfélagsins myndu telja vel viðunandi fyrir sig. ef þeir fengju mánaðar sumarfrí. Á hitt ber auðvitað að líta, sem ég er ekki nægilega kunnugur, hvernig launakjör þessara kennara eru. Það er sjálfsagt að taka það til athugunar. En að mótmæla þessu á þeim grundvelli, að stéttin eigi ekki að fá nema mánaðar sumarfrí, er sorglegur hugsunarháttur. Ég þykist ekki hafa neitt sérstaklega mikið að gera og ekki meira en margir aðrir, en ég myndi samt telja þakkarvert, ef ég gæti tekið mánuð á hverju sumri til þess að hvíla mig. — Sá hugsunarháttur þarf að vera til staðar í kennaraliðinu, og hann er í raun og veru eina tryggingin fyrir því, að frv. komi að fullum notum. Það er ómögulegt að neita því, að honum er ábótavant í okkar þjóðlífi, ef til vill vegna þess, að lífið er nú einu sinni þannig, að það gengur mikið í öldum. Það er eins og hræðsla eða geigur við vinnuna sé til hjá landslýðnum og er slíkt ákaflega hættulegt fyrir þjóðlíf okkar. Ég held, að það stafi af þeirri ofþjökun vinnunnar, sem þjóðin varð að liða um margra alda skeið. Eins kann það að vera þess vegna, hve mönnum hér gengur ákaflega illa að hlýða öllum yfirvöldum og fyrirskipunum og líta þau hornauga. Þessi óbeit á vinnunni er nú ríkjandi hugsunarháttur í okkar þjóðfélagi, og honum þarf að útrýma. Með þessu frv. er gerð tilraun til þess að gera fólkinu skiljanlega blessun þá, sem vinnan veitir. Ég álít, að ef þetta frv. verður framkvæmt eins og ég vona að verði, geti það orðið stór þáttur til umbóta í okkar þjóðlífi. Þess vegna vil ég mæla með frv. eins og það liggur fyrir.