18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

149. mál, héraðsskólar

*Árni Jónsson:

Ég er hæstv. forsrh. sammála um það, að auka beri vinnuna og virðingu fyrir henni. Vinnuaðgerðir eiga að koma í veg fyrir það, að fólkið streymi úr sveitunum, og þeir, sem fara í sveitaskólana, séu betur undirbúnir í verklegum efnum en verið hefir hingað til. Ég er líka sammála honum og hv. flm. um það, að ákvæði frv., sem miðar að aukinni vinnukennslu í skólum, sé til mikilla bóta, og er fylgjandi frv. að efni til. En það er misskilningur hjá hv. þm. S.-Þ., og það kom einnig fram hjá hæstv. ráðh., að ég væri á móti þessu frv. vegna þeirrar efnisbreytingar, sem snertir kennara í skólum. Það er ekki þess vegna. Ég benti á það í n., að ef svo væri, að kennarar vildu ekki sætta sig við þau kjör, að fá aðeins einn mánuð frí, í staðinn fyrir 6 mánuði, væri ekki til neins að lögleiða eins mánaðar frí, vegna þess að kennarar eru ráðnir upp á að hafa frí í 6 mán. En þegar ég hreyfði þessu í n., var alveg tekið fyrir það af hv. flm., að þetta gæti valdið árekstri og kennarar vildu ekki sætta sig við það. Ég ber það undir þá, sem með mér unnu í n., hvort hér sé ekki rétt með farið frá minni hálfu.

Ég spurðist fyrir um það í n. og ítrekaði þá spurningu áðan, hverju myndi nema sá kostnaður fyrir ríkissjóð, sem af frv. leiddi. Hv. flm. gerði nokkra tilraun til að svara í n. og tók upp úr vasa sínum skjal, sem gaf þær upplýsingar, að stofnskuldir skólanna mundu nema 400 þús. kr. Nú bað ég hann áðan að gera nánari grein fyrir þessum kostnaði ríkissjóðs, að þurfa að greiða framvegis ¾ stofnkostnaðar í stað þess að greiða ¼ eins og hann gerir nú. En í stað þess að svara þeirri spurningu, talaði hann um fátækraframfæri og ríkisábyrgð. Mér hefði þótt nær að heimila einhverja ákveðna upphæð heldur en blanda óskyldum efnum inn í þessa umr. Mér lízt svo, að þetta frv. geti ekki náð fram að ganga, nema með því móti, að ríkið taki á sig stórauknar byrðar vegna kennslunnar í skólunum. Ég hefi ekki orðið var við, að neitt hafi komið fram, sem sýni, að héruð þau, sem nú standa undir skólunum, myndu ekki vera eins fær um það þrátt fyrir skipulagsbreytingu þá, sem hér er gerð. Það vantar allar upplýsingar um það. Nú er líka svo, að þetta framlag ríkissjóðs er ekki réttlætt með því; það var það ekki við 2 umr., og er ekki enn. Þetta framlag er ekki veitt vegna skólanna sjálfra, heldur til þess að hætt sé að starfrækja þá sem gistihús á sumrin. Ég benti á það um daginn, að því aðeins færu skólarnir að reka gistihús, að þau bæru sig , og því er minni ástæða fyrir ríkissjóð að auka framlag til þeirra skóla, sem búið er að snúa í gistihús.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta öllu meira. Ég hefi ekki fengið réttar upplýsingar hjá formanni menntmn. um undirtektir manna, sem frv. snertir. Samkv. upplýsingum hans var leitað álits kennara um málið, en það er þegar komið í ljós, að svo hefir ekki verið gert. Í frv. eru ákvæði, sem koma algerlega í bága við vilja þeirra, og nú þegar hafa borizt mótmæli frá einum þessara skóla. Má búast við, að fleiri skólar sendi mótmæli, þegar tími hefir unnizt til þess, en sá, sem mótmælin sendi, hefir beztar samgöngur við Reykjavík. Ég verð að telja, að við höfum fengið rangar upplýsingar um þetta. Í öðru lagi tel ég, að form. menntmn. hafi ekki nægilega upplýst þann mikla kostnað, sem af þessu leiðir. Þess vegna álít ég, að ekki sé rétt að láta málið ganga lengra að þessu sinni en þegar er orðið.