18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

149. mál, héraðsskólar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það, sem hefir gefið mér tilefni til þess að standa upp, eru ýms ummæli, sem hafa fallið hjá síðustu ræðumönnum. Ég skal þá fyrst svara hv. 9. landsk., þar sem hann spyr um réttlæti þeirra orða, sem fallið hafa í n. gagnvart kennurum. Ég hygg, að það sé ekki rétt hjá form. n., þegar hann taldi, að það væru engin tvímæli á, að fullt samkomulag hefði fengizt um þetta milli kennara. Það var nú einmitt út af þessum blessuðum kennurum, sem ég vildi segja nokkur orð og um ummæli hv. flm., þm. S-Þ. Hann gaf í skyn, að þessir kennarar, sem hefðu sent skeyti til Alþ. frá Laugarvatni, — og var þungi í orðum hans, er hann mælti á þá leið — gætu fengið sinn „reisupassa“, ef þeir vildu hafa hátt um sig. Ég á erfitt með að þola þennan tón gagnvart starfandi mönnum í þjóðfélaginu, hvort sem það eru kennarar eða ekki. Mega menn ekki hafa skoðun á einhverju máli og senda mótmæli til Alþ. án þess að það kosti þá atvinnuna. (JJ: Ef kennarar vilja heldur fara, þá það). Þeir hafa aldrei talað um það, að þeir ætli að fara frá skólunum, því engan langar til að gerast atvinnulaus. Það getur vel verið, að kennarar hafi ekki fengið fullkomnar upplýsingar um málið og hafi þess vegna gert þessi mótmæli. En þeir telja, að nokkuð sé gengið á þeirra rétt, að lengja starfstímann um 5 mán. án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Þetta er ekki nema mannlegt. En ef kennarar svo mótmæla einhverju, þá er bara sagt við þá: Ef þið leyfið ykkur að segja nokkurt orð, þá getur það kostað ykkur atvinnuna. — Það er þessi tónn, sem ég þoli ekki, hvar sem hann kemur fram. (JJ: Hv. þm. breytir ekki lögum landsins). Nei, ég breyti þeim ekki, ekkert frekar en hv. flm., en það er talað um, að hér sé málfrelsi og ritfrelsi. Þess vegna á mönnum að vera frjálst að láta skoðanir sínar í ljós án þess að vera ógnað með atvinnusviptingu.